14.06.1985
Efri deild: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6560 í B-deild Alþingistíðinda. (5912)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þetta frv. var lagt fram á síðasta þingi en hlaut þá ekki afgreiðslu og hefur verið hér í meðförum Alþingis frá því í byrjun þessa þings. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mikla framsögu fyrir þessu máli, það hefur verið mikið í umræðu.

Það má víst segja að þessa dagana séu nokkurs konar tímamót í jafnréttismálum. Í fyrsta lagi hefur Alþingi nú staðfest sáttmála Sameinuðu þjóðanna um jafnréttismál og er það vissulega tímanna tákn, ekki síst núna í lok kvennaáratugarins. Í öðru lagi skeði það í meðferð þessa máls að allir stjórnmálaflokkar hér á Alþingi eða fulltrúar þeirra í félmn. Nd., ásamt öðrum aðilum sem ekki áttu aðild að félmn. tóku sér fyrir hendur að koma þessu máli í gegnum Nd. með því að flytja sameiginlega brtt. við frv. Er það vissulega mjög mikilvægt atriði til að ná samstöðu í þessu máli.

Þær brtt. sem samþykktar voru samhljóða í Nd. í gær eru á þskj. 1160. Það var í fyrsta lagi að bæta við 3. gr. frv. samhljóða ákvæði eins og er í þeim sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Alþingi hefur staðfest, þ. e. eins og þar stendur: „Hvers kyns mismunun eftir kynferði er óheimil. Þó teljast sérstakar tímabundnar aðgerðir, sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna, ekki ganga gegn lögum þessum.“ Það var að allra mati mjög mikilvægt atriði að fá þetta inn í lagafrv. enda er það, eins og ég sagði áður, í fullu samræmi við það sem stendur í sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Enn fremur var hér gengið til móts við ýmsa aðila í sambandi við 17. gr. frv. Þar er bætt við: „Fallist viðkomandi aðili ekki á tilmæli ráðsins (þ. e. jafnréttisráðs) skv. 16. gr. er ráðinu heimilt að höfða mál til viðurkenningar á rétti aðila í samráði við hann. Gildir það einnig þótt ekki sé um skaðabótakröfu að ræða.“ Þetta var af jafnréttisráði og ýmsum fleiri aðilum talið mjög mikilvægt og var við því orðið.

Sömuleiðis var sú breyting gerð á 22. gr. að hún orðist svo: „Félmrh. skal leggja fyrir ríkisstj. framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn.“ Þessa áætlun er gert ráð fyrir að ráðh. leggi fyrir Alþingi til umræðu og á tveggja ára fresti á enn fremur að leggja fram á Alþingi skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála. Skv. þessu ákvæði á því að vera hægt að leiða þessi mál hér inn á Alþingi með reglubundnum hætti og ræða stöðu þeirra á viðunandi hátt.

Ég vil svo, virðulegi forseti, leggja mjög mikla áherslu á að einnig hér í hv. Ed. náist sú samstaða sem náðist meðal allra þm. í Nd. Þar sem örstutt er væntanlega til þingloka eru það eindregin tilmæli mín og ósk til hv. alþm. í Ed. að þessari samstöðu verði fylgt eftir hér einnig með því að afgreiða hratt þetta frv. svo að það geti orðið að lögum. Eins og ég sagði áðan eru nú viss tímamót í þessum málum ef Alþingi samþykkir einnig þessi lög sem verða örugglega til styrktar því sjálfsagða réttlætismáli að jafna stöðu og rétt kvenna og karla á sem flestum sviðum.

Ég vonast sem sagt til að þetta mál fái greiða afgreiðslu og óska eftir að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.