13.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6440 í B-deild Alþingistíðinda. (5830)

222. mál, stofnun og rekstur smáfyrirtækja

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég sé varla ástæðu til að ræða þessa till. efnislega af ýmsum ástæðum. Kannske er það vegna þess að það sem stendur í till., svo ég tali nú ekki um í grg., er ekki í neinu samræmi við málflutning hv. þm. Guðmundar Einarssonar hér áðan. Ég sé það hvergi og heyri og get ekki skilið af því plaggi sem hv. þm. úr. BJ hafa lagt fram að það sé nokkur sérstök herferð eða átak og hreyfing sem fólk brenni í skinninu að taka þátt í. Ég sé það hvergi í plagginu. Það hefur hvergi komið fram í því sem maður hefur lesið þarna.

Margt er einkennilegt í þeim lestri sem hv. þm. Guðmundur Einarsson stóð að áðan, að vitna í erlend tímarit og mann sem heitir Maetae í útlöndum og að hann sé með 25 uppástungur, eins og hæstv. forsrh. með 25 punktana, og hvorugt fengum við að heyra. Mig langar svo sem ekkert áð heyra það, en ef menn ósköp einfaldlega lesa tillgr. sjálfa er þetta eitt almennt snakkið í viðbót en ekki ákall um herferð og átak.

Herra forseti. Það er ýmislegt í þessu dálítið sérstakt, og m. a. s. feitletrað, t. d. miðað við staðreyndir síðustu vikna í þjóðfélaginu, að það skuli vera feitletrað í plagginu minnst á ódýra sérfræðiþjónustu. Þó ekki væri nema af þessum ástæðum gæti ég ekki hrópað húrra fyrir þessari till.

Það er út af fyrir sig ekki svo vitlaust að flytja till. af þessu tagi ef menn hefðu sleppt einhverju af grg. Þarna er vitnað í marga merka menn og þ. á m. Jón Kennedy, en það vekur furðu mína þar sem talað er um stjórn aðgerða að þar er meira og minna vitnað í byggðadeild og áætlanadeild Framkvæmdastofnunar og í fleira og fleira af því tagi, þróunarstóð. Þessi hv. þm. hefur hvað eftir annað talað á móti þeim fyrirbærum öllum.

Erindi mitt upp í ræðustól að þessu sinni var aðeins það að mitt nafn hefur fallið niður á nál. á þskj. 1038 af einhverjum ástæðum og ég óska eftir því að það verði leiðrétt, herra forseti, þar sem ég skrifa undir nál. meiri hl.