14.06.1985
Efri deild: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6583 í B-deild Alþingistíðinda. (5932)

456. mál, Byggðastofnun

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í 1. umr. um þetta mál hér í hv. deild en eftir að hafa hlýtt á útskýringar hv. 3. þm. Vesturl. á því af hverju þetta frv. væri raunverulega borið fram og af hverju væri verið að gera þessar breytingar á Framkvæmdastofnun og Byggðastofnun, sem sagt að nú þyrfti ný lög og stórkostlegar aðgerðir til þess að hefta þann flótta sem nú væri af landsbyggðinni sé ég ástæðu til að leggja orð í belg. Ég hélt að við ættum ekki von á þessari lýsingu frá stuðningsmönnum hv. ríkisstj. Ég átti ekki von á því að við fengjum hér upp þm. hv. ríkisstj. sem lýsti því að á síðustu tveimur árum hefði sú breyting átt sér stað. Hv. þm. nefndi það að á síðustu tveimur árum hefði orðið flótti frá landsbyggðinni til þéttbýlisstaðanna hér við sunnanverðan Faxaflóa. En af hverju skyldi sá flótti stafa? Vitaskuld af því, sem hv. þm. nefndi, að það hefur ekki átt sér stað nein uppbygging eða endurnýjun á þeim atvinnutækjum sem við höfum byggt okkar framleiðslu á á undanförnum árum. Ég held að það hefði ekki þurft neitt frv. í þeirri mynd sem þetta frv. er til að snúa þessum flótta við. Fyrst og fremst þarf að breyta rekstrargrundvelli undir þeim atvinnuvegum sem við búum við úti á landsbyggðinni til að snúa þessum flótta við.

En það er ekki verið að huga mikið að því. Ég hef ekki séð neitt frv. hér á hv. Alþingi til þess að breyta þeirri þróun sem þar á sér stað. Þróunin er á þann veg að bankainnstæður á landsbyggðinni þyrftu að vera tvöfaldar til þrefaldar, innlegg landsbyggðarfólks, aðeins til þess að halda í við verðlagsþróun. Íbúðarbyggingar á landsbyggðinni eru ekki nema brot af því sem þær ættu að vera miðað við þær íbúðarbyggingar sem eiga sér stað hér við Faxaflóa. Allt er á sömu bókina lært. Og þessi þróun breytist ekki á einn eða neinn máta þó að við samþykkjum þetta frv. og þessar tillögur ríkisstj. um breytingu á Byggðastofnun eða Framkvæmdasjóði verði samþykktar hér á hv. Alþingi.

Núv. ríkisstj. boðaði það um leið og hún tók við völdum hér fyrir rúmum tveimur árum að nú skyldi breyta rekstrargrundvelli sjávarútvegsins og snúið skyldi við til betri vegar frá því sem áður hefði verið í þessum málum. (Gripið fram í: Það hefur nú aldeilis gerst.) Það hefur sko aldeilis ekki gerst. Það hefur allt farið á öfugan veg, á þann veg sem hv. 3. þm. Vesturl. var að lýsa hér áðan. Það hefur orðið alger stöðvun í uppbyggingu sjávarútvegs og í uppbyggingu annarra þátta á landsbyggðinni.

Hv. þm. nefndi það að fyrir nokkrum árum hefðum við haldið uppi blómlegri atvinnu úti um landið og það hefði byggst á því að við hefðum verið með ný atvinnutæki, nýja togara. Eftir að áhrif þeirrar uppbyggingar rénuðu hefði þessi staða komið upp. Vitaskuld er þetta alveg rétt. En það hefur ekkert verið hugað að því að leita að öðrum leiðum né heldur að tryggja rekstrargrundvöll þeirra fyrirtækja sem voru byggð upp fyrir nokkrum árum. Þetta er allt á þann veg að eiginfjárstaða fyrirtækja í sjávarútvegi, jafnt sjálfsagt hér við Faxaflóann og úti um landið og þó áberandi meira úti um land, er minnkandi. Það er stöðugur hallarekstur á þessum fyrirtækjum. Það er stöðugur hallarekstur vegna þess að það er verið að millifæra í þjóðfélaginu frá undirstöðuatvinnuvegunum og yfir í eyðslugreinarnar.

Þessi staðreynd breytist ekkert með því frv. sem hér er til umræðu, ekki nokkurn skapaðan hlut. Frv. er á engan veg byggt upp á annan máta en þann að í því eru ágætar og frómar óskir en ekkert sem leggur raunverulega grundvöll að því að um breytingu verði að ræða á atvinnuþróun á landsbyggðinni, ekki nokkur skapaður hlutur. Það eru gefin viss fyrirheit um að Byggðastofnun skuli stuðla að stofnun nýrra fyrirtækja. Jú, jú, það er gott og blessað. En til hvers eigum við að stofna ný fyrirtæki ef rekstrargrundvöllur er enginn fyrir hendi? Það er tilgangslítið. Og þess vegna er tilgangslítið að samþykkja slíkt plagg sem þetta.

Í þeirri grein sem hv. 3. þm. Vesturl. nefndi að væri mjög góð og ég ætti nú kannske að lesa, 12. gr., eins og hún kemur frá hv. Nd. segir:

„Með tilliti til hlutverks Byggðastofnunar, sbr. 2. gr. þessara laga, er stjórn stofnunarinnar heimilt að ákveða að stofnunin taki þátt í fjárfestingar- eða þróunarfélögum. Þá skal stofnunin hafa samstarf við fjárfestingarsjóði og lánastofnanir, eftir því sem við á, um fyrirgreiðslu til verkefna sem samrýmast hlutverki hennar.“ Allt eru þetta góð fyrirheit en það er ekkert bundið um hvað skuli gera. Eins og ég sagði og skal endurtaka: þó svo að góð fyrirheit séu gefin um ákveðna þætti, um ákveðna uppbyggingu í þessum lögum þá gerist ekki neitt ef rekstrargrundvöllur frumatvinnuveganna verður ekki tryggður. Og það er sá þáttur sem ég held að við ættum að leggja meiri áherslu á og hæstv. ríkisstj. ætti að leggja meiri áherslu á heldur en að koma með einhverjar lagabreytingar um þær stofnanir sem þegar eru fyrir hendi, þær lagabreytingar sem breyta litlu frá því sem fyrir er. En ég vil aðeins undirstrika það að ég fagna því að stuðningsmenn ríkisstj. skuli á jafn afdráttarlausan hátt og hv. 3. þm. Vesturl. lýsa því yfir hvernig staðan er og benda honum á að því miður breytist óskaplega lítið í þeirri stöðu eins og hún er á landsbyggðinni hjá okkur þó við samþykkjum það frv. sem hér er til umræðu.