12.06.1985
Neðri deild: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6379 í B-deild Alþingistíðinda. (5802)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Frsm. 3. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Þar var komið í þessu máli að ég hafði gert að umræðuefni það sem mér fannst vanta á um stefnumörkun í sambandi við hlutafélag til að örva nýsköpun í atvinnulífi og um heimildir annarra til þátttöku í félaginu. Ég hafði lýst því yfir að mér sýndist á máli þessu að nauðsynlegt væri þegar á þessum degi afgreiðslunnar að taka til þess afstöðu á hvaða sviði þetta félag ætti sérstaklega að beita sér. Ég hafði lýst þeirri skoðun minni að það væri ekki nóg að tala um nýsköpun í atvinnulífi og að beina kröftum félagsins að því vegna þess að hinir ýmsu möguleikar til nýsköpunar í atvinnulífi eru afar mismunandi. Sumir eru mjög fjárfrekir, aðrir ekki. Sumir eiga í ýmsa sjóði að venda en aðrir ekki.

Það er ekki endilega víst að t. d. fiskeldi og rafeindaiðnaður eigi samleið þarna. Þó að í báðum tilfellunum sé um að ræða nýsköpun í atvinnulífi, þá er samt sem áður um það að ræða að þessar greinar eru mjög misfrekar til fjármagnsins. Það væri auðveldlega hægt að setja upp heilt fiskeldisbú fyrir alla þá peninga sem fyrirsjáanlegt er að þetta ágæta félag hafi til umráða.

Þess vegna tel ég að það þýði ekki að setja fram svona hugarfóstur án þess að marka því miklu ákveðnari stefnu, án þess að menn hafi fastmótaðar hugmyndir um að hvers kyns verkefnum það eigi að snúa sér.

Ég tel líka að það sé í raun og veru verið að koma upp barnaherberginu, uppeldisstofnuninni, áður en nokkrar líkur eru á því að getnaður verði, að því leyti að það er ekki ljóst að það hafi neinn áhuga á að sinna þeim verkefnum sem þarna ræðir um. Það sem skiptir nefnilega mestu máli í þessu sambandi er að hafa uppi þær aðgerðir til örvunar og hvatningar sem leiða til þess að fólk kemur og vill taka þátt í hlutafélagi til að örva nýsköpun í atvinnulífi og þar fram eftir götunum. En þetta vantar algerlega. Ég gagnrýni enn og aftur þá staðreynd að yfirsmiðir þessa máls hafa hengslast yfir því í tæp tvö ár. Ríkisstj. hefði getað notað tímann til þess að hrinda þegar af stað nauðsynlegum undirbúningsframkvæmdum, þ. e. að koma af stað aðgerðum til hvatningar, til örvunar, til þess að vekja áhuga á þátttöku í svona apparati. Það þarf nefnilega að yrkja jörðina, það þarf að undirbúa hana og það þarf að sá mjög vandlega áður en menn geta vænst þess að þar verði mikil uppskera.

Mér virðist ríkisstj. eða fulltrúar hennar í hv. fjh.- og viðskn. í raun og veru viðurkenna þennan skort á áhuga og þennan skort á hvatningu, vegna þess að þeir flytja brtt., sem er nauðsynleg til þess að gera þeim kleift að koma á þessu hlutafélagi, í félagi við aðra án þess að nokkrir aðrir komi til en ríkisstj. ein. Ríkisstj. hefur líklega komið auga á það, hún hefur upplifað það einhvers staðar á sínu róli, að fólk beinlínis bíður ekki eftir þessu í löngum röðum. Þess vegna tel ég að hér sé verið að ganga rangt að hlutunum. Það vantar það almenna umhverfi hvatningar og driftar sem gerir svona félag nauðsynlegt.

Ég ræddi um það nokkuð í síðustu ræðu minni, eins og ég sagði reyndar í upphafi þessarar ræðu, að menn ættu að marka þarna mjög ákveðna stefnu og ákveðinn bás. Og sú stefna og sá bás á að vera á sviði smáfyrirtækjarekstrar. Ég lýsti því nokkuð í ræðu minni að fram hefðu farið rannsóknir erlendis á því að það væru smáfyrirtæki sem væru vaxtarbroddurinn í verðmætasköpun og atvinnusköpun alls staðar í heiminum. Og ég vitnaði til rannsókna sem höfðu verið gerðar bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum. Síðan hafa mér borist nýrri upplýsingar.

Ég vil t. d. vekja athygli á nýlegri grein í tímaritinu International Business Week, 27. maí 1985. Það er helgað, getum við sagt, þessari pólitík. Það fjallar um vöxt lítilla fyrirtækja í Bandaríkjunum. Þar er birtur listi yfir 100 fyrirtæki sem hraðast hafa vaxið þar á undanförnum misserum. Þau eru öll þessu markinu brennd. Þau eru öll lítil. Þau eru öll, má segja, í nýjum og óvenjulegum atvinnugreinum. Þau bera öll með sér ákveðin merki driftar og hvatningar og nýrra stjórnunarhátta. Og þau eru öll ávöxtur starfs sem hefur tekið mörg ár að byggja upp. Menn hlaupa nefnilega ekkert til og grípa fenginn. Nýsköpun dettur ekki ofan úr skýjunum.

Ég ætla nú ekki að gera langt mál úr þessari grein, en ég vil endilega benda mönnum á að kynna sér efni hennar. Eins og ég segi er þar lýst ýmsum almennum einkennum vaxtarins í atvinnulífi í Bandaríkjunum. Þar eru tekin út nokkur fyrirtæki og lýst séreinkennum þeirra og síðan er listi yfir 100 fyrirtæki sem hraðast hafa vaxið og mesta grósku hafa sýnt. Þau eru af þessari gerðinni. Það er hægt að hafa um þetta mörg fleiri orð, en ég ætla ekki að gera það að þessu sinni vegna þess að ég lýsti skoðunum mínum í þessum málum svo nákvæmlega í síðustu ræðu. En ég vil eindregið hvetja ríkisstj. til að taka upp markvissar aðgerðir til þess að hvetja fólk til þátttöku í atvinnulífi á þennan hátt sem ég hef lýst.

Ég harma að sjá í þskj. að það hefur orðið niðurstaða hv. atvmn. Sþ. að vísa þáltill. okkar Bandalagsmanna um eflingu og stuðning við rekstur og stofnun smáfyrirtækja til ríkisstj. á þeim forsendum að ríkisstj. sé nú þegar að vinna að þeim málum. Ég harma þessa niðurstöðu meiri hl. n. vegna þess að ríkisstj. er ekkert að vinna að þeim málum, ekki á þann hátt sem er nauðsynlegur.

Ég sagði í síðustu ræðu minni að það sem þyrfti að gerast væri að það myndaðist öflug skjaldborg um smáfyrirtækjarekstur, um hina nýju kosti atvinnulífsins, skjaldborg sem á sinn hátt væri jafn örlát eins og sú skjaldborg sem hefur myndast utan um stóriðjubransann hér á landi, þótt ég vonist til þess og fari fram á að ýmsir fylgikvillar stóriðjuæðisins, svo sem lífshættir þeir sem því tengjast og offjárfestingar sem þar hefur verið farið út í, nái ekki að hreiðra um sig í þessari nýju grein eða í hinni nýju stefnu smáfyrirtækjaiðnaðarins.

En nauðsynlegt er að það verði til jafn greinileg stefnumörkun af hálfu opinberra aðila í þessum atvinnuháttum eins og hefur orðið í stóriðju, þar sem menn á öllum sviðum finni til hvatningarinnar, þar sem örvunin nær út um allt þjóðlífið, þar sem hennar verður vart í skólunum, þar sem hennar verður vart á ríkiskontórunum, þar sem hennar verður vart á Alþingi, og þannig eignist hún baráttumenn um allt samfélagið. Og þetta gerist hraðast með því að þar taki ríkisvaldið forustu og beiti þeim ráðum sem það ræður yfir. Þetta held ég að ráði mestu um það hvort okkur tekst að gera það sem menn kalla í ræðunum sínum 17. júní að renna fleiri stoðum undir, eða að auka fjölbreytni í eða að brydda upp á nýjungunum í, eða að fjölga burðarásum í atvinnulífi á Íslandi.

Við verðum að marka þarna miklu, miklu markvissari og miklu harðari stefnu í atvinnumálum heldur en þessari ríkisstj. hefur auðnast. Það kemur manni kannske ekkert á óvart þegar dæmin berast okkur á hverjum degi um það hvernig verkstjórn og búskaparháttum er hagað á þeim bæ. Og þeim mun meiri ástæða er til að harma afgreiðslu hv. atvinnumálanefndar á þessari till. vegna þess að annars hefði kannske verið von til þess að þingið sæi ástæðu til þess að taka undir þá kröfu um stefnumörkun sem gerð er í till., en lufsist ekki á þann hátt sem lagt er til við að vísa henni til ríkisstj.