14.06.1985
Efri deild: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6580 í B-deild Alþingistíðinda. (5929)

456. mál, Byggðastofnun

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég hef ekki ætlað mér að fjalla efnislega um þetta mál, hvorki hlutverk og skipulag né starfsemi Byggðastofnunar. En eins og fram hefur komið hefur mönnum orðið nokkuð tíðrætt um staðsetningu Byggðastofnunar, hvort eðlilegt er að hún sé staðsett hér í Reykjavík eða utan Reykjavíkur, og fram hafa komið tillögur í því efni.

Í hv. Nd. voru fluttar tvær brtt. um staðsetningu stofnunarinnar. Önnur var frá hv. þm. Halldóri Blöndal og Svavari Gestssyni. Síðan kom fram brtt. við þá brtt. frá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni. Brtt. hin fyrri varðaði staðsetningu stofnunarinnar á Akureyri og skyldi stjórn Byggðastofnunar heimilt að ákveða að heimili og varnarþing Byggðastofnunar skyldi verða þar. Hin brtt., við þessa brtt., fjallar um að stofnunin verði staðsett utan Akureyrar, þ. e. stjórn stofnunarinnar sé heimilt að koma hlutum svo fyrir.

Í þessari hv. deild hafa verið fluttar brtt. sem eru í svipuðum dúr. Fyrir annarri brtt. hefur þegar verið mælt. Hún er frá hv. þm. Birni Dagbjartssyni og Ragnari Arnalds og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Stjórn Byggðastofnunar er heimilt að ákveða að aðsetur stofnunarinnar skuli vera á Akureyri og skal stjórnin láta fara fram ítarlega athugun á því máli.“

Nú hlýtur sú spurning að vakna hvað liggi því til grundvallar að menn segja: Það er mjög hagfellt að staðsetja stofnunina á Akureyri. Ítarleg athugun hefur ekki enn þá farið fram á því hvar hentugast sé að staðsetja þessa stofnun. Þarna er mönnum því nokkuð þröngur stakkur skorinn. Og einmitt þess vegna teljum við, flm. brtt. 1296 að þetta þurfi að vera nokkuð valkvætt með tilliti til niðurstöðu hinnar ítarlegu athugunar á því hvar eðlilegast kunni að vera að staðsetja Byggðastofnun. Við leggjum því til að í stað orðanna „á Akureyri“ komi: utan Reykjavíkur. Við teljum þetta eðlilegri málsmeðferð á þessu stigi.

Oft og iðulega hefur verið fjallað um staðsetningu opinberra stofnana utan Reykjavíkur og hagræði fyrir landsbyggðina af slíkri staðsetningu. Hins vegar hafa menn iðulega bent á hversu örðugt getur verið í mörgum tilfellum að koma við eðlilegri þjónustu við alla landsmenn, ekki síst með tilliti til þess að leiðin liggur æði oft hingað til Reykjavíkur vegna þess einfaldlega að öll opinber þjónusta á æðstu stöðum er staðsett hér. En einhvern tíma þarf að brjóta þennan ís að mínum dómi og því ekki að hefja það brot með því að staðsetja Byggðastofnun utan Reykjavíkur?

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umr. en tel mig hafa mælt fyrir þeirri brtt. sem sá flytur sem hér stendur ásamt hv. þm. Valdimar Indriðasyni.