14.06.1985
Efri deild: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6569 í B-deild Alþingistíðinda. (5924)

456. mál, Byggðastofnun

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Með lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins frá 1971 var sett á fót byggðadeild við þá stofnun, eða Byggðasjóður. Má segja að þá hafi verið brotið í blað í afskiptum hins opinbera af byggðaþróun í landinu. Á þeim fimmtán árum sem liðin eru hafa Framkvæmdastofnun og Byggðasjóður sinnt þessu hlutverki á margan hátt með ágætum og vafalaust er að Byggðasjóður hefur með sínu átaki þegar um einstök byggðavandamál hefur verið að ræða ráðið sköpum um þróun byggðar á viðkomandi stöðum. Má nefna mörg dæmi um það að tekist hefur að endurreisa atvinnulíf og þar hefur risið að nýju blómleg byggð og blómlegt athafnalíf.

Engu að síður hefur verið af ýmsum fundið nokkuð að starfsemi Byggðasjóðs. Ýmsir hafa talið Byggðasjóð vera of mikinn viðbótarlánasjóð eins og sagt er. Og því verður ekki neitað að í mjög mörgum tilfellum hefur Byggðasjóður starfað skv. þeim reglum að lána ákveðinn hundraðshluta til viðbótar við lán sem koma frá stofnlánasjóðum. Hafa þau lán þá ekki orðið svo markvisst til byggðaeflingar eins og æskilegt mætti teljast.

Þegar þessi ríkisstjórn var mynduð var ákveðið að taka lög um Framkvæmdastofnun ríkisins til endurskoðunar, m. a. vegna þess að ríkisstj. vill leggja stóraukna áherslu á það hlutverk Framkvæmdastofnunar, sem má segja að sé algert aukahlutverk nú orðið, að vinna að þróun og eflingu nýrra atvinnugreina með styrkjum og áhættufé. Ekki þótti samrýmanlegt að Byggðasjóður yrði deild innan slíkrar stofnunar. Var því ákveðið að flytja frv. um sérstaka byggðastofnun sem yrði sjálfstæð og óháð öðrum. Hins vegar er jafnframt í Nd. til meðferðar frv. um þróunarfélag eða heimild ríkisstj. til að taka þátt í hlutafélagi til nýsköpunar í atvinnulífi. Af þessum ástæðum er frv. flutt, þ. e. að talið var nauðsynlegt að byggðastarfsemin yrði enn þá markvissari en hún hefur verið og í öðru lagi á Byggðastofnun ekki heima með því fyrirtæki sem ég hef lauslega nefnt.

Verkefni Byggðastofnunar eru um margt lík verkefnum Byggðasjóðs. Gert er ráð fyrir því að Byggðastofnun verði kosin stjórn á Alþingi, það þykir eðlilegast. Alþm. eru einna kunnugastir byggðavanda vítt og breitt um landið og í slíkum tilfellum sýnist mér æskilegt að þeir komi að slíkum málum í framkvæmd en ekki aðeins sem löggjafar.

Byggðastofnun eru ættuð hlutverk sem talin eru upp í II. kafla laganna. Henni er ætlað að fylgjast með byggðaþróun og hafa áhrif á opinberar aðgerðir. Henni er m. ö. o. ætlað að hafa frumkvæði í byggðamálum þar sem virðist halta undan fæti og benda á það sem gera þarf til að koma í veg fyrir slíkt. Þá er Byggðastofnun ætlað að gera byggðaáætlanir og stjórn stofnunarinnar ætlað að fjalla um þær og staðfesta þær. Sömuleiðis er Byggðastofnun ætlað að starfa með þeim öðrum aðilum sem að slíkum málum vinna, m. a. sveitarstjórnum og landshlutasamtökum. Samkvæmt 9. gr. er stjórn stofnunarinnar heimilt að ákveða að stofnunin taki þátt í kostnaði við slíka áætlanagerð. Mér þykir ástæða til að minna sérstaklega á það því að landshlutasamtökin hafa talið að með þessu frv. væri horfið frá þeirri aðstoð sem Framkvæmdastofnun hefur veitt landshlutasamtökunum. Ég lít alls ekki svo á. Þvert á móti er með þessu ákvæði, sem ég hef nefnt, beinlínis vakið máls á því að Byggðastofnun geti tekið þátt í starfsemi landshlutasamtakanna. En það er hins vegar stjórn stofnunarinnar sem hlýtur að ákveða slíkt. Og Byggðastofnun er ætlað að fylgjast með framkvæmd áætlana sem gerðar eru um byggð og stuðla að því að þær standist og því sé náð sem að er stefnt. Byggðastofnun er heimilt að lána úr sínum sjóði til byggðaframkvæmda en einnig er henni heimilt að veita ábyrgðir og óafturkræf framlög skv. sérstökum umsóknum sem um það berast. Sérstaklega er gert ráð fyrir í því sambandi að um neyðarástand í atvinnu- og byggðamálum sé að ræða. Byggðastofnun er einnig heimilt að taka þátt í fjárfestingar- og þróunarfélögum og er með því stefnt að því að Byggðastofnun vinni að nýsköpun í atvinnulífinu um land allt og geti gert það, ef landshlutasamtök eða sveitarfélög kjósa að gera það, með t. d. þátttöku í fjárfestingar- eða þróunarfélögum sem reyndar eru sums staðar þegar komin á fót.

Tekjur Byggðastofnunar eru skv. 15. gr. eignir Byggðasjóðs skv. lögum frá 1976, framlag úr ríkissjóði eins og ákveðið er í fjárlögum hverju sinni og fjármagnstekjur. Skv. 16. gr. er Byggðastofnun heimilað innan ramma lánsfjárlaga að taka lán til starfsemi sinnar innanlands eða erlendis. Gert er ráð fyrir því að Byggðastofnun geti haft a. m. k. 0.5% þjóðarframleiðslu til ráðstöfunar, eða eins og nú er um 400 millj. kr. á ári hverju. Sýnist mér það vera umtalsvert fjármagn. Byggðasjóður lánaði á s. l. ári, ef ég man rétt, um 330 millj. kr.

Ég vil geta þess að gert er ráð fyrir að Byggðastofnun taki við hálfri húseign Framkvæmdasjóðs á Rauðarárstíg. Um það er samkomulag og mun verða frá því máli gengið í núverandi Framkvæmdastofnun. Reyndist því ekki þörf á að setja það í frv. Auk þess tekur Byggðastofnun við eignum Byggðasjóðs eins og ég gat um. Í skýrslu frá Framkvæmdasjóði sem liggur á borðum þingmanna kemur fram að þær eignir eru umtalsverðar og skipta nokkrum hundruðum milljóna króna.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég vil aðeins segja að lokum að byggðamálin eru að sjálfsögðu ein þau mikilvægari sem Alþingi fjallar um. Við viljum byggja þetta land vel og til þess þurfum við að byggja það nokkurn veginn eins og það er nú. Með því er ég þó alls ekki að segja að ekki megi verða breytingar á byggð. Breytingar hljóta að verða á byggð þegar breytingar verða á þeim kröfum sem fólkið gerir og við því er að sjálfsögðu ekkert að segja. Byggðastofnun e; ætlað að stuðla að því að allar slíkar breytingar verði jákvæðar, efli í raun og veru byggð þessa lands þótt byggðin breytist frá einum tíma til annars.

Ég held þess vegna að Byggðastofnun verði, eins og Byggðasjóður var, ein af mikilvægari stofnunum í ríkiskerfinu. Ég er líka þeirrar skoðunar að óhjákvæmilegt sé að til sé miðstöð byggðastarfsemi í landinu. sumir álíta réttara að fela hverjum landshluta að sjá um byggðastarfsemi fyrir sig. Það er góðra gjalda vert og ég er að mörgu leyti hlynntur því að landshlutasamtökin fái aukið ákvörðunarvald. Ég held hins vegar að samhjálp, sem felst í miðstöð byggðamála, sé óhjákvæmileg því að í mörgum tilfellum verður að flytja fjármagn frá einum landshluta til annars til þess að ná tilætluðum árangri þegar stórátak er nauðsynlegt.

Um þetta mál urðu miklar og ítarlegar umræður í Nd. og gerðar voru á því fáeinar breytingar sem ekki eru þó viðamiklar. Það er einlæg von mín að þessi hv. deild sjái sér fært að afgreiða þetta mál þótt skammur tími sé til stefnu svo að þessi stofnun geti hafið starfsemi sína eins og nú er gert ráð fyrir 1. október 1985.

Að þessu mæltu og að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.