13.06.1985
Neðri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6501 í B-deild Alþingistíðinda. (5898)

456. mál, Byggðastofnun

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hélt ég hefði áður verið búinn að mæla nógu skýrt fyrir því hvers vegna eðlilegt væri að Byggðastofnun risi á Akureyri og væri þar staðsett. Það var satt að segja hálfaumkunarvert að hlusta á hæstv. iðnrh. áðan tala gegn þessari till., sem hann fylgir í hjarta sínu, og má segja að málflutningurinn var eftir því, þegar hann var í fyrsta lagi að reyna að halda því fram að ekki væri þinglegt að Alþingi ákvæði hvar opinber stofnun yrði, hefði sitt lögheimili og fasta aðsetur. Ég veit ekki betur en sumir hafi jafnvel talið þinglegt að hér á Alþingi yrði ákveðið hvar hlutafélag reisti verksmiðju. Það getur vel verið að heimskulegt sé að halda því fram að Byggðastofnun eigi að vera á Akureyri, mesta þéttbýlissvæði utan Reykjavíkur, en liggur það ekki ljóst fyrir að við getum ekki byggt upp strjálbýlið, við getum ekki haldið í við Reykjavíkursvæðið nema ef við færum þjónustuna út fyrir, burt af þessu svæði hér? Það liggur alveg ljóst fyrir.

Hitt fannst mér fróðlegt og skemmtilegt að heyra hv. 1. þm. Vesturl. tala áðan á þeim nótum sem hann gerði. Ég veit að hann meinti það að hans hugur stendur ekki til þess að efla Eyjafjörð eða eyfirskar byggðir ef hann á þess nokkurn kost að ná þaðan mola. Ég skildi því það sem hann sagði fullvel út frá hans sjónarmiðum. En staðreyndin er sú að Alþingi hefur haft lítinn sóma af því hvernig staðið hefur verið að því að tengja saman tvo mestu þéttbýlisstaði landsins og hvernig Alþingi hefur staðið að því að efla þjónustu, þá þjónustu sem er norðanlands, á Akureyri. Það er ekki enn farið að leggja varanlegt slitlag á veginn fyrir Hvalfjörð. Það er ekki einu sinni komið varanlegt slitlag upp á Akranes. Við þurfum ekki að orðlengja það þrátt fyrir að Alþingi hafi fyrir kannske 10 árum samþykkt ályktun um að láta varanlega vegagerð til Akureyrar sitja fyrir. Okkur þótti sjálfsagt að vinna að hringveginum, það var fyrsta skrefið, og á þeim tíma var almennur skilningur fyrir því að næsta skref yrði að leggja veg norður undir eins og búið væri að koma varanlegum vegi austur fyrir fjall. Við þetta hefur ekki verið staðið.

Ég hef hins vegar heyrt það og finn að það eru ýmsir þm. hér sem vilja spilla því að opinberar stofnanir fari út fyrir þetta þrönga svæði hér. Það er komið stóriðjuver við Hvalfjörð. Þar er herstöð. Þar er sementsverksmiðja. Þeir tóku til sín brúna og hefði þó verið hægt að byggja upp allan veginn norður til Akureyrar og leggja varanlegt slitlag á allan þann veg og láta brúna bíða. Þeir reka með bullandi tapi og halla skipaferju upp á Akranes. Ef við mundum selja hana og nota hallann væri fyrir löngu búið að leggja þennan sama veg norður. (Gripið fram í: Við notum ekki hallann.) Ég á við nota þá peninga sem í það fóru. Það er rétt. Ég þakka fyrir þessa leiðbeiningu. — Og annað eftir þessu. Þeir sátu fyrir um Ó-vegina. En það er ekki nóg. Það skal alltaf heimta meira og meira. Og svo sjá þeir ofsjónum yfir því þó einhver ein stofnun fái að koma norður á Akureyri!