13.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6447 í B-deild Alþingistíðinda. (5842)

222. mál, stofnun og rekstur smáfyrirtækja

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. að ég hafi einhverja oftrú á stóriðju og hafi ekki minnst á nokkuð annað í minni ræðu áðan. Þvert á móti talaði ég ítarlega um þá erfiðleika sem sjávarútvegurinn hefur átt í og kom inn á hvaða skilyrði þyrftu að vera fyrir hendi til að fyrirtækjum og fólki vegnaði vel. Ég var hins vegar ekki haldinn sömu villu og hv. þm. að vilja fórna góðum lífskjörum í landinu fyrir erlenda ferðamenn.

Nú er það svo, eins og við vitum, að hv. þm. sem mest talaði um hreint vatn áðan er einhver mesti samvinnumaður sem til er á þingi. Við vitum líka að mesti mengunarvaldur norður þar um langa hríð er rekstur Sambandsins. Vitum við báðir að Glerá skipti lengi litum eftir því hvað var verið að hafast að í sútunarverksmiðjum SÍS. Og af því tilefni var þessi vísa ort:

Hver er þessi eina á

sem aldrei frýs,

gul og rauð og græn og blá og

gerð af SÍS?

Mengunin er því svona og svona. Auðvitað erum við allir á móti mengun, en á hinn bóginn verðum við að búa við það þó einhver mengun komi nú með SÍS-verksmiðjunum í Pollinn vegna þess að fólkið þarf atvinnu og það verður að lifa í þessu landi.

Hins vegar er það mikill misskilningur hjá hv. þm. ef hann heldur að stóriðjuver séu endilega mestu mengunarvaldarnir. Þvert á móti hefur vérið sýnt fram á það í skýrslu sem gerð hefur verið vegna álversins við Eyjafjörð að hægt er að hefja þar rekstur án þess að hætt sé við nokkurri þeirri mengun sem geti torveldað að menn geti framleitt matvæli norður þar eins og hingað til.