13.06.1985
Neðri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6479 í B-deild Alþingistíðinda. (5889)

Um þingsköp

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Úr því að verið er að ræða um þingsköp er rétt að vekja athygli á því að í dag er 13. júní. Þetta mun vera lengsta þing sem nokkurn tíma hefur verið haldið, ég hygg að það séu engin dæmi um jafnlangt þing og þetta, og samt hefur ríkisstj. ekki enn þá reynt að semja um lok þingsins. Mér þætti fróðlegt að vita hvort ríkisstj. gerir ráð fyrir að þessi mánuður liði allur og annar til, því það er nóg um að tala og nóg að fara yfir í nefndum, áður en henni þóknast að stíga af stalli sínum til að reyna að semja um þingslitin. Til viðbótar heyri ég að hæstv. forsrh. hafi látið hafa það eftir sér í hádegisfréttum, eins og til að hnykkja á og bæta samkomulagið í þinginu, að stjórnin ætli sér að afgreiða allt. Þessa tilkynningu fáum við svipað og Morgunblaðstilkynninguna um daginn eins og til að auðvelda þingstörfin. Ég vil sem sagt inna hæstv. forsrh. eftir því í fyrsta lagi: Hvenær ætlar hann sér að reyna að ganga í það að semja um þinghaldið? Og í öðru lagi: Er það rétt eftir honum haft að hann ætli alls ekkert að semja og hann ætli að keyra allan vitlausa málalistann í gegn eins og hann leggur sig? Það er gert til þess að þóknast íhaldinu fyrst og fremst vegna þess að landsfundur Sjálfstfl. gerði samþykktir í ýmsum málum og framsókn er núna á handahlaupum að afgreiða vitleysuna fyrir íhaldið. Það er alveg sama hvað íhaldinu dettur í hug, hvort það er auglýsingaútvarp eða hvað það er. Framsókn hneigir sig og þakkar og samþykkir og afgreiðir. Ég var að velta því fyrir mér hvort framsókn mundi samþykkja það ef Sjálfstfl. krefðist þess að Framsfl. yrði lagður niður og gengi í Sjálfstfl. Það er komið að því að spyrja spurningar eins og þessarar í fullri alvöru eins og Framsfl. er á sig kominn þessa dagana.

Ég hef lagt tvær spurningar, herra forseti, fyrir hæstv. forsrh.