13.06.1985
Neðri deild: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6478 í B-deild Alþingistíðinda. (5881)

Um þingsköp

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér liggja fyrir allmörg mál, en mjög misjafnlega snemma komin á dagskrá og frá nefndum. Hér er t. d. 14. dagskrármálið, grunnskólar, sem er komið út úr nefnd fyrir alllöngu og má undarlegt heita ef ekki fer að verða tímabært að taka það til umr., en efnislega fjallar það um það málefni hvort skólaskylda eða fræðsluskylda skuli vera í 9. bekk grunnskóla. Ég vænti þess að forseti sjái sér fært að keyra ekki svo hratt áfram nýja og nýja fundi að málin liggi eftir sem e. t. v. eiga hér greiða leið í gegnum þingið fengjust þau tekin fyrir til umr.