14.06.1985
Efri deild: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6560 í B-deild Alþingistíðinda. (5910)

522. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Fjh.- og viðskn. fjallaði um þetta mál í morgun og glöggvaði sig á breytingu sem gerð var í Nd. Sú breyting var gerð við 7. gr. frv. þar sem getið er um grunnfjárhæðir og breytingar á þeim með tilliti til byggingarvísitölu. Í 7. gr. frv., eins og það var lagt fram, stendur, með leyfi forseta:

„Skulu þær (grunnfjárhæðirnar) breytast árlega í samræmi við breytingar er verða kunna á byggingarvísitölu frá upphafi til loka árs, í fyrsta skipti vegna innborgana á árinu 1986 miðað við breytingu á byggingarvísitölu frá 31.12.1984 til 31.12.1985. Ríkisskattstjóri skal fyrir upphaf tekjuárs birta nýju fjárhæðirnar.“

Breytingin sem gerð var í Nd. er sú að felld eru niður orðin „frá upphafi til loka árs“. Við fyrstu sýn virtist þetta vera gert beinlínis til þess að ekki væri neinn misskilningur á ferðinni, að árið hæfist 1. janúar. En líklega er nú breytingin ekki til þess gerð heldur einfaldlega til þess að koma í veg fyrir þversögn í orðalagi. Hins vegar hefði að mínum dómi allt eins mátt breyta um dagsetningu og segja 1.1. 1985 til 31. 12. 1985 í stað 31. 12. 1984 til 31. 12. 1985. Niðurstaðan varð nú samt þessi í Nd. að nema brott orðin „frá upphafi til loka árs“. Mér er sagt að þessar breytingar séu gerðar í fullu samráði við ríkisskattstjóra. Ég gerði tilraun til þess að ná til hans nú rétt fyrir hádegi en það tókst ekki. Hins vegar hef ég fengið nokkuð greinargóða lýsingu á því sem gerðist í Nd. í þessu máli hjá hv. formanni fjh.- og viðskn. Nd.

Að þessum orðum sögðum legg ég til fyrir hönd fjh.og viðskn. að þessi breyting verði samþykkt í þessari hv. deild.