13.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6434 í B-deild Alþingistíðinda. (5816)

474. mál, umsvif erlendra sendiráða

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. utanrmn., samnefndarmönnum mínum þar, fyrir umfjöllun á till. minni um takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða og fyrir þá till. sem nefndin stendur hér sameiginlega að á grundvelli hennar. Þar sem ég á sæti í utanrmn. stend ég að sjálfsögðu að þessari afgreiðslu af hálfu nefndarinnar og tel að með till., eins og hún liggur hér fyrir, sé meginatriðum í upphaflegri till. haldið til haga. Ég hefði að vísu kosið að enn ríkari áhersla væri lögð á gagnkvæmnisjónarmið varðandi umsvif erlendra sendiráða hérlendis og starfsemi íslenskra sendiráða í viðkomandi ríkjum.

Ég tel mjög eðlilegt að hliðstæðar reglur gildi um umsvif og aðbúnað erlendra sendimanna hérlendis og gagnkvæmt hjá íslenskum sendimönnum í viðkomandi ríkjum. Sá er raunar andi ákvæða Vínarsamningsins um stjórnmálasamband og fullveldisjafnrétti ríkja sem Ísland er aðili að og vísað er til í till. Þetta á að mínu mati einnig að endurspeglast í fjölda erlendra sendimanna í samanburði við fjölda íslenskra sendimanna hjá viðkomandi ríkjum.

Í till. utanrmn. er sérstaklega til þess vísað að sé talin þörf á ráðstöfunum til að takmarka umsvif erlendra sendiráða hérlendis skuli höfð sérstök hliðsjón af íslenskum aðstæðum og hlýtur m. a. að falla undir það fámenni þjóðar okkar og takmörkuð geta til að halda uppi öflugri utanríkisþjónustu.

Í utanrmn. komu fram fróðlegar upplýsingar um takmörkun á umsvifum sendiráða hjá öðrum þjóðum. Eins og hv. formaður nefndarinnar gat um hér áðan voru þær upplýsingar framreiddar sem trúnaðarmál innan nefndarinnar af hálfu utanrrn. Nefna má að till. svipaðs eðlis og sú sem hér er til umr. kom fram á s. l. vetri í sænska þinginu, en um afgreiðslu hennar er mér ekki kunnugt.

Samskipti við erlend ríki eru mikilsverð og geta verið viðkvæm, m. a. aðhald að sendiráðum. Ég er þó þeirrar skoðunar að á því sviði þurfi ekki síst smáþjóð eins og Íslendingar að vera vel á verði og ganga fram með sanngirni og festu. Ég treysti því að samþykkt þessarar till. leiði til eðlilegs aðhalds stjórnvalda í þessum efnum, en vísa að öðru leyti til grg. og framsögu með þeirri till. sem ég hef tvívegis flutt um þetta efni og sem nú hefur hlotið jákvæða meðferð í hv. utanrmn.

Ég vil við þetta tækifæri þakka samnefndarmönnum mínum í utanrmn., utanrrh. og starfsmönnum utanrrn. fyrir góða samvinnu um fjölmörg mál í nefndinni í vetur. Það ber vissulega að ljúka lofsorði á formann nefndarinnar fyrir að hafa beitt sér fyrir afgreiðslu mála út úr nefndinni með þeim hætti sem hér hefur ítrekað gerst og komið til atkvæða margar þær till., ef ekki allar, og hlotið samhljóða samþykki hér í Sþ. Það væri betur að slíkt gerðist hjá fleiri nefndum. að svo yrði unnt að halda á málum.