13.06.1985
Neðri deild: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6463 í B-deild Alþingistíðinda. (5868)

503. mál, getraunir Öryrkjabandalags Íslands

Frsm. meiri hl. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. allshn. Nd. á þskj. 1176 um frv. til l. um getraunir Öryrkjabandalags Íslands. Nefndin ræddi frv. á fimm fundum en hér er um stjfrv. að ræða. Til viðræðna við allshn. um efni frv. komu fulltrúar Öryrkjabandalagsins, Íþróttabandalags Íslands og Getrauna íþróttahreyfingarinnar og auk þess fulltrúar Háskóla Íslands.

Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykki með þeim breytingum sem hún ber fram á sérstöku þskj.

Tveir nm., Friðjón Þórðarson og Ólafur Þ. Þórðarson, áskilja sér rétt til þess að flytja brtt. við frv. eða fylgja þeim brtt. sem fram kunna að koma. Undir þetta nál. skrifa Gunnar G. Schram, Guðrún Helgadóttir, Friðjón Þórðarson, Guðmundur Einarsson og Ólafur Þ. Þórðarson.

Brtt. þær sem meiri hl. allshn. leggur til við frv. um getraunir Öryrkjabandalags Íslands eru ekki stórvægilegar. Hér er um tvær breytingar að ræða sem dreift hefur verið á þskj. 1177. Í fyrsta lagi við 5. gr., þar sem segir að ágóða af getraunastarfseminni sem frv. gerir ráð fyrir skuli varið til að greiða stofnkostnað við íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja á vegum Öryrkjabandalags Íslands, er lagt til að við bætist: á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landinu. Nm. þótti ástæða til að það yrði tekið sérstaklega fram í frv. að ekki yrði aðeins haldið áfram framkvæmdum við húsnæði og íbúðir Öryrkjabandalagsins hér í Reykjavík og í Kópavogi, á Reykjavíkursvæðinu, heldur einnig, og sú mun vera stefna Öryrkjabandalagsins, að hafa einnig slíkar framkvæmdir með höndum er fram líða stundir úti á landi.

Í öðru lagi, og það er aðeins til samræmis, er lagt til að 6. gr. orðist svo: „Dómsmrh. setur í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi getraunanna og efni 5. gr.“ — Þar er fjallað um byggingar á Reykjavíkursvæðinu og einnig úti á landi. — „að fengnum tillögum frá stjórn Öryrkjabandalags Íslands.“

Þetta, herra forseti, eru þær smávægilegu breytingar sem meiri hl. allshn. leggur til að gerðar verði á frv. og að því búnu að það verði samþykkt hér í Nd. og sent Ed. til fyrirgreiðslu. Í aths. þessa lagafrv. kemur fram hvers vegna þetta frv. hefur verið lagt fram af ríkisstj. og er komið hér inn í þingsali. Öryrkjabandalagið fer fram á að fá leyfi til þessa happdrættis sem fram fari eftir sérstökum reglum. Hér er um að ræða það happdrætti, það peningahappdrætti, sem erlendis gengur undir nafninu „lottó“ og menn þekkja ýmsir frá erlendum þjóðum, en hefur ekki tíðkast hér á landi til þessa. Slík happdrætti eru óheimil án lagaheimildar, peningahappdrætti eins og þetta, og því þarf dómsmrh. á grundvelli laga að veita Öryrkjabandalaginu leyfi til að reka slíka starfsemi til að afla fjár til að greiða stofnkostnað við íbúðir fyrir öryrkja.

Hér liggur því ljóst fyrir, og það er sérstaklega fram tekið í 5. gr., að tilgangur frv. er að afla á þann máta fjár til þess að greiða stofnkostnað við íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja á vegum Öryrkjabandalagsins. Hér væri t. d. ekki heimilt að verja ágóðanum af slíku happdrætti til reksturs Öryrkjabandalagsins eða íbúða þess. Það er greinileg rakmarkað hvernig á að nota þann hagnað sem af þessu happdrætti kynni að verða. Það á að verja honum til að halda áfram að byggja íbúðir fyrir öryrkja þessa lands.

Hér erum við komnir að kjarna málsins, hvers vegna þetta frv. er fram komið. Það er einfaldlega til þess að unnt verði að halda áfram því mikla og merka starf i sem Öryrkjabandalagið hóf fyrir alllöngu — að koma upp íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja. Og af hverju ber brýna nauðsyn til þess? Einfaldlega vegna þess að öryrkjar eru þannig í stakk búnir að mjög margir þeirra eru á engan hátt fullgildir á vinnumarkaðnum og hafa þess vegna ekki átt þess kost á nokkurn hátt að koma yfir sig eigin húsnæði.

Þá geta menn spurt: Því í ósköpunum þarf að vera að byggja íbúðir fyrir öryrkja þessa lands? Af hverju fara þeir ekki og leigja sér íbúð? Það þarf varla að skýra það fyrir hv. þm. hvers vegna fæstir þeirra hafa efni á því. Menn vita hver leiga fyrir íbúðarhúsnæði er, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, þannig að hún er öryrkjum yfirleitt gjörsamlega ofvaxin. Og þar við bætist að öryrkjar eru tekjulægsta stéttin og er nú oft talað um marga tekjulága. En það fer ekki milli mála að tekjulægsta stéttin eru öryrkjar. Þeir geta ekki keppt á hinum almenna leigumarkaði um íbúðarhúsnæði vegna þess að þeir hafa einfaldlega ekki efni á því. Hér hefur þess vegna Öryrkjabandalagið sett það á sína stefnuskrá sem algjört forgangsverkefni ásamt hinum vernduðu vinnustöðum að koma upp íbúðarhúsnæði þar sem öryrkjar geta fengið skjólshús fyrir tiltölulega mjög væga leigu. Það er einmitt í þessu efni sem þörfin hefur verið brýnust og það hefur stjórn Öryrkjabandalagsins fyrir löngu séð.

Það var ákveðið fyrir meira en 15 árum að hefjast handa um byggingar hér í Reykjavík á lóð sem Öryrkjabandalaginu hafði verið úthlutað við Hátún nr. 10. Þær framkvæmdir þekkja þm. ugglaust. Þeir vita hvaða starfsemi þar fer fram. Þar hefur Öryrkjabandalagið nú byggt 250 leiguíbúðir sem allar eru fullsetnar og miklu meira en það. Biðlistinn til þess að komast að í þessum íbúðum er hvorki meira né minna en 300–400 manns eða næstum því jafnlangur og allir íbúarnir. En við það má bæta að fyrir löngu er hætt að taka við umsóknum á þessa lista. Það er búið að loka þeim vegna þess að ásóknin var svo gífurlega mikil. Þessi staðreynd sýnir þá miklu nauðsyn sem hér er um að ræða, en auk þessa hefur Öryrkjabandalagið byggt í Kópavogi.

Það má spyrja: Hvað kemur til að fram er komið frv. um að leyfa Öryrkjabandalaginu að fá leyfi til happdrættis með nýstárlegum hætti? Ég held að ég hafi lýst því hér með nokkrum orðum. En þá geta menn spurt: Hvað er þetta Öryrkjabandalag? Er ástæða til þess að vera að veita því sérstakt happdrættisleyfi? Og þá skulum við rétt líta á af hvaða aðilum Öryrkjabandalagið samanstendur, eins og það mætti orða. Þrettán öryrkjafélög og styrktarfélög öryrkja eru meðlimir í Öryrkjabandalagi Íslands. Og ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hvaða félög það eru.

Öryrkjabandalag Íslands var stofnað í ágúst 1961 og félögin eru þessi: Það er Blindrafélagið, Blindravinafélagið, Félag heyrnarlausra, Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra, Geðhjálp, Geðverndarfélag Íslands, Gigtarfélag Íslands, Heyrnarhjálp, SÍBS, Sjálfsbjörg, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Styrktarfélag vangefinna og MS-félagið.

Markmið bandalagsins er að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum öryrkja, svo sem húsnæðismálum, atvinnumálum og almennum félagsmálum, en enn fremur að koma fram fyrir hönd öryrkjahópanna gagnvart stjórnvöldum. Og það er einmitt það sem hér er í raun að gerast þar sem Öryrkjabandalagið fer fram á þetta leyfi til happdrættis.

Öryrkjabandalagið er bandalag þar sem þorrinn af öryrkjum á Íslandi hefur raðað sér saman í eina þétta sveit. Skömmu áður en bandalagið var stofnað hafði verið gerð könnun á húsnæðisaðstöðu öryrkja á Reykjavíkursvæðinu. Sú könnun leiddi í ljós að öryrkjar bjuggu gjarnan í lélegasta húsnæðinu, svo sem í kjöllurum, bröggum og rakaíbúðum, sem þeir er meiri fjárráð höfðu vildu ekki búa í. Það var með þetta í huga og á þessum bakgrunni sem stjórn Öryrkjabandalagsins hóf hinar miklu byggingarframkvæmdir í Hátúni 10 sem ég lýsti áðan þar sem 250 leiguíbúðir hafa verið byggðar.

Ég nefndi hina miklu biðlista sem löngu hefur verið lokað þar sem hundruð manna hafa látið skrá sig fyrir margt löngu. Þetta er ástæðan til þess að Öryrkjabandalagið telur að það sé sérlega brýnt verkefni að halda áfram þessum framkvæmdum, þessari starfsemi sem er í Hátúni 10. Vitanlega á þó ekki að miða að því að öryrkjar þessa lands þurfi að koma hingað suður til Reykjavíkur eða á höfuðborgarsvæðið til að njóta þessarar þjónustu. Reynslan sýnir að aðeins 8–10 íbúðir losna árlega, en Öryrkjabandalagið stefnir að því að útvega 40–50 íbúðir á ári um land allt. Sú fjárþörf, sem reikna má með að fylgi slíkri áætlun, er talið að samsvari 40–45 millj. kr. á ári. Þetta fé hefur Öryrkjabandalagið ekki handbært. Öryrkjabandalagið hefur í rauninni ekki neina banka eða nein hús í að venda til þess að afla þessa fjár. Þess vegna er óskin um nýtt peningahappdrætti fram komin.

Á þessu ári hefur Öryrkjabandalagið úr að spila 7 millj. kr. úr sjóði fatlaðra, það er allt og sumt, og menn sjá í hendi sér að það er ekki fjármagn sem stendur undir stofnkostnaði af nýjum framkvæmdum. Og vitanlega fer fram margvísleg önnur starfsemi á vegum Öryrkjabandalagsins en ég hef nefnt hér, svo sem hinir vernduðu vinnustaðir. Þetta framlag — og það ber ekki að lasta heldur að þakka — var veitt til að ljúka ákveðinni framkvæmd en tekið fram um leið að allt væri óvíst um áframhaldandi fjármögnun. Hér er því um það að ræða fyrir Öryrkjabandalagið að koma sér upp föstum tekjustofni til þessara framkvæmda.

Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því að í rauninni er mál þetta tvíþætt. Það varðar ekki einungis öryrkja þessa lands, heldur einnig annan hóp manna sem síst hefur setið við nægtaborð í þessu þjóðfélagi og er raunar á þeim vettvangi um að ræða félagslega einn mesta vandann sem nú er uppi með þjóðinni. Þar á ég við málefni aldraðra. Í sjálfu sér mundi fjármögnun sem þessi á grundvelli nýs peningahappdrættis ekki aðeins leysa úr bráðum vanda öryrkja, heldur einnig gera mikið í því efni að létta öldruðum róðurinn. Staðreyndin er nefnilega sú, ef við lítum á íbúðirnar 250 við Hátún, að þar eru 3/5 íbúanna aldraðir öryrkjar. Og það eru líkur til að áfram verði stór hluti íbúanna aldraðir þar sem allir fá að búa í sínum íbúðum eins lengi og kostur er. Því er meira en helmingur íbúanna í Hátúni aldrað fólk sem ekki hefur átt kost á öðrum íbúðum. Við vitum hvert vandamál það er, byggingar fyrir aldraða. Við vitum að fjármögnun Framkvæmdasjóðs aldraðra er takmörkuð, en hér er um leið og stutt er við bakið á öryrkjum verið að koma til móts við aldraða og verið að leysa úr þeirra vanda á þennan hátt. Að vísu leysir það engan heildarvanda. Hér er um takmarkaða lausn að ræða, en vissa lausn engu að síður. Þess vegna er sjálfsagt að undirstrika þetta atriði þegar við erum að ræða hér á Alþingi um frv. sem heimilar getraunir, happdrætti Öryrkjabandalags Íslands.

Ég hygg að ég hafi hér í stuttu máli gert grein fyrir nauðsyn þess að Öryrkjabandalagið, sem samanstendur af þeim 13 öryrkjafélögum sem ég nefndi, fái fastan tekjustofn sem það geti nýtt sér, ekki með framlögum úr ríkissjóði á fjárlögum, heldur að það fái heimild til þess að reka sitt eigið fjáröflunarfyrirtæki. Það mun vitanlega kosta mikla vinnu og mikla fyrirhöfn fyrir Öryrkjabandalagið að koma á laggirnar slíku happdrætti, standa að því og reka það. Það er í sjálfu sér ekki nema eðlilegt. En á móti kemur að þarna er von um ágóða til þess að bera uppi og fjármagna þá brýnu starfsemi sem ég gat um áðan.

Hér er farið inn á nýja braut í happdrættum á Íslandi. Lottó, eins og það er nefnt á erlendum málum, hefur ekki tíðkast hér á landi til þessa. Ég sagði: hefur ekki tíðkast hér á landi til þessa. Það er reyndar kannske ofmælt. Ég er hér með í höndunum kynningarbækling. Baksíða þess kynningarbæklings ber mynd af getraunaseðli eða happdrættisseðli, svokölluðum lottóseðli, sem þeir sem hafa dvalist á Norðurlöndum, í Þýskalandi og víðar eru vel kunnir. Það er einmitt þannig happdrætti sem Öryrkjabandalagið fer fram á að fá að stofna. Boðsbréf þetta ber fyrirsögnina „Engar fjárhagsáhyggjur framar.“ Er það mögulegt? er spurt. Og svarið er: „Já, við höfum svarið!“

Hér er um að ræða bréf sem barst frá Svíþjóð á íslensku, boðs- og kynningarbréf frá sænsku happdrætti sem er að bjóða Íslendingum að kaupa sænska lottóseðla. Það kemur fram í bréfinu að þeir hafa haft samband við marga Íslendinga, sent mörgum þetta boðsbréf og árangur hafi verið góður. Þeir segja:

„En loksins fengum við í lið við okkur íslenska stúdenta, sem eru við nám í Svíþjóð, til þess að hjálpa okkur við þetta. Þegar því verki var lokið völdum við úr 500 Íslendinga sem við tókum af handahófi úr símaskránni og buðum þessum Íslendingum þjónustu okkar á sérstaklega góðu verði til þess að sjá viðbrögðin. En sá árangur sem kom út úr því var svo langt fyrir ofan það sem við áttum von á að við vorum orðlausir.“

Af hverju er ég að vekja athygli á þessu sænska fyrirtæki? Ekki höfum við þm. neinna hagsmuna að gæta í þessu sambandi og síst skyldum við vera að auglýsa hér söluvöru erlendra fyrirtækja þegar til stendur að íslensk fyrirtæki fari að hasla sér völl á þessum sama vettvangi. Nei, það er ekki þess vegna, heldur vegna hins að ég er hér að vekja athygli á þessari starfsemi sænska happdrættisfyrirtækisins hér á landi sem dómsmrn. telur löglega. Með því er ég að benda á að þó slíkt peningahappdrætti hafi ekki farið af stað af hálfu íslenskra félagasamtaka er það þó hér með okkur í þjóðfélaginu í dag. Og það er ekki aðeins þetta sænska fyrirtæki sem hér selur mikið af miðum sínum, heldur einnig vesturþýskt peningahappdrætti, sem er með áþekk happdrættisboð, sem allmikið er einnig keypt hér og einnig er talið löglegt. Þess vegna er það svo að þó að íslensk fyrirtæki hafi ekki byrjað starfsemi á þessum vettvangi hafa útlendingarnir að vissu leyti fleytt hér rjómann til þessa. Ég held að það sé mál að slíkt gerist ekki lengur, heldur hefjist þessi starfsemi og verði þá í höndum íslenskra aðila.

Nú má vera að alþm. sé kunnugt um að íþróttahreyfingin hefur lengi haft lögformlega heimild til að byrja þessa tegund peningahappdrættis eða allt frá árinu 1972 þegar Alþingi setti sérstök lög sem veittu íþróttahreyfingunni einkaleyfi á því að stofna peningaspil, peningahappdrætti með þessum hætti. Af ýmsum ástæðum hefur íþróttahreyfingin í landinu ekki séð sér hag í því að nota þetta leyfi, að hefja þessa happdrættisstarfsemi til þessa. Það mun vera vegna þess — og ég byggi hér á upplýsingum sem fram komu á fundum allshn. — að íþróttahreyfingin hefur staðið að knattspyrnugetraununum og haft af þeim allverulegar tekjur. Hún hefur e. t. v. talið að nýtt peningahappdrætti yrði aðeins samkeppni við getraunirnar. Óhagstætt væri þess vegna að leggja út á þá braut, a. m. k. á undanförnum 12 árum eða 13 sem hreyfingin hefur haft leyfið. En nú munu vera uppi áform hjá íþróttahreyfingunni að nýta sér þessa heimild frá 1972 og hefja slíkt peningahappdrætti, sem leyfi er fyrir, nú í haust eða á næsta vetri.

Það er eðlilegt að menn athugi þessi atriði, þ. e. leyfi íþróttahreyfingarinnar, Íþróttasambands Íslands, þegar á borð þm. kemur frv. um heimild til happdrættis eða getrauna fyrir Öryrkjabandalag Íslands. Og þá hljóta þm. að spyrja þessarar spurningar: Þó svo að íþróttahreyfingin hafi ekki í 13 ár notfært sér sína lagaheimild, er þá ástæða til þess að vera að leyfa öðrum að koma inn á þennan sama keppnisvöll, sérstaklega þegar upplýst er að íþróttahreyfingin ætlar að fara að hugsa sér til hreyfings á þessu sviði?

Það er eðlilegt að svo sé spurt vegna þess að íþróttahreyfingin vinnur þjóðnýtt starf. Spurningin er einfaldlega þessi: Er hætta á því að um mikinn tekjumissi verði að ræða fyrir íþróttahreyfinguna ef Öryrkjabandalagi Íslands verður einnig heimilað að fara út í áþekkt peningahappdrætti?

Svar meiri hl. allshn. er ljóst og skýrt í þeim efnum. Nefndin telur að á slíku sé ekki hætta. Nefndin telur að það sé rúm fyrir tvö peningahappdrætti af þessari tegund hér á landi. Markaðurinn fyrir þessa nýju tegund happdrætta sé það mikill og stór þó svo að með fullri vissu geti enginn vitanlega um það sagt. En happdrættisáhugi Íslendinga er mikill. Það vitum við af öllum þeim fjölda happdrætta sem þegar eru starfandi í landinu, bæði peningahappdrætti eins og Happdrætti Háskólans og vöruhappdrætti. Þar starfa þau. mjög hlið við hlið og má segja að mörgu leyti að þau styðji hvert annað. Hér skyti því skökku við að heimila, hvað þessa tegund happdrættis snertir, aðeins einum aðila athafnir, veita einum aðila þar einkaleyfi þegar við lítum til annarra happdrætta. Við teljum ekki óeðlilegt að sömu reglur gildi á þessu sviði þó svo hér yrði aðeins um það að ræða að tvö félagssamtök hefðu leyfið, þ. e. Íþróttasamband Íslands og Öryrkjabandalag Íslands. Ég held að það væri hæfilegur fjöldi, a. m. k. til að byrja með, meðan verið er að fara af stað og reyna markaðinn. Það er skoðun flm. að bæði þessi sambönd komist fyrir á markaðnum og muni hafa af þessu allnokkrar tekjur.

Niðurstaða þessara hugleiðinga, herra forseti, er því sú að þó svo íþróttahreyfingin hafi í 12 ár haft heimild til svipaðs peningahappdrættis, sé alls góðs makleg og vinni m. a. að því þjóðnýta hlutverki að koma í veg fyrir að Íslendingar verði öryrkjar, þá er hér þó rúm fyrir fleiri. Það neitar því enginn að Öryrkjabandalag Íslands hefur enga tekjustofna og hefur engar getraunir í dag. Hins vegar eru verkefnin ærin og raunar mjög brýn. Það er mikil nauðsyn á að þetta mál, sem hér er nú í þingsölum, nái fram að ganga svo að Öryrkjabandalag Íslands og þau fjölmörgu félög sem þar eru innanborðs fái á þann hátt fjármagn til að halda áfram því þjóðþrifastarfi sem bandalagið hefur unnið á undanförnum árum í Hátúni 10 og hyggst nú víkka út um land allt. Með því að eiga góða samvinnu er ég viss um að á þessum nýja happdrættismarkaði, sem mun skapast, geta bæði þessi félagasamtök haft allvænan ágóða. Vel má vera að best væri að þau sameinuðust um eitt happdrætti og deildu því með sér. Það verður tíminn að leiða í ljós, en mér er kunnugt um að forustumenn Öryrkjabandalags Íslands hafa ekkert á móti slíkri samvinnu. En til þess að af henni geti orðið þurfa vitanlega báðir aðilarnir að hafa lögformlegt leyfi. Það verður ekki veitt öðruvísi en með lögum hér frá Alþingi og síðan er það í hendi dómsmrh. að veita leyfi.

Á þessum grundvelli telur meiri hl. nefndarinnar rétt og sjálfsagt að mæla með samþykkt þessa frv. sem hér liggur fyrir og að Öryrkjabandalagi Íslands verði veitt þessi heimild.