13.06.1985
Neðri deild: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6477 í B-deild Alþingistíðinda. (5879)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn í umr. og lýsa yfir sérstakri ánægju yfir því hvernig þróun þetta mál hefur tekið hér á hv. Alþingi og ég vil sérstaklega flytja félmn. þakkir fyrir afgreiðslu á þessu máli og ekki síst formanni félmn. sem ég veit að hefur lagt sig fram um að reyna að ná þeirri samstöðu sem hér hefur myndast. Ég vil segja hér að þetta eru í raun og veru merk tímamót þó að menn greini kannske á um hvort skrefin séu stutt eða löng. Hér fyrr í dag samþykkti Alþingi einróma að fullgilda sáttmála Sameinuðu þjóðanna að því er varðar réttindi fólks. Nú eru menn sammála um að afgreiða hér breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla á þann hátt, sem verðugt er, að allir vilja hafa fullt samkomulag um afgreiðslu þessa máls. Ég vona fastlega að hv. Ed. taki þetta mál sömu tökum þannig að hægt verði að afgreiða frv. áður en þinglok verða.

Ég sem sagt endurtek að ég þakka félmn. og þm. öllum fyrir afgreiðslu þessa máls.