14.06.1985
Efri deild: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6562 í B-deild Alþingistíðinda. (5916)

532. mál, útvarpslög

Flm. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Aldrei er góð vísa of oft kveðin og aldrei of oft minnt á að við eigum að vera vönd að virðingu okkar hér á hinu háa Alþingi og samþykkja ekki aðra löggjöf en þá sem fær staðist og er rökrétt. Því var því miður ekki fyrir að fara með þau útvarpslög sem hér voru samþykki í gær, minnihlutalögin sem ég vil svo nefna, lög sem ekki njóta stuðnings meiri hluta þeirra manna sem sæti eiga á Alþingi.

Ég flutti þetta frv. í gær áður en útvarpslögin voru samþykkt. Þetta er frv. til l. um breytingu á útvarpslögum nr. 19/1971. Efni þessa frv. er að við gildandi útvarpslög bætist ákvæði til brb. sem er svohljóðandi: „Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga þessara er ráðh. heimilt að veita öðrum aðilum heimild til staðbundins útvarpsrekstrar á tilraunatímabili er hefst 1. janúar 1986 og lýkur 31. desember 1988.“

Síðan er hér fjallað um það hverjum skilyrðum þessi heimild skuli bundin. Í fyrsta lagi skal kjósa útvarpsréttarnefnd og geti leyfishafar sent þetta tilraunaútvarp út með þrenns konar hætti. Í fyrsta lagi með því að leigja dreifikerfi Ríkisútvarpsins á þeim tíma sem Ríkisútvarpið nýtir það ekki og nota það til útsendinga. Í öðru lagi með því að leigja rásir í boðveitukerfum sveitarfélaga. Í þriðja lagi með eigin senditækjum sem póst- og símamálastjórnin viðurkennir. Gert er ráð fyrir að leyfishafar geti aflað sér tekna til að standa undir útvarpsrekstri með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með afnotagjöldum og í öðru lagi auglýsingum sem miðist við verslun og þjónustu á starfssvæði leyfishafa, enda fari hlutfall auglýsinga af útsendri dagskrá eftir nánari ákvörðun útvarpsréttarnefndar.

Þetta frv. var flutt hér í gær, áður en minnihlutalögin voru samþykki, og það er raunar aðeins skynsamleg ábending um það með hverjum hætti hefði verið æskilegt að leysa þetta mál ef Sjálfstfl. hefði ekki rekið málið af slíku offorsi, mér liggur við að segja ofbeldi, eins og gert var þar sem hafnað var að fallast á till. til að koma lögunum í skynsamlegt horf. Verður sú afstaða, hygg ég, lengi í minnum höfð. Það verður náttúrlega líka lengi í minnum haft hvernig, við skulum segja Framsfl. og þriðji stjórnarflokkurinn, sem BJ virðist vera að verða, brugðust við í afstöðu til brtt. þar sem um var að ræða eins konar samspil um að gæta þess nákvæmlega að engin till. yrði samþykkt og fengi meirihlutastuðning þannig að málið þyrfti að fara aftur til Nd. BJ sá til þess með mjög eftirminnilegum hætti. Það er raunar skemmtilegt og skondið að flokkurinn sem talar í sífellu um að valdið eigi að færa til fólksins vill ekki sjö manna útvarpsréttarnefnd. Heldur vill hann fela ráðh. einum allt vald um framkvæmd laganna. Það er undarleg lógikk; það eru undarleg rök. En ástæðulaust er að hafa fleiri orð um það.

Í þessu frv. sem hér er til umræðu nú er gert ráð fyrir að útvarpsréttarnefnd starfi. Það er eðlilegt, en þetta mál mun fara til menntmn. og verður sjálfsagt afgreitt þar. Nefndir þessarar hv. deildar eru mjög afkastamiklar í afgreiðslu mála nú og stendur hvergi á. Ólíkt höfumst við að í neðra og efra, eins og þar stendur, en ljóst er að eftir samþykkt útvarpslagafrumvarpsins í gær, minnihlutafrumvarpsins, þarf að gera breytingar á þessu frv. eins og það er núna vegna þess að auðvitað þarf að fella þau lög úr gildi og þetta bráðabirgðaákvæði sem kemur aftan við nýju útvarpslögin. Þó er kannske ekki víst að þurfi að fella lögin úr gildi núna vegna þess að þau öðlast ekki gildi fyrr en 1. janúar 1986, enda þótt menntmrh. sé nú ætlað að skipa ráð og nefnd samkv. lögunum hið fyrsta. En það kemur sem sagt tæknilega til athugunar í nefnd hvort þurfi að breyta þessu. Ólíkt væri það nú skemmtilegra og skynsamlegra að afgreiða málið með þessum hætti þannig að þessi heimild væri veitt í núgildandi útvarpslögum og þau stæðu síðan óhögguð meðan við værum að koma okkur upp bærilegum útvarpslögum, tækjum okkur til þess tíma og reyndum að ná um það samstöðu þannig að a. m. k. sæmilegur friður gæti verið um þetta mál.

Ég ítreka það sem ég sagði hér fyrir tveimur dögum að ég er sannfærður um að ef Sjálfstfl. hefði ekki þverskallast í þessu máli og tekið þessa óskiljanlegu afstöðu, hefði verið hægt hér í Ed. að ná mun víðtækara samkomulagi um þetta mál en raun bar vitni. Ýmsir hv. nm. úr stjórnarflokkunum sýndu málinu fullan skilning og höfðu á því áhuga að samkomulag yrði á breiðari grundvelli en tekist hefur til þessa, og ég er alveg sannfærður um að okkur hefði tekist að búa til frv. sem hefði haft allnokkuð meiri stuðning og meiri hluta á Alþingi heldur en það frv., sem við vorum að fjalla um, þar sem engu mátti breyta. Þessi vinnubrögð eru auðvitað fyrir neðan allar hellur og mikil vanvirða við Alþingi og þessa deild að fara þannig að að læsa málinu með því að samþykkja frv. með öllum vitleysunum. Það var rækilega bent á ágallana en menn létu það bara sem vind um eyru þjóta.

Ég ætta ekki, virðulegi forseti, að hefja hér upp nýja umræðu um þessi mál. Ég geri ráð fyrir að mönnum þyki útvarpslagamálið fullrætt. Hér er bara um að ræða leið til að leysa þetta mál með skynsamlegri hætti en ákveðið var í gær.

Ég legg til að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og menntmn.