13.06.1985
Neðri deild: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6473 í B-deild Alþingistíðinda. (5875)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þetta mál var til umr. snemma á þessu þingi, eins og númer þess ber með sér, og reyndar einnig á síðasta þingi og þar sem langt er um liðið frá þeim umr. þykir mér rétt að ítreka í örfáum orðum hver afstaða Kvennalistans er og hefur verið, ef menn kynnu að vera búnir að gleyma því.

Okkar mat er að slík lagasetning sem þessi breyti í raun og veru engu eða í besta falli harla litlu. Til þess að ná fram jafnrétti kynjanna þarf fyrst og fremst hugarfarsbreytingu og um slíka hugarfarsbreytingu setjum við engin lög. Að því vinnum við með ýmsum öðrum hætti sem hér er ekki tími né aðstæður til að ræða. Okkur þykir vænlegra að vinna að bættum hag kvenna með því að taka á hinum ýmsum þáttum hverjum fyrir sig. Ég vil nefna fæðingarorlof, dagvistarmál, endurmat á störfum kvenna, heimilisstörf metin sem starfsreynsla þegar komið er út á vinnumarkaðinn, sjúkratryggingar, lífeyrissjóðsmál, barnabætur, samfelldan skóladag, fræðslu um kynlíf og barneignir, fræðslu um stöðu kynjanna o. fl. o. fl. En meginatriðið er vitanlega að efla efnahagslegt sjálfstæði kvenna, bæta hag þeirra á vinnumarkaðinum og tryggja þeim sómasamleg launakjör, en þar skortir mikið á eins og við öll vitum. Við lýstum því hins vegar yfir þegar í upphafi að við mundum á engan hátt vinna gegn eða beita okkur gegn þeirri lagasetningu sem hér er nú til umræðu.

Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir hefur setið fundi félmn. sem áheyrnaraðill og flytur brtt. þær sem hér var lýst áðan ásamt þm. annarra þingflokka. Þær breytingar eru allar heldur til bóta þótt þær breyti ekki á neinn hátt afstöðu okkar.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta á þessu stigi, en bendi á að ég held t. d. að mönnum hljóti að vera ljóst að jafnréttisráð er févana og valdalaus stofnun sem gæti gert miklu meira gagn og haft miklu meiri áhrif ef betur væri að henni búið.