13.06.1985
Neðri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6480 í B-deild Alþingistíðinda. (5890)

Um þingsköp

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í fyrsta lagi var ekkert haft eftir mér í hádegisútvarpinu. Hins vegar frétti ég að þar hefði birst frétt frá ríkisstjórnarfundi sem var ekki rétt og ég leiðrétti hana í útvarpinu og leiðrétting sú kom í útvarpinu áðan. Auk þess vil ég upplýsa að ég hef átt tvo fundi með stjórnarandstöðunni og þar hefur verið rætt um málsmeðferð. Á fyrri fundinum var rætt um þá málsmeðferð sem gæti orðið til þess að þingi lyki í lok þessarar viku. En það tókst ekki eins og menn vita því að þingmenn hafa talið nauðsynlegt að hafa fleiri orð um ýmis þau mál sem ríkisstj. leggur áherslu á að afgreiða. Annar fundur var haldinn í gær og þar virtust menn nokkuð sammála um að skynsamlegra væri að stefna að þinglokum upp úr miðri næstu viku eða í lok næstu viku.

Ég vil taka það fram í þessu sambandi að ég hef aldrei verið hrifinn af því þegar ríkisstj. er að ákveða þingslitadag og síðan er unnið dag og nótt og menn fá ákaflega lítinn tíma til að ræða mörg mikilvæg mál. Ég tel t. d. að ítarlegar ræður, sem hér voru fluttar í gær og fyrr um mjög mikilvæg mál sem eru fyrir þinginu, séu að mörgu leyti til fyrirmyndar og auki virðingu þingsins. Það sýnir sig að menn vilja fjalla um þessi mikilvægu mál og menn eiga að fá tíma til þess. Svo ég tel hitt alrangt að vera að þröngva fram þingslitum og alveg rétt að vitanlega verður t. d. hv. Ed. að hafa sinn tíma og því lengur sem tekur að koma málum héðan til Ed., því lengur hlýtur að dragast að slíta þinginu.

Þetta er mín skoðun. Ég hef tekið þátt í samningum beint og óbeint áður og mér hafa ekki þótt þeir vera til fyrirmyndar eins og þeir hafa þá verið ákveðnir.