13.06.1985
Neðri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6481 í B-deild Alþingistíðinda. (5892)

456. mál, Byggðastofnun

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við brtt. sem flutt er af Halldóri Blöndal og Svavari Gestssyni. Í þeirri brtt. frá þeim hv. 2. þm. Norðurl. e. og hv. 3. þm. Reykv. er lagt til, með leyfi forseta:

„Stjórn Byggðastofnunar er heimilt að ákveða að heimili og varnarþing stofnunarinnar verði á Akureyri.“

Með hliðsjón af því að mér finnst að nokkuð stór landsvæði séu útilokuð frá þeim möguleika að Byggðastofnun eigi þar jafnan rétt til staðsetningar og vísa í því sambandi til ríkis Haukdæla og ríkis Sturlunga. svo að eitthvað sé nefnt, og ætla einnig að Ásbirningaveldi sé gjaldgengt í því sambandi, þykir mér rétt að flytja þá brtt. að í stað orðanna „á Akureyri“ komi: utan Reykjavíkur. og tel að þá sé ekki einum stað öðrum fremur hampað fyrir fram, heldur fari fram á því hlutlaust mat.