07.11.1984
Efri deild: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Það er ekki af stríðni sem ég kem hér upp heldur af því að mig langar til þess að fá svör. Ég get ekki sleppt hæstv. iðnrh. með það svar sem hann gaf mér hér áðan. Ég veit að hann er löghlýðinn maður, ég veit að hann er löghlýðinn þm. og ég veit að hann er löghlýðinn ráðh. En ég veit líka að flestöll þau fyrirtæki, sem ríkið fyrirhugar að losa sig við eða selja, eru bundin lögum að meira eða minna leyti. Það er því ekki þannig að ríkisstj. geti ekki hugsað sér að hafa áhrif til breytingar á þeim. Ef hann ekki vill þá láta skoðun sína í ljósi sem ráðh. þá getur hann hugsanlega gert það sem þm. með tilliti til afstöðunnar til þessa steinullarævintýris á Sauðárkróki. Ég er ekki sammála hv. 3. þm. Norðurl. v., sem reyndar hefur nú gengið úr salnum, um að þetta fyrirtæki eigi eftir að veita birtu og yl frekar en önnur fyrir landsmenn. Hann nefndi reyndar eitt orð áðan sem ég tel öllu skipta um stjórnarstefnu í svona málum. Hann sagði: Aðstæður skulu ráða.

Þarna er tekið fyrst og fremst á hlutverki ríkisins og það er hlutverk þess að skapa aðstæðurnar þannig að heilbrigt, atvinnulíf geti þróast. Að lokum má minna á það að grettistök hafa gjarnan tilhneigingu til þess að missast ofan á tærnar á manni.