07.11.1984
Efri deild: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það kom fram hér áðan að hæstv. fjmrh. taldi sig vera upphafsmann að því að þetta fyrirtæki yrði selt. Það mun rétt vera og hann gaf út yfirlýsingar um fleira, t.d. það að selja mikið fleiri ríkisfyrirtæki og hlutabréf ríkisins í hinum ýmsu fyrirtækjum. Ég man eftir einu fyrirtæki sem ríkið á stóran hlut í. þ.e. Íslenskir aðalverktakar. Það kom og fram hjá hæstv. iðnrh. að Landssmiðjan á víst allmikið af hlutabréfum í Sameinuðum verktökum sem eru hluti af Íslenskum aðalverktökum. en hæstv. fjmrh. kvaðst vilja selja hlut ríkisins í því fyrirtæki. Ég veit að ýmsir hafa óskað eftir að kaupa hlut í því fyrirtæki. Ég veit að stórt félag verkafólks á Suðurnesjum. Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur, hefur einmitt óskað eftir því að fá að kaupa eitthvað af hlut ríkisins í þessu fyrirtæki og hefur sent erindi til fjmrh. um það efni en ekkert svar fengið. Ég spyr: Hvað veldur? Voru þetta marklausar yfirlýsingar hér áður eða hafa einhverjir kippt í spottann?

Hvað varðar Landssmiðjuna og hugleiðingar um það hvort starfsmenn eru trúverðugir eða ekki. þá finnst mér það ekki efni til að ræða hér. En ég minni á að Sjálfstfl. hefur haft iðnrh. mjög oft og kannske lengst af sem hafa verið skrifaðir fyrir því að stjórna þessu fyrirtæki. Landssmiðjunni. Þykir mér það allharður dómur yfir þeim mönnum ef þeim er ætlað að hafa stuðlað að því að hafa miklu fleira fólk í hinum og þessum ríkisfyrirtækjum — og þá einkum þessu fyrirtæki — en þörf var á. Það er alveg ljóst að eigi ríkið fyrirtæki verður að stjórna þeim af fullum þrótti og sinna þeim á þann veg að þau geti vaxið og dafnað en ekki láta þau lympast niður þannig að þegar upp er staðið vilji menn henda þessu öllu frá sér vegna þess að ráðamenn hafa dregið lappirnar.

Ég ítreka það að ég tel rekstrarformið ekki skipta öllu máli. Ég er sömu skoðunar og hv. þm. Ragnar Arnalds lýsti hér áðan að það er ástæðulaust að vera með neinar kreddur í þessum efnum og Alþfl. hefur heldur ekki sýnt það að hann sé með kreddur í þessum efnum. En ég óttast að núverandi ráðamenn séu nokkuð kreddufullir þó vissulega geti hist svo á að þeir hafi rétt fyrir sér.