07.11.1984
Efri deild: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Út af ummælum hæstv. fjmrh. og stuðningsyfirlýsingu hans við þetta frv. og því einnig að hann vildi eigna sér þetta frv., að frv. væri undan hans rifjum runnið frekar en hæstv. iðnrh., langaði mig til að spyrja ráðh. um það-og það er gott að fá upplýsingar um það áður en málið fer í nefnd — hvernig hæstv. fjmrh. ætlar að ávaxta þá fjármuni sem hafa verið festir í grunninum við Skútuvog, sem skv. upplýsingum úr skýrslu iðnrh. um starfsemi ríkisfyrirtækja var 31. des. 1983 58 millj. tæpar. Einnig vil ég spyrja hæstv. fjmrh., fyrst hann hefur haft forustu í þessari sölu, hvaða hugmyndir hann hefur í sambandi við framhald þess verkefnis sem Landssmiðjan var með í sambandi við fiskmjölsvinnslu.

Hæstv. fjmrh. vakti athygli á því að með skipulagsbreytingum hjá Landssmiðjunni væri hægt að fækka starfsmönnum um 15–20. Ég skildi að vísu ekki hvað það kom því máli við hvort fjöldi hluthafa var 23, 50 eða 70, sem ég undirstrikaði í fyrri ræðu minni. En þetta er merkileg ábending og ég undirstrika það. En mér finnst stórt til orða tekið hjá hæstv. fjmrh. þegar hann segir að þessi staðreynd lýsi því að þeir menn, sem hafi stjórnað og verið starfsmenn Landssmiðjunnar áður, hafi ekki verið trúverðugir. Það þarf ekki mikið meira að gera en að fletta við yfir á fyrri blaðsíðu og sjá að slík orð um starfsmennina hæfa ekki og eru langt frá því að vera réttlætanleg. Þar kemur það fram að starfsmenn verksmiðjunnar í því eignarformi sem hún er í enn þá hafa verið að breyta rekstri fyrirtækisins og eru þegar búnir að því. Það kemur fram í yfirliti yfir sölu tækja fyrirtækisins að m.a. með tölvuvæðingu hafi fyrirtæki breytt rekstrarþáttum hjá sér og getað sparað við það mannskap. Hæstv. fjmrh. ræðir svo um það að starfsmenn hafi ekki verið trúverðugir á sama tíma og það er undirstrikað að þeir menn, sem eru að taka við starfsemi verksmiðjunnar og eignum, séu trúverðugir, þeir séu ágætismenn. Framkvæmdastjóri verksmiðjunnar, sem áður var, er einn af stjórnarmönnum fyrirtækisins sem nú er búið að stofna. Ég taldi sem sagt ástæðu til að mótmæla því að upplýsingar þær, sem hér eru í frv. um þennan möguleika að fækka starfsfólki séu í neinum tengslum við það að starfsmenn fyrirtækisins hafi ekki sýnt fyrri eigendum sínum fullan trúnað og á hinn veginn að það séu neitt meiri líkur fyrir því að þessir ágætu menn sýni meiri trúnað í þágu sjálfs sín en þeir hafa gert í þágu ríkisins.