13.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6437 í B-deild Alþingistíðinda. (5825)

268. mál, mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar flm. þessarar till. um mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum, en ásamt mér stóð að till. hv. þm. Helgi Seljan, þakka hv. atvmn. fyrir jákvæða meðferð þessa máls og brtt. af hálfu n. sem hér liggur fyrir sem í öllum aðalatriðum kemur til móts við þau sjónarmið sem við mæltum fyrir í upphaflegri till. Það sem helst munar á þessum till. er sá tímarammi sem við hefðum kosið að settur yrði varðandi úrbætur á þessu mikla vandamáli, en ég hygg að við höfum gert þar till. um tveggja ára átak til að ráða bót á þessu hjá fiskimjölsverksmiðjunum. Því miður hefur ekki fengist stuðningur hér við afgreiðslu frv. til lánsfjárlaga við sérstakt fjármagn í þessu skyni á yfirstandandi ári, en af hálfu hæstv. heilbrrh. hefur komið fram jákvætt viðhorf og skilningur á þeim mikla vanda sem hér er við að fást og við hljótum að vera margir þm. sem treystum því að á næstunni verði tekið á þessum málum og haldið til haga sérstöku fjármagni til fiskimjölsverksmiðja þannig að það verði þeim viðráðanlegt að bæta úr þeim vanda sem hér er við að fást og veldur miklu angri fyrir fjölda fólks þar sem slíkar verksmiðjur eru starfræktar.

Ég ítreka þakkir mínar til hv. atvmn. og hv. frsm. nefndarinnar sem hefur sýnt þessu máli áhuga frá því að tillögur fyrst voru fluttar um þetta og ásamt öðrum stuðlað að því að þessi till. er fram komin til afgreiðslu í Sþ.