13.06.1985
Neðri deild: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6476 í B-deild Alþingistíðinda. (5877)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tók þátt í starfi félmn. fyrir hönd Alþb. að frv. sem hér er á dagskrá og einnig var í nefndinni fjallað um þmfrv. um jafnréttismál, en flm. voru þm. úr öllum stjórnarandstöðuflokkunum nema frá Samtökum um kvennalista. Niðurstaða nefndarinnar liggur hér fyrir með því að allir flokkar flytja sameiginlega brtt. við stjfrv. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Stefán Valgeirsson hafa einnig greint frá þeim till. sem fram komu í nefndinni og m. a. þeim tillögum sem ég þar flutti. Ég hef því engu þar við að bæta.

Ég vil aðeins segja það að þegar frá löggjöf er gengið eru ekki aðeins samþykkt ákveðin atriði, heldur eru iðulega líka felld út ákveðin sjónarmið og tillögur. Hefði verið felld á þinginu hugmyndin um jákvæða mismunun, hefði ég talið það í raun mjög alvarlegan viðburð. Þess vegna taldi ég sjálfsagt, úr því að í boði var slíkt heildarsamkomulag, að standa að 1. brtt. þar sem segir:

„Hvers kyns mismunun eftir kynferði er óheimil. Þó teljast sérstakar tímabundnar aðgerðir, sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna, ekki ganga gegn lögum þessum.“

Ég tel að þetta sé talsvert spor í áttina og ég fagna því alveg sérstaklega að samkomulag skuli hafa náðst varðandi þessa grein. Ég tel einnig mikilvægar þær brtt. sem eru gerðar við 17. og 22. gr. frv.

Auðvitað tryggja jafnréttislög ekki endanlegt jafnrétti, en þau skapa lagaramma og leiðbeinandi reglur fyrir framkvæmdavaldið og samfélagið í heild. Það skiptir þó e. t. v. meira máli að jafnrétti er ekki síður hvernig búið er að fólki í þessu þjóðfélagi og þá sérstaklega konum að því er varðar þann málaflokk sem hér er á dagskrá. Ég bendi á að það var fellt hér mikið jafnréttismál á dögunum sem var frv. um kauptryggingu fiskverkafólks. Það hafa verið lækkuð framlög til dagvistarheimila. Það liggur einnig fyrir að laun eru orðin það léleg á dagheimilum og í skólum að fólk flýr þessar stofnanir. Það hefur í för með sér að þær sinna ekki hlutverki sínu sem skyldi. Hætt er við því, miðað við hina hefðbundnu verkaskiptingu sem er víðast hvar enn þá, að þetta komi sérstaklega niður á konum. Engu að síður skiptir löggjöf eins og sú sem við erum hér að gera tillögur um verulegu máli.

Ég tel ástæðu til að þakka formanni félmn. Nd., hv. þm. Friðrik Sophussyni, fyrir það mikla starf sem hann lagði á sig til að tryggja samstöðu allra flokka um þetta mál. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þeir flokkar sem ekki eiga fulltrúa í félmn., Samtök um kvennalista og Bandalag jafnaðarmanna, skuli hafa fengið kost á því að starfa með nefndinni að þessu máli og taka þátt í tillögugerðinni.