14.06.1985
Efri deild: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6563 í B-deild Alþingistíðinda. (5917)

532. mál, útvarpslög

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð vegna ummæla hv. 5. landsk. þm. hér áðan í sambandi við spurninguna um nefnd eða ráðherra. Áður en ég sný mér að því að reyna að svara þeim get ég að vissu leyti tekið undir þá hugmynd sem í raun og veru býr að baki frumvarpsflutningi hv. 5. landsk. þm. Ég held að ef svona frv. hefði komið fram fyrr hefði verið mjög eðlilegt að taka með einhverjum slíkum hætti á þessu máli vegna þess að það frv. sem við samþykktum var mjög langt frá því að vera fullkomið. Ef menn á annað borð höfðu áhuga á að ýta þessum málum til þeirrar áttar í fyrsta lagi að afnema einkarétt

Ríkisútvarpsins og hins vegar að heimila öðrum, og þá sem flestum sem það vildu, að reka eigin útvarpsstöðvar, þá mátti alveg eins fara þessa leið. Það er í raun og veru ergilegt, ef svo má taka til orða, að þetta frv. skuli ekki hafa komið fram fyrr eða eitthvað annað því svipað.

Aftur á móti í sambandi við spurninguna um nefnd eða ráðherra verður kannske að grípa til einhverra líkinga til þess að skýra það mál örlítið nánar. Og án þess að vera að gera nokkrum eitt eða annað upp, til þess eins að menn skilji nógu skýrt hvað hér er á ferðinni, lít ég svo á að kjósendur séu nokkurs konar dómstóll um gerðir þeirra manna sem þeir hafa kosið og í því sé vald kjósendanna fólgið. Þeir framselja þetta vald til hinna kjörnu fulltrúa. Nú hefur það orðið venja hér á Íslandi, sem er alls ekki algild venja í þingræðislöndum samt sem áður, að niðurstöður kosninga eru framlengdar með þeim hætti að kjörnar eru nefndir af hálfu þingsins til alls kyns starfa á sviði framkvæmdavaldsins. Mörgum finnst þetta mjög eðlilegt og sjá í því að raunverulega sé verið að framlengja vilja kjósenda eða vilja fólksins. En ef við hugsum þetta dæmi upp aftur og reynum að ímynda okkur hvernig kjósendur eigi að gera upp hug sinn til starfa þessara nefnda í kosningum, þegar þeir hafa horft á störf þeirra og vinnu, hljóta allir að skilja hversu erfitt það er fyrir kjósandann að gera sér grein fyrir hvern hann á að draga til ábyrgðar þegar hann metur störf nefnda sem þessara. Þá er ég að tala um nefndir eins og útvarpsráð eða útvarpsréttarnefnd og ég er að tala um allar þær nefndir, stjórnir og ráð sem kosnar eru með þessum hætti hér á þingi.

Tökum annað dæmi til skýringar, þ. e. að maður fremur glæp. Ef einn maður fremur glæp fer það ekkert á milli mála hvern á að draga til ábyrgðar fyrir þann glæp frammi fyrir dómstólum. Ef fimm menn fremja hann saman eru þeir allir samsekir. Ég held að í þessari einföldu uppsetningu á dæminu hljóti skynsamir menn að átta sig á því hvaða munur er á því að fela einstaklingi ábyrgð á verki eða fela nefnd ábyrgð á verki. Kjósandinn hefur ákveðna möguleika til að draga einstaklinginn, ráðherrann, sem fulltrúa einhvers stjórnmálaafls til ábyrgðar fyrir gerðir sínar í kosningu. Alþingi hefur möguleika á að draga þennan einstakling til ábyrgðar fyrir gerðir sínar í umboði kjósenda. En Alþingi er samsett af mörgum stjórnmálaflokkum sem síðan kjósa hver um sig fulltrúa í slíkar nefndir. Þeir hafa í raun og veru enga möguleika til að draga þessar nefndir til ábyrgðar. Þeir hafa það ekki nema valdaumboðið sé hreinna og skýrara en það er í dag.

Ég held ég láti þessi orð nægja til þess að reyna rétt eina ferðina enn að skýra þau sjónarmið sem lúta að því að við í Bandalagi jafnaðarmanna berjumst fyrir öðruvísi stjórnskipan en við núna búum við. Menn tala af mikilli hneykslun um það að menn skuli vilja afnema þingræðið rétt eins og þingræðið sé eitthvað sem við höfum fengið í gjöf frá guði. Allir vita að þingræðið er í raun og veru bara ákveðið þróunarstig í sögu lýðræðisins. Þingræðið er þannig til komið á flestum stöðum að fyrstu lýðræðislega kjörnu þingin störfuðu til hliðar við framkvæmdavald sem skipað var að mestu leyti mönnum af aðalstign og úr erfðastéttum þjóðfélagsins, þeim stéttum sem höfðu þegið valdið frá guði, og þingræðið var bara ákveðin leið til að leysa þann vanda sem fólst í samskiptum lýðræðislega kjörinna þinga og sjálfskipaðs og spillts framkvæmdavalds aðalsmanna. Við vitum að til eru margar aðrar leiðir til að framlengja vald fólks, kjósenda og einstaklinga, en þær sem farnar eru í dag og að það stig sem við erum stödd á núna í sögu lýðræðisins, sem ekki er nú ýkja gömul. er auðvitað langt frá því að vera eitthvert endanlegt stig á því hvernig vilji fólks kemur fram við stjórn samfélaga, hvort sem um er að ræða sveitarfélög eða þjóðir. Og það held ég að blandist ekki nokkrum manni hugur um að því beinna sem lýðræðið er, því réttlátara er það í þeim skilningi að vilji meiri hlutans kemur fram í öllum aðgerðum stjórnvalda.

Það er annað líka sem beint lýðræði býður upp á og það er að hafi kjósandinn beinan eða sem beinastan umfjöllunarrétt eða umfjöllunaraðild að löggjöf losnar stjórnmálamaðurinn með því á vissan hátt undan þeim þvingunum sem fólgnar eru í samskiptum hans við hagsmunasamtök í þjóðfélaginu, svokallaða þrýstihópa. Það væri óskandi að maður ætti eftir að sjá fram á þá tíð hér á Íslandi, að stjórnmálamenn gætu orðið sem mest óháðir þeim sterku þrýstihópum sem núna hafa hvað mest áhrif á stjórn í þessu landi, þrýstihópum sem ekki eru bornir uppi af lýðræðislegum kosningum þjóðarinnar heldur eru til komnir með allt, allt öðrum hætti og eiga þar af leiðandi í raun og veru engan rétt, hafa ekkert umboð til þess að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnmálamanna. Ég er að tala um það að sú aðferð að stjórna stofnunum ríkisins sem hér hefur verið valin margsinnis og seinast í gær, að réttur manna sé mældur, veginn og metinn í nefndum, sem tilkomnar eru og kjörnar með þeim hætti að niðurstöður kosninga eru framlengdar inn í framkvæmdavaldið, þá á ég við útvarpsréttarnefnd sem var verið að lögleiða hér í gær, þær eru valdatæki sem kjósandinn hefur ekki nokkurn möguleika á að draga til ábyrgðar fyrir gerðir sínar. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt. En ég gerði það bæði í gær og áður að skýra það út hvers vegna ég vildi þó frekar ná fram þessum lögum eins og þau voru gölluð heldur en engum. Og ég hafnaði því að taka þátt í þeim skollaleik sem hér átti að fara fram í gær með till., sem sett var hér fram, undarlegri samsuðu úr öllum áttum, þar sem gerð var tilraun til þess að reyna að fiska atkvæði sem flestra bara í þeim eina tilgangi að stöðva framgang þessa frv., ekki vegna þess að menn væru að deila um grundvallaratriði, hugmyndafræðilegan ágreining í afstöðu sinni til þessara laga, heldur vegna þess að í valdatafli stjórnarflokkanna þóknaðist öðrum flokknum að reyna að bregða fæti fyrir þessa löggjöf til þess að halda sinni stöðu á samningaborðinu.

Virðulegi forseti. Ég sé að þessi umræða fer mjög í taugarnar á sumum þm. hérna og ég sé ekki heldur neina ástæðu til þess að vera að tala yfir mönnum sem láta í ljós í raun og veru vanvirðu sína á umræðu sem þessari, enda hefur það náttúrlega oftast orðið reynslan hér að þegar hefur átt að fara að tala um grundvallaratriði í stjórnskipan landsins missa eiginlega flestallir þm. áhugann og finnst við vera komnir út í eitthvað sem þeir hafa enga ástæðu til þess að fjalla um. Mönnum lætur hér miklu betur að fjalla um ýmiss konar tæknileg atriði, smáatriði sem eru hluti af þeim stjórnmálaleik sem menn hafa vanist hér á þessu þingi.