13.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6443 í B-deild Alþingistíðinda. (5834)

222. mál, stofnun og rekstur smáfyrirtækja

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. talaði um dómadagskjaftæði sem menn hefðu staðið í á Norðurlöndum um stofnun og rekstur smáfyrirtækja. Ég skal ekki svara fyrir það hvaða dómadagskjaftæði hann hefur tekið þátt í, en ég held að hann horfi algjörlega fram hjá ákveðnum staðreyndum. Hann horfir fram hjá því að laun í þessu landi eru margfalt lægri en í nágrannalöndum okkar og að verðlag er hærra en í nágrannalöndum okkar og miklu hærra er það ef horft er á það í samanburði við laun. Ef menn reyna ekki einu sinni að leita orsaka þessa og ef menn ekki sýna einhvern vilja til að reyna að vinna sig út úr þeim vanda með átaki eins og því sem hér er verið að tala um er engin von til þess að ástandið batni. Ef menn telja að allir aðrir séu með tómt helvítis kjaftæði og allt sem þeir sjálfir séu að gera sé það besta og það eina rétta sem hægt sé að gera verður aldrei nokkur breyting. En ég trúi því ekki að hv. 4. þm. Reykv. sé í raun og veru að tala um það.

Ef hann telur að hér sé ekki þörf á að kenna einum eða neinum eitt eða neitt, þá verð ég að andmæta því mjög harðlega. Það er ekki um það eitt að ræða að kenna einhverjum manni úti í bæ hvernig hann á að stofna fyrirtæki. Það er líka verið að tala um að þessu fylgi á vissan hátt, hvað eigum við að segja, sameiginlegur vilji allra þeirra sem þátt taka. Ég gæti leitt hér t. d., ef hér mættu tala, til vitnis menn sem eiga sitt undir fyrirgreiðslu hins opinbera, þurfa að sækja fyrirgreiðslu til hins opinbera. Ég tek sem dæmi mann sem þarf að fá lán erlendis vegna þess að hann er að kaupa þaðan einhvern búnað. Hvað þarf hann að bíða lengi þangað til að langlánanefnd og viðskrn. eru búin að afgreiða þá umsókn? Ég á við að þegar menn eru t. d. búnir að bíða í sex mánuði og borga 30% kostnað, þ. e. vexti og verðbætur af lánum sem þeir hafa orðið að hanga með allan tímann á meðan, er ekki hægt að tala um að stjórnvöld sýni raunverulega einhvern vilja til að aðstoða menn að jöfnu við aðra starfsemi. Þetta eru örlög og aðbúnaður smáfyrirtækja hér á Íslandi. Þar er sex mánaða biðtími eftir fyrirgreiðslu af þessu tagi alls ekki undantekning heldur regla.

Til þess að forða misskilningi vegna orða hv. 4. þm. Suðurl., því að það er leiðinlegt þegar þm. eru illa upplýstir, vil ég geta þess að þm. BJ hafa lagt til að sjóðadeild, þ. e. framkvæmdasjóður Framkvæmdastofnunar, verði lögð niður. Við höfum aldrei lagt til að byggða- og áætlanadeild verði lagðar niður. Það er allt annars konar starfsemi sem þar fer fram en útlánastarfsemin úr Framkvæmdastofnun. Það er starfsemi sem við höfum þörf fyrir og er mikið gagn að í upplýsingaskyni. Ég vildi að þetta kæmi fram svo að þm. gengju ekki gruflandi að því að hv. 4. þm. Suðurl. hafði þarna rangt fyrir sér.