14.06.1985
Efri deild: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6575 í B-deild Alþingistíðinda. (5927)

456. mál, Byggðastofnun

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Hér hefur verið mælt fyrir brtt. um að flytja þá stofnun, sem hér um ræðir, til Akureyrar. Ég fæ nú ekki séð að umræða um flutning Framkvæmdastofnunar þurfi að vera bundin við Akureyri. Þó að sá ágæti bær sé alls góðs maklegur — hversu gott og maklegt það er að senda þeim þessa stofnun, svo misjafns álits sem hún nýtur veit ég reyndar ekki — finnst mér að íhuga beri að auðvitað koma margir aðrir staðir úti á landsbyggðinni til greina. Hv. 5. þm. Norðurl. e. sló því hér fram, sjálfsagt meir í gamni en í alvöru, hvort ekki væri rétt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvar þessi stofnun ætti að vera. Ég gæti alveg fallist á að rétt væri að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort ekki ætti bara að leggja þessa stofnun niður eins og hún er. Ég held að það kæmi alveg til athugunar.

En einu sinni voru ungir menn í stórum flokki sem sögðu: Báknið burt! Og þetta heróp þeirra ungu mannanna bergmálaði á síðum Morgunblaðsins og var aðalslagorð Sjálfstfl. Nú eru þessir ungu menn ekki alveg eins ungir og þeir voru þá. En nú eru þeir hins vegar komnir í þær valdastöður að þeir ráða ferð flokksins og ráða málum hér á þingi meðan þessi flokkur er í stjórnaraðstöðu. En þá segja þessir ungu menn: Báknið kjurrt!

Ég skal ekki, virðulegi forseti, lengja þessa umr. Ég held við séum nú sammála um það í þessari hv. deild að vera ekkert að drepa málum á dreif og munum koma þessu til nefndar. En þetta frv. er auðvitað skoðað í samhengi við fleiri, við annan af þessum þríburum sem svo hafa verið kallaðir, þ. e. frv. til laga um Framkvæmdasjóð, en þessi frv. fela það eitt í sér í rauninni að Framkvæmdastofnun verði skipt í tvennt, tvær stjórnir, tveir forstjórar. Það er skemmst frá að segja að önnur skipulagsbreyting er nánast engin samkvæmt þessum frv. Ágallar þess kerfis sem við búum nú við eru því aðeins framlengdir og báknið á að fá að vaxa og aukast enn frá því sem er. Við Alþfl.-menn erum þeirrar skoðunar að byggðaþróunarmál og byggðaáætlanir séu best komin í höndum þeirra sem ábyrgð bera á framkvæmdinni og gerst þekkja til. Þess vegna er eðlilegt að færa þessi verkefni út í héruðin þar sem lýðræðislega kjörnar fylkisstjórnir, eða hvað menn vilja kalla slíkar stjórnsýslueiningar, hefðu með þessi mál að gera. Þetta frv. gerir ekki ráð fyrir neinni slíkri valddreifingu og það stefnir ekki til neinna framfara. Ef menn samþykkja það þá er það einungis afsökun fyrir því að takast ekki á við þau verkefni sem vinna verður og varða raunverulegar skipulagsbreytingar og valddreifingu. Þess vegna leggjum við Alþfl.-menn til að þetta frv. verði fellt.