13.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6437 í B-deild Alþingistíðinda. (5827)

222. mál, stofnun og rekstur smáfyrirtækja

Frsm. meiri hl. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Atvmn. Sþ. fjallaði um till. þá sem hér um ræðir, þ. e. till. til þál. um eflingu atvinnulífs með stuðningi við stofnun og rekstur smáfyrirtækja. Nefndin fékk umsagnir frá allmörgum aðilum en varð hins vegar ekki sammála um afgreiðslu þessarar till. Meiri hl. nefndarinnar tekur undir það meginsjónarmið, sem fram kemur í till., að efla þurfi atvinnulíf með stuðningi við stofnun og rekstur smáfyrirtækja. Almenn rekstrarskilyrði atvinnuveganna skipta miklu máli fyrir möguleika samtaka og einstaklinga til að reka fyrirtæki. Ýmis óbein aðstoð af hálfu hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, getur og stuðlað að stofnun og rekstri fyrirtækja.

Ýmis slík aðstoð hefur verið veitt með skipulegum hætti. Þetta kemur fram í nál. meiri hl. nefndarinnar.

Í umsögnum ýmissa aðila kemur fram ýmislegt sem gert hefur verið af hálfu bæði opinberra stofnana og samtaka atvinnuveganna til að stuðla að rekstri smáfyrirtækja, en hins vegar var það mat okkar að þessi till., eins og hún lítur út, fæli ekki í sér neitt sem skipt gæti sköpum í þessu efni og leggur því meiri hl. n. til að till. verði afgreidd með rökstuddri dagskrá.

Okkur fannst satt að segja að í þessari till. væri ansi mikill keimur af því að ríkisvaldið ætti að taka stofnun og jafnvel rekstur smáfyrirtækja alveg á brjóst sér sem ég held að sé ekki rétt. Í 2. tölul. þessarar till. er t. d. ráð fyrir því gert að ríkið veiti tímabundna, ódýra sérfræðiþjónustu á ýmsum sviðum, ódýra rekstrarráðgjöf, ódýra bókhaldsaðstoð, ódýrar markaðskannanir, ódýra lögfræðiþjónustu og ódýra aðstoð við vöruþróun, eins og fram kemur í þessari till. Það er álit okkar að það þurfi aðrar aðgerðir til að koma til að stuðla að rekstri og stofnun smáfyrirtækja á Íslandi. Við leggjum því til að till. verði afgreidd með rökstuddri dagskrá sem er svohljóðandi:

„Í trausti þess að ríkisstj. hafi uppi markvissar aðgerðir til eflingar íslensku atvinnulífi, þ. á m. til stofnunar og rekstrar smáfyrirtækja, sér Alþingi ekki ástæðu til sérstakrar ályktunar um þetta mál og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“