07.11.1984
Efri deild: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv. Það er sjálfsagt auðvelt að finna ýmis rök fyrir því að selja starfsmönnum þetta ríkisfyrirtæki og sjálfsagt af hinu góða að gera slíkt í ýmsum tilvikum þegar báðir geta kannske haft af því nokkurn hag. Þessi hæstv. ríkisstj. sem nú situr hefur mjög stært sig af því að hún vilji helst selja sem mest af eignum ríkisins og sem mest af eignaraðild ríkisins í ýmsum fyrirtækjum. Þetta er í ýmsum tilvikum góðra gjalda vert og í öðrum miður, en þessi ríkisstj. er hins vegar ekki sjálfri sér samkvæm í þeim efnum og er þar langur vegur frá.

Í þessu fjárlagafrv., þeirri fágætu bók sem lögð hefur verið á borð þm. hér og merkt mönnum mjög rækilega og tryggilega og er ekki til nema í rúmum 60 eintökum, er liður á fjárlögum sem heitir lánahreyfingar út og er 135 millj. Þar er m.a. fjallað um hlutafjárframlög ríkisins til ýmissa fyrirtækja. Á sama tíma og verið er að selja og selja og allt á helst að vera á útsölu er ríkið að gerast stór hluthafi í steinullarverksmiðju norður á Sauðárkróki upp á 12 millj. kr. Í samræmi við stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna um stofnun hlutafélaga til eflingar iðnþróun, tækninýjungum og rannsóknum, sem eftir orðanna hljóðan er kannske hið ágætasta mál, en er sennilegast allt í skötulíki hjá ríkisstj. svo að notað sé eftirlætisorð hæstv. iðnrh., eiga þar að fara 50 millj. í hlutafé. Svo er hér áætlað fyrir hlutafjárframlögum ríkisins í ýmsum fyrirtækjum sem það á aðild að í samræmi við heimildir í 6. gr. fjárlagafrv. og heimildir í ýmsum sérlögum. Það er smáræði á þennan mælikvarða, alls 1.5 millj. eða þar um bil. Hér rekur sig óneitanlega hvað á annars horn.

Og það er fleira sem ríkið hefur verið að sullast í og hefur kostað drjúgan skilding. Ég nefni sjóefnavinnslu á Reykjanesi sem virðist vera að breytast í eitt allsherjarævintýr með öfugum formerkjum. Þar hefur ríkið lagt fram mikla fjármuni sem ekki verður séð á þessari stundu hvernig muni skila sér eða hvort muni skila sér. Óskað hefur verið eftir skýrslu um það mál hér á hinu háa Alþingi og er vissulega ærin ástæða til. Þar þarf að reka tryppin vel því að staðreyndir þess máls þurfa að liggja fyrir fljótt.

En ég vildi bara við þessa umr. benda á þetta, að þessi ríkisstj. er langt frá því að vera sjálfri sér samkvæm í þessum efnum því að meðan eitt er selt er annað keypt. Þetta held ég að sé nauðsynlegt að komi fram hér við þessa umr. og skal ég ekki, virðulegi forseti, hafa fleiri orð um þetta hér að sinni. Til þess gefast önnur betri tækifæri síðar.