13.06.1985
Neðri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6544 í B-deild Alþingistíðinda. (5906)

456. mál, Byggðastofnun

Frsm. 2. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hér kom hæstv. forsrh. áðan og svaraði þeirri spurningu sem ég beindi til hans varðandi áætlanadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins, en ég hafði bent á það í ræðu minni fyrr að öll þau verkefni sem henni eru ætluð lægju meira og minna í lausu lofti ef lagafrv. sem hér liggja fyrir verða samþykkt óbreytt. Ég flutti brtt. við 2. umr. um að herða nokkuð á í sambandi við áætlunarverkefni Byggðastofnunar, sem væru þá áætlanir sem væru unnar í tengslum við heimaaðila og landshlutasamtök, en sú brtt. var því miður felld. Mér finnst að í þessu frv. sé bersýnilega sterk tilhneiging til að strika út allt sem heitir áætlunarvinna og að það beri keim af því að ætlunin sé að markaðssjónarmið ráði meiru en verið hefur í rekstri stofnunar eins og Byggðastofnunar.

Hæstv. forsrh. svaraði því til að ráðuneytin fengju áætlunarverkefni, ráðuneytin ættu að sinna þessu í stað áætlunardeildarinnar. Út af fyrir sig getur það verið góðra gjalda vert að ráðuneytin geri slíkar áætlanir, en í fyrsta lagi dreg ég mjög í efa að ráðuneytin muni sinna þeim málum nema í undantekningartilfellum. Ég minnist þess t. d. að í tíð hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar í iðnrn. var unnið verulega að vissum áætlunarverkefnum og var reynt að skyggnast inn í framtíðina með býsna athyglisverðum hætti. Ég óttast að ef þetta fer fram í ráðuneytunum hverju fyrir sig geti komið lífið út úr því og það sem kæmi út úr vinnunni væri kannske misvísandi og gengi ekki upp, myndaði ekki rökræna eða samfellda heild. Það var einmitt hugsunin með Framkvæmdastofnuninni að hún gæti unnið að samræmingu á slíkum heildaráætlunum þó að kannske megi segja að það hafi aldrei tekist að hrinda því í framkvæmd.

Ég vek athygli á þessu, herra forseti, og ég held að það verði óhjákvæmilegt fyrir Alþingi, ef þessi frv. fara í gegn, að taka á þessum áætlunarmálum ríkisins með sérstökum ákvæðum í löggjöf, hvort sem það eru sérlög eða þá frv. sem hefur að geyma ákvæði um verkefni ráðuneyta, banka og annarra slíkra stofnana.

Það var í orðum hæstv. forsrh. vikið nokkuð að till. okkar Halldórs Blöndals um að Byggðastofnun yrði á Akureyri og hæstv. ráðh. kvaðst mundu samþykkja till. Ólafs Þ. Þórðarsonar um að þessi stofnun gæti verið utan Reykjavíkur. Hins vegar kom það fram hjá honum að hann teldi till. okkar Halldórs Blöndals ekki mjög heppilega í þessu efni og mundi ekki samþykkja hana, heldur brtt. hv. þm. Ólafs Þórðarsonar. Ég minni á að till. okkar hv. þm. Halldórs Blöndals er þannig að það er varla hægt að fella hana. Það er raunar alveg fráleitt að fella hana vegna þess að hún kveður aðeins á um heimild til þess að þessi stofnun geti verið á Akureyri ef stjórn stofnunarinnar ákveður það. Þar er þessi staður tekinn út úr og ákveðinn, sem ég tel rétt að gera, en þetta er fyrst og fremst heimild. Það er alveg rétt, sem hæstv. iðnrh. sagði fyrr í kvöld, að það væri mikill skaði ef þessi till. yrði felld. Samt sagðist ráðh. ætta að greiða atkvæði á móti henni og láta skaðann eiga sér stað. Mér fannst að þessi skoðun hæstv. iðnrh. á brtt. væri harla skrýtin og mætti kannske nota um hana sömu orð og hann notaði um till. okkar hv. þm. Halldórs Blöndals að skoðunin væri — ég segi ekki óþingleg vegna þess að menn geta auðvitað haft hvaða skoðun sem þeim sýnist hér, en hún væri ekki ákaflega gáfuleg, svo ekki sé fastar að orði kveðið, enda þótt viðkomandi ráðh. hafi verið kallaður skynugur hér á dögunum.

Hér hefur farið fram ítarleg umr. um byggðamál og þm. Alþb. hafa gert grein fyrir sjónarmiðum flokks okkar í þessum umr. Ég tel ástæðu til að vekja athygli á því að þar hefur komið fram mjög mikið af upplýsingum. Ég hygg að óvíða verði að finna jafnítarlegar upplýsingar um byggðamál og í því hefti af þingtíðindum sem geymir þá umr. sem hér fer fram í kvöld. Þar var komið víða við eins og vera ber, allt aftur í landnám, og menn brugðu sér líka út fyrir landsteinana. Eins og forsrh. benti á þá var margt fróðlegt af því sem fram kom í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. um þessi mál, erlendis ekki síður en hérlendis.

Ég vil að lokum draga saman það sem ég tel að sé vandamál byggðanna á Íslandi. Vandamálið er tvíþætt. Annars vegar hefur afli minnkað og það kemur niður á framleiðslubyggðarlögunum allt í kringum landið. Það er nokkuð sem menn ráða ekki við og við verðum að taka því eins og það kemur fyrir. Hitt vandamálið er hins vegar mannanna verk og það er stjórnarstefnan. Sú stefna sem hefur fjármunina til vegs með þeim hætti sem ríkisstj. gerir er andstæð byggðastefnu og byggðasjónarmiðum. Það er ekki hægt að láta markaðinn um mótun byggðar í landinu. Markaðsöflin byggja upp atvinnufyrirtæki á þeim stöðum þar sem þau skila mestum gróða handa eiganda viðkomandi fyrirtækis. Það er þá ekki spurt um það sem heitir þjóðhagslegt arðsemismat.

Ég vek athygli á því, herra forseti, að í grannlöndum okkar tíðkast það mjög núorðið þegar fyrirtæki eru metin að ekki er aðeins spurt um niðurstöður rekstrar- og efnahagsreiknings viðkomandi fyrirtækis, heldur er lagt á fyrirtækin svokallað þjóðhagslegt arðsemismat, þ. e. að öll efnahagsáhrif, margfeldisáhrif af fyrirtækinu úti í hagkerfinu eru metin eftir alveg ákveðnum reglum. Það eru til viðurkenndar aðferðir við þetta þjóðhagslega arðsemismat sem hefur verið beitt í mörg ár í löndum eins og í Kanada og í Vestur-Þýskalandi. Ég held að við þurfum að átta okkur á því að stjórnarstefna sem hefur afkomu einstaks fyrirtækis að leiðarljósi dæmir byggðirnar í eyði.

Það er vafalaust hægt að sýna fram á að útgerð og fiskvinnsla hafi á undanförnum árum iðulega verið með talsverðum halla og það er nokkuð til í því. Þessi fyrirtæki hafa verið að tapa eigin fé í stórum stíl síðustu misserin, eins og hv. 10. landsk. þm. hefur bent á betur en aðrir menn. En þrátt fyrir það mundu þessi fyrirtæki vera talin skynsamleg á mælikvarða þjóðhagslegrar arðsemi. Ég held að við þurfum að temja okkur að horfa á fyrirtækin í heildar efnahagslegu samhengi meira en gert hefur verið.

Ég tel sem sagt að vandi byggðanna í landinu sé tvíþættur, það sé annars vegar framleiðslusamdrátturinn og svo hins vegar stjórnarstefnan sjálf, þ. e. vaxtaokrið og láglaunastefnan, sem kemur mjög niður á dreifbýlinu. Vaxtaokrið kemur þar niður vegna þess að dreifbýlið er með fjármagnsfreka atvinnuvegi og láglaunastefnan kemur þar niður vegna þess að fólk flýr þessa grundvallaratvinnuvegi meðan launin eru svo lág þar. Það verður ekki hægt að vinna t. d. fisk í dýrustu pakkningar vegna þess að fólk fæst ekki til að vinna í frystihúsunum og þar af leiðandi er beint tap fyrir þjóðarbúið af þessari láglaunastefnu. Það má sýna fram á það með nokkuð gildum rökum að ef kaupið væri hækkað í frystihúsunum væri hægt að auka tekjur frystihúsanna verulega um leið.

Við höfum, Íslendingar, verið að byggja upp á síðustu áratugum sjávarútveginn. Síðustu 40 árin eða svo höfum við verið að byggja þessa grein upp í þróaðan iðnað á flestum sviðum. Þessi grein er þannig gerð að hún auðveldar framkvæmd byggðastefnu vegna þess að fyrirtækjunum er dreift allt í kringum landið, miðað við það hvernig þau verða best staðsett með tilliti til miða og afla.

Ég óttast það, herra forseti, að frv. um Byggðastofnun muni heldur verða til bölvunar ef eitthvað er í sambandi við byggð í landinu. Það er dregið úr félagslegum áherslum. Þess vegna held ég að byggðastefna hefði verið betur komin með Framkvæmdastofnuninni. Þó að hún sé vond og léleg eins og hún hefur verið sé hún skárri en þessi Byggðastofnun. Það hefðu einhvern tíma þótt tíðindi hér að menn mundu spá því að einhver saknaði Framkvæmdastofnunarinnar, en ég óttast að það sé svo hraklega og illa að þessu staðið af hendi hæstv. ríkisstj. að menn muni jafnvel sakna Framkvæmdastofnunar ríkisins við Rauðarárstíg, og er þá langt gengið verð ég að segja.

Ég vænti þess að hv. Ed. fái tækifæri til að fjalla ítarlega um þessi byggðamál, en minni á, herra forseti, að hér eru á dagskrá til 2. umr. tvö samkynja mál. Það eru frv. um þróunarfélag og frv. um Framkvæmdasjóð. Það er útilokað fyrir Ed. að fjalla um þessi mál öðruvísi en hún hafi þau öll í einu. Það er enginn bragur á því að deildin fari að taka byggðastofnunarmálið fyrir án þess að hin fylgi þar með. Það er alveg ljóst að Ed. fær ekki frv. um þróunarfélag og Framkvæmdasjóð eins snemma og frv. um Byggðastofnunina. Í rauninni liggur því ekkert á að afgreiða málið hér og ljúka 3. umr. fyrr en umr. er búin um Framkvæmdasjóð og þróunarfélag líka og best að láta málin verða samferða til Ed. Mér sýnist þó að það sé heldur ólíklegt að það geti orðið vegna þess að þó að við séum búin, einhver okkar, að ræða nokkuð ítarlega um Byggðastofnun eru enn talsverðar umr. eftir um þau mál sem fylgja því frv., þ. e. varðandi Framkvæmdasjóð og varðandi þróunarfélag, sem þýðir það að ólíklegt er að okkur endist morgundagurinn til að ljúka þeim málum ásamt umr. um frv. um landbúnaðinn sem á að byrja að ræða kl. 2 á morgun. Það er alveg út í hött að vera að halda mönnum hérna fram eftir allri nóttu. Það er ekki búið að ákveða nein þingslit þannig að það er ástæðulaust að vera hérna mikið lengur en hálftíma eða svo í viðbót.