13.06.1985
Efri deild: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6459 í B-deild Alþingistíðinda. (5851)

5. mál, útvarpslög

Helgi Seljan:

Herra forseti. Þetta mál hefur verið rætt allítarlega í hv. Ed. og væri eflaust ástæða til að ræða það enn ítarlegar. Nógur er tíminn hjá okkur í Ed. til umfjöllunar um þessi mál á meðan stjórnarliðið sér svo um að mál komist ekkert áfram í Nd. á þann veg að vilja ekki gera samkomulag við stjórnarandstöðuna um hvernig verkstjórn og vinnutilhögun skuli vera á Alþingi þessa vonandi síðustu daga sem það situr. En þar er nóg að gera og í mörgu að snúast til þess að hægt sé að halda friðinn á stjórnarheimilinu sem öllu máli skiptir því að þar ganga hótanir greinilega á víxl um það hvaða mál eigi að ná fram að ganga og hver ekki.

Við fengum af því fréttir í hádeginu að hæstv. ríkisstj. hefði samþykkt það, hvort sem það er rétt eða ekki, að þing skyldi standa svo lengi sem ríkisstj. þóknaðist gagnvart öllum þeim málum sem ríkisstj. vildi að hér næðu fram að ganga. Ég hef heyrt að hér sé eitthvað málum blandið og vona að ekki sé rétt að hæstv. ríkisstj. hafi viljað með þeim hætti gefa Alþingi og forsetum þess, verkstjórum Alþingis, svo ótvíræða forsögn sem Ríkisútvarpið greindi okkur þó frá tvívegis í hádeginu að hún hefði gert. Ég sé að hæstv. iðnrh. hlustar grannt eftir þessu, en hann er fyrrv. verkstjóri hér á Alþingi og ég þykist vita að honum hefði þótt heldur kalt að fá slíkar kveðjur frá þáv. ríkisstj. um það hvernig hann skyldi haga málatilbúnaði í lokin varðandi verkstjórn þingsins.

Hv. þm. Ragnar Arnalds hefur gert grein fyrir okkar meginsjónarmiðum í sambandi við þetta frv. og er fáu þar við að bæta. Hins vegar hafa þessar umr. leitt ýmislegt skemmtilegt í ljós og m. a. það, að hversu vitlaus ákvæði sem hér eru inni nú, hversu sem þau standast illa lög, þá skulu þau inni vegna þess að engu skal breyta, engu má breyta. Satt að segja undrast ég það, miðað við þann tíma sem við höfum nú enn þá eftir skv. yfirlýsingum hæstv. ríkisstj., hvers vegna í ósköpunum má ekki laga jafneinföld atriði og færa þau til rétts vegar sem hv. 5. landsk. þm. hefur hér bent á vegna þess að þá færi málið til Nd. Nd. hlýtur að taka fagnandi slíkri leiðréttingu og afgreiða málið frá sér að sjálfsögðu í þeim búningi sem þar væri á kominn og er miklu skaplegri.

Menn hafa réttilega sagt að hér væri óskapnaður á ferð. Auðvitað hlýtur svo að vera þegar hugsjónin á bak við allt þetta er í raun og veru sú að þjóna ákveðnum hagsmunaaðilum sem hv. 9. þm. Reykv. kom reyndar rækilega inn á áðan og var varla hægt að fá dapurlegri lýsingu á tilefni þess hvers vegna þetta mál væri þannig inn komið en hann flutti hér áðan. Það á sem sagt að þjóna ákveðnum hagsmunaaðilum sem hyggjast græða á þessu. Það á að taka fjármagnið, eins og hv. 9. þm. Reykv. benti réttilega á, í þjónustu sína og með þeim hætti að bæta enn við möguleikum þess til skoðanamyndunar hér í landinu í skjóli þess fjármagns sem frjálshyggjuöflin í þjóðfélaginu ætla enn frekar að taka í sína þjónustu. Frv. er vitanlega ekki í þágu almenns tjáningarfrelsis og ég held að það sé enn síður í þágu einhverrar óskilgreindrar „menningar“, sem ég vil hafa innan gæsalappa í þessu efni, því að til þess eru nefnilega næg tækifæri með eflingu okkar um margt ágæta Ríkisúfvarps og með aukinni fjölbreytni þar. Málamiðlun er þetta ekki heldur, það hefur verið upplýst hér í hv. Ed. rækilega og atkvgr. um málið sannar það svo að ekki verður um villst, því að hér er allt svo galopnað eftir að auglýsingafrelsinu hefur verið gefinn svo laus taumurinn, sem hér hefur verið bent á m. a. af hv. 9. þm. Reykv.

Ég ætla ekki að fara út í hlálega sögu þessa máls sem hefur verið rakin hér áður. En ég man ekki eftir því frá minni þingsögu að ráðh. hafi lagt fram frv. með gildistökuákvæði eftir hálfan mánuð í upphafi. Ef menn kalla það ekki offors og ákafa þá veit ég ekki hverjum nöfnum á að nefna slíkt. Ekki ætla ég að gera hæstv. menntmrh. upp þá hugsjón að það eitt hafi legið að baki að lögleiða sjóræningjastöðvarnar svokölluðu sem allra fyrst þannig að þær gætu tekið gildi um mánaðamót október og nóvember. Ég ætla a. m. k. að vona að svo sé ekki. Hæstv. ráðh. er ekki hér til að svara fyrir það, en óneitanlega dettur manni helst í hug að til þess hafi leikurinn verið gerður.

Sagan af þessu máli í Nd.-nefndinni er líka, eins og hér var nefnt í gær, ærið tilefni áramótaskaups. Þegar kallað var á hv. formann menntmn. þar, Halldór Blöndal, í sjónvarp og útvarp í tíma og ótíma var hann alltaf rétt að ganga frá nál., það var alveg að fæðast hjá honum. Síðan liðu vikurnar, síðan liðu mánuðirnir. Þetta er, miðað við það sem hann gaf til kynna, vægast sagt langur og þrautafullur meðgöngutími hjá hv. nefnd í Nd. Ég nefni sem dæmi um þessa hrákasmíð, sem hér er á, og ítreka það sem hv. 5. landsk. þm. benti á varðandi t. d. stjórn menningarsjóðs útvarpsstöðva sem skal skipuð í fyrsta sinni fyrir árslok 1985 skv. lögum sem eiga að taka gildi 1. janúar 1986. Ég held að slíkt sé algerlega, sem betur fer, óþekkt í löggjöf og mig undrar ef jafnágætir lögfræðingar og hér eru inni, þeir eru nokkrir, ætla að kyngja þessu og taka sem eðlilega og sjálfsagða lagasmíð.

Hér hefur verið gerð till. af hálfu hv. þm. Davíðs Aðalsteinssonar sem er til bóta og verður vonandi samþykkt hér, en fari svo að mót von manns verði hún ekki samþykkt hlýtur meginspurningin hér á eftir og það sem menn í raun bíða eftir að fá svar við að vera endanleg afstaða Framsfl. til frv. Mér heyrðist reyndar á hv. 9. þm. Reykv. að hann væri þegar búinn að taka ákvörðun og hans flokkssystkin hér innl um það að þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir hitt, sem hann lýsti nú ekki fagurlega reyndar, ætluðu framsóknarmenn samt að styðja frv. endanlega. Meira að segja eftir að sú ágæta brtt. sem hann flutti hér í gær, hv. 9. þm. Reykv., ágæta og sjálfsagða brtt., hefði verið felld. Hún var felld hér í gær. En eftir því er vitanlega beðið hver verður afstaða Framsfl. nú að felldri till. hv. þm. Haralds Ólafssonar og máske einnig að felldri till. hv. þm. Davíðs Aðalsteinssonar.

Ég skal svo ítreka mína meginskoðun. Efling Ríkisútvarpsins, aukið fjármagn til þess, auknir möguleikar þess til að sinna sinni starfsemi, efling fjölbreytninnar þar sem allra mestrar og þó alveg sérstaklega á því sviði sem tekur til mennta, menningar og beinnar fræðslustarfsemi, er okkur nærtækast verkefna í stað þess að vera að samþykkja þennan óskapnað sem hefur í raun réttri þann eina megintilgang að opna þetta fyrir fjármagnsöflunum í landinu, þjóna undir þau frjálshyggjuöfl sem finnst þau ekki hafa nógu greiðan aðgang í Morgunblaðinu og DV og þurfa viðbótartæki til að innleiða sínar kenningar og fá nú til þess stuðning hér á Alþingi úr ótrúlegustu áttum.