07.11.1984
Efri deild: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég er eftir atvikum ánægður með þessa umr. Menn taka ekki af um afstöðu sína sem ekki er kannske von því að nefnd á eftir að glöggva sig miklu betur á málinu. Ég held að það sé ofgert hjá hv. 5: landsk. þm. að telja að hvað reki sig á annars horn í stefnu ríkisstj. þar sem hún sé að selja ríkisfyrirtæki en á sama tíma að leggja fram fjármagn til þess að eignast hlut í öðrum. Þá er þess að geta — og ég tek það fram að það er mín afstaða — að svo kann í mörgu falli að vilja til að eðlilegt sé að ríkið styðji og styrki fyrirtæki við að komast á fót. Að setja fyrirtæki á laggirnar getur í mörgu falli verið rétt stefna. Ég vísa því reyndar frá mér að það sé undan mínum rifjum runnið að ríkið stendur að byggingu steinullarverksmiðju á Sauðárkróki. Um það voru lög í landinu þegar ég kom að því embætti sem nú gegni ég. Yfirleitt og almennt séð er það afstaða mín og míns flokks að ríkið eigi ekki að vera að vasast í slíkum hlutum. En ég tek samt fram að það getur verið réttlætanlegt og þá alveg sérstaklega í atvinnuskyni ef svo stendur á að ríkið taki áhættu og stuðli að því að fyrirtæki, sem veiti fólki nauðsynlega atvinnu, komist á fót. Það vil ég að fram komi.

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hef haft afar gaman af því hversu vel starfsmenn Landssmiðjunnar hafa tekið við sér í þessu máli og hve mikill áhugi er þar ríkjandi um að setja þetta fyrirtæki á skrið. Þetta er gamalgróið fyrirtæki sem að vísu hefur stundum átt undir högg að sækja í viðskiptum sínum við eigandann, þar sem til að mynda má vel nefna að afar treglega hefur gengið innheimta reikninga fyrir mjög vænar fjárhæðir, til að mynda vegna viðgerða á ríkisskipum eða varðskipum og öðru sem ríkið hefur þurft að láta vinna fyrir sig. Það kom þessu fyrirtæki afar illa í óðaverðbólgu sem að líkum lætur, því að ég er hræddur um að það hafi oft á tíðum ekki verið háar dráttarvaxtagreiðslur, sem inntar voru af hendi til fyrirtækisins, þótt það tæki kannske meira en ár að fá reikninga greidda.

Ég finn það á samstöðu þessa fólks, sem þarna hefur tekið sig til og stofnað hlutafélag um kaup og rekstur þessa fyrirtækis, að því er afar vel treystandi. Ég held þess vegna að rétt sé og sjálfsagt að standa þann veg að málinu. En ég tek það fram að þeirra upplýsinga, sem gefnar voru í fyrri skýrslum mínum um þetta fyrirtæki og eins þessara sem nú eru framlagðar, er aflað hjá fyrirtækinu sjálfu, þannig að ef eitthvað er missagt í þeim fræðum, þá mun ég beita mér fyrir því að gerð sé grein fyrir því og þá leiðrétt eftir því sem við á.