14.06.1985
Efri deild: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6571 í B-deild Alþingistíðinda. (5925)

456. mál, Byggðastofnun

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa hér uppi langt mál, enda ekki siður okkar hér í Ed. að vera langorðir, jafnvel þó að þýðingarmikil mál séu á ferðinni sem ástæða væri til að fjalla ítarlega um. En á okkar borð er nú kominn einn þeirra þríbura svonefndu sem fæddust í vetur hjá stjórnarliðinu og baksað er nú við að koma til nokkurs vits og þroska hér í þinginu. En afturfótafæðing þessara frv. allra lofaði náttúrlega engu góðu.

Hér er í raun og veru um eitt af afkvæmum þeim að ræða sem urðu til hjá formönnum núverandi stjórnarflokka í sáttmálaleiknum svokallaða á sumrinu 1984, sem að meginhluta til átti að vera til að róa stuttbuxnadeild Sjálfstfl., sem hrópað hefur hæst um báknið burt og ekki hvað síst hefur beinst að Framkvæmdastofnun ríkisins sem því bergtrölli sem þyrfti að hverfa. En hafi þetta bergtröll átt að hverfa eða gufa upp, þá varð niðurstaðan sá þríhöfða þurs sem hér hefur verið nefndur áður í umr. og liggur nú fyrir hér til meðferðar og afgreiðslu, þ. e. einn hluti hans. Hinir þríburarnir munu sennilega sjá dagsins ljós hér hjá okkur uppi í Ed. síðar í dag ef svo fer sem horfir. Og að sjálfsögðu á báknið ekki að minnka. Í hillingum sjá menn fleiri forstjórastóla, kátari kommissara. En betra bákn skal það víst vera og einn þríburinn er meira að segja á frjálshyggjubrautinni, ef vel dafnar, þar sem ríkið á eins og venjulega að leggja fram undirstöðuna en einstaklingar og fyrirtæki eiga svo að hirða sinn hlut, eins og eitt af þessum frv. er glöggt dæmi um. Hitt er svo rétt að þessi margnefnda stuttbuxnadeild hefur fengið sína dúsu og tottar hann í velþóknun og það er trúlega það sem máli skiptir í þessu efni.

Hér væri hins vegar vissulega ástæða til langrar umfjöllunar um byggðamál, um þróun í atvinnulífi okkar, um þá möguleika sem enn eru ótaldir tengdir þeim greinum sem við höfum byggt á, auk þess nýja sem við eigum að sjálfsögðu að horfa til og hagnýta okkur sem allra best. Eftir tveggja ára valdaferil þessarar stjórnar væri hins vegar forvitnilegt að virða fyrir sér þó ekki væri nema það eina verkefni sem hvoru tveggja tengist hinni margnefndu stóriðju, sem oft hefur verið rætt um sem þann vaxtarbrodd sem ætti að treysta á, og reyndar byggðastefnu í sama tilfellinu, þ. e. kísilmálmverksmiðjuna á Reyðarfirði sem hafði verið undirbúin rækilega sem hvort tveggja í senn: innlent stóriðjuverkefni og byggðaverkefni um leið.

Enn eru þar settir upp loftkastalar, enn byggðar skýjaborgir, enn gefnar tálvonir. En hingað til hefur allt hrunið og eina örugga atriðið nú er óvissan. Og sú óvissa er orðin löng fyrir þá sem hafa beðið eftir því að eitthvað gerðist í þessu máli. Saga þessa máls um innlent stóriðjufyrirtæki segir meira en allt annað um raunveruleg átök til eflingar byggðar og atvinnutækifæra því að það verður stækkun álversins í Straumsvík ein sem blasir við, sá óskadraumur fær að rætast fljótt og vel hjá þessari hæstv. ríkisstj.

Þessi dapurlega saga kísilmálmverksmiðjunnar í kjölfar stórra yfirlýsinga og glæstra gylliloforða verður rakin síðar, en hún er talandi tákn um uppgjöf og aðgerðarleysi, lýsandi dæmi um vantrú á möguleikum okkar sjálfra til að takast á við verkefnin og leysa þau án þess að gerast taglhnýtingar erlends auðmagns. Byggðavandinn í dag í allri sinni ógn virðist ekki halda tiltakanlega vöku fyrir þeim sem málum stjórna. Frelsi fjármagnsins og allar áherslur því tengdar valda því að á meðan viðskipti og þjónusta hvers konar blómstra hér á suðvesturhorninu eru grunngreinar byggðanna sveltar enda hinn auðtekni bissnessgróði ekki þar til staðar.

Það er í raun og veru grátlegt að vera að fjalla hér um formbreytingu breytingarinnar vegna á meðan byggðaröskunin er í algleymingi og ekkert er gert til að spyrna þar við fótum: Ég dreg ekkert úr því að allt það mál er erfitt og yfirgripsmikið og á byggðavandanum eru engar skjótar patentlausnir. Hins vegar bendi ég á það að stýring fjármagnsins í þjóðfélaginu og efnahagslegar aðgerðir til þess að styrkja undirstöðuna skipta hér mestu. Sú stýring hefur nú um sinn verið „hart í bak“ fyrir höfuðatvinnuvegi okkar á meðan fjármagnið hefur flætt inn í óarðbærar greinar milliliða og gerviþjónustu ýmiss konar. Glöggur maður orðaði það svo fyrir skömmu að eðlilegur grundvöllur útgerðar og fiskvinnslu væri forsenda byggðar og forsenda aukinnar þjónustu um leið. Árin upp úr 1970 staðfesta þetta vel. En nú er önnur öld og önnur sjónarmið á oddinn sett. Vaxtafrelsið og fjármagnsfrelsið hafa sett sitt dauðamark á höfuðgreinar okkar til lands og sjávar. Þetta er ekki náttúrulögmál, ekki eitthvað sem hefur fallið af himnum ofan, heldur markviss stefna mótuð af stjórnvöldum. Um þessi mál er því fjallað á Alþingi í dag án minnsta hljómgrunns frá landsbyggðinni, án minnsta bergmáls frá þeim mörgu sem þar þrauka nú í óvissu og öryggisleysi um framtíð byggðarlaga sinna.

Líti menn til upphafs Framkvæmdastofnunar ríkisins og þeirra markmiða sem þar voru sett og framkvæmd rösklega fyrstu árin og beri hér saman er ófagur samanburðurinn fyrir hinn þríhöfða þurs aukins bákns, fleiri forstjóra, sem hér er á ferð. Þá var fjármagni beint til uppbyggingar undirstöðuatvinnugreina okkar með ríkulegum árangri, aukinni almennri velferð þó fyrst og síðast, samfara blómlegri byggð, betri þjónustu, fjölbreyttari tækifærum en þar höfðu áður verið um landsbyggð alla.

Það er augljóst og verður ekki hrakið að margt var vel unnið í þessari annars umdeildu stofnun sem því miður hefur í áranna rás breyst í björgunarmiðstöð í stað uppbyggingarstarfs og aðhlynningar í þeim byggðum sem mest þurfa á aðstoð að halda til sjálfsbjargar. Í Nd. Alþingis hafa þm. Alþb. vakið athygli á höfuðatriðum byggðavandans, á lýsandi tölum um þróun og flutninga fólks af landsbyggðinni, flutninga sem voru það stórfelldir á síðastliðnu ári að rétt þótti að sleppa þeim þætti úr skýrslu Framkvæmdastofnunar sem mestu skiptir og sýnir þetta gleggst. Í byggðanefnd þingflokkanna fengum við hins vegar ekki aðeins þessar tölur frá byggðadeild heldur ítarlega og glögga greinargerð, þar sem hættumerkin voru í hverri línu og ekki dregið af, þar sem voðinn var rækilega tíundaður. Ekki aðeins fyrir landsbyggðina er þetta mikil vá heldur og fyrir þjóðarheildina sem slíka. Slík röskun getur aldrei orðið til frambúðarblessunar fyrir þéttbýlissvæðið hér heldur. Hér þurfa og eiga hagsmunir að fara saman, alveg sér í lagi hins vinnandi fjölda hvar sem er á landinu. Þröng skipting milli landsbyggðar og þéttbýlis sem andstæðra fylkinga í baráttuham þjónar aðeins fjármagnseigendum og bröskurum sem kynda sundurlyndiseldana. Þegar landsbyggðarfólk heimtar sinn rétt, sín jafnréttismál, sína auknu þjónustu, sín atvinnutækifæri sem fjölbreyttust, þá er það fólk ekki í styrjöld við vinnandi fólk þéttbýlisins sem það veit að hefur einnig sín vandamál af ýmsum öðrum toga, býr við sömu launakjör m. a. í þeim greinum sem minnst eru metnar á mælivog frjálshyggjunnar. Þetta er skylt að hafa í huga. Í Nd. var einnig tíunduð þróunin í húsbyggingum á landsbyggðinni á síðasta ári t. d. þar sem kyrrstaða og auðn er víðast aðaleinkennið. En þær hrópandi tölur segja líka mikla sögu. Það er ástæðulaust nú við 1. umr. þessa máls að tíunda aftur þær tölur. En þær segja mikið. Og þau frv. sem hér er verið að hrófa upp hafa því miður ekkert upp á að bjóða sem breytt gæti þessum ömurleika. Svo einfalt er það mál.

Ég sagði í upphafi að ekki yrði gerð nein tilraun til þess hér í Ed. varðandi þetta mál frekar en önnur að tefja það hið minnsta. Það er sjálfsagt að þessir þríburar hljóti blessun þeirra sem þá fæddu af sér hér í þinglok, svo að í ljós komi hvað af leiðir, eða réttara sagt það aðgerðarleysi sem hlýtur að fylgja í kjölfarið. Því að hér er því miður ekki tekið á neinn veg á þeim brýna vanda sem blasir við. Hér er á ferð breyting breytinganna vegna og báknið er á sínum stað, þrykkt betur niður í þrískiptingu þess sem allt hefði getað verið á einum stað undir einum hatti. Vorhreingerning ríkisstj. hefur í þessu sem öðru orðið kattarþvottur einn. Á meðan sá þvottur fer fram hér í þingsölum ymur uppboðshamar við eyrum þeirra sem verðmætin skapa, við undirleik þeirra vaxtaverkja sem frjálshyggjan heimtar handa bröskurum, og byggðarlögin vítt um landsbyggð alla sitja á hakanum sem áður. Þar horfir hnípið fólk erfiðisins á eftir arði þess erfiðis í óseðjandi hít þeirra „gróðapunga“ sem hæstv. samgrh. nefndi svo. Stefnubreyting, viðhorfsbreyting er það eina sem dugar. Ettir henni má ekki of lengi bíða. Íslensk byggð og íslensk þjóðarheild má ekki við þeirri bið.

Ég sé að fram er komin á þskj. 1294 brtt. við frv. til 1. um Byggðastofnun. Ég styð þá till. að sjálfsögðu. Það er viðleitni, viðleitni í rétta átt, og sjálfsagt að veita henni hér brautargengi þó að það yrði þá kannske eini ljósgeislinn í afgreiðslu þessa ömurlega máls að öðru leyti.