14.06.1985
Efri deild: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6585 í B-deild Alþingistíðinda. (5933)

456. mál, Byggðastofnun

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Til þess að hv. 3. þm. Vesturl. og sá sem hér stendur séu ekki að tala hvor fram hjá öðrum þá þakka ég fyrir ábendinguna um breytingarnar sem orðnar eru á þessu frv. og verð reyndar að fagna því að styrkjahlutverki þessarar stofnunar séu að einhverju leyti skorður settar. Aftur á móti er náttúrlega lánahlutverk hennar enn þá jafn galopið í 10. gr. eins og áður gat.

Þegar ég talaði um ábyrgðarsjóði talaði ég reyndar ekki um sveitarsjóði. Ég átti við sjóði sem hefðu framlög frá hinu opinbera, þ. e. frá ríki. Með svipuðum hætti og ríkið tekur ábyrgð á lántökum aðila erlendis gætu þeir alveg eins tekið ábyrgð á lántökum aðila hér innanlands en þá kannske ekki endilega með þeim hætti að ábyrgjast þær lántökur sífellt að fullu.

Í sambandi við þetta frv. og þá fullyrðingu mína að það eigi litlu eftir að breyta vil ég benda á eitt atriði til að byrja með. Byggðasjóður, hinn upprunalegi, átti að vinna skv. áætlun, það var gert ráð fyrir því. Hann hefur aldrei gert það. Það hefur aldrei verið unnin til loka nokkur áætlun sem Byggðasjóður hefur unnið eftir. En það var þó hinn upprunalegi tilgangur og hið upprunalega markmið. Það var einu sinni gerð áætlun sem unnið var eftir. Það var áður en Byggðasjóður varð til. Það var Vestfjarðaáætlun. En árangurinn af því starfi var að nokkru leyti trúlega upphafið - eða síðasta stigið í þróuninni eða í afskiptum ríkisvalds af jafnvægi í byggð landsins áður en Byggðastofnun og Framkvæmdastofnun urðu til.

Með tilliti til þessa frv. vildi ég bara benda hv. 3. þm. Vesturl. á að hugleiða það hvort önnur ákvörðun, einfalt atriði í sjálfu sér en þó þungvægt, mundi ekki verða miklu, miklu afdrifaríkari fyrir jafnvægi í byggð landsins. Að í stað þess að samþykkja frv. til l. um Byggðastofnun yrði samþykkt frv. til laga um frjálsa gjaldeyrisverslun í landinu þannig að þeir sem afla gjaldeyrisins gætu selt hann hæstbjóðanda. Og ég tala nú ekki um það, sem mér hefur oft dottið í hug þegar ég hef ferðast um byggðir þessa lands, að líklega væri langeinfaldast að flytja frv. til l. um að heimila erlendum bönkum að reka útibú í helstu sjávarplássum landsins. Þannig væri búið að koma sjávarútveginum undan afskiptum stjórnmálamanna á þessu landi og sérstaklega valdhafa. Ég held að slíkar aðgerðir hefðu miklu, miklu meira að segja fyrir afkomu fólks í landinu, þær hefðu miklu, miklu meira að segja hvað viðkemur jafnvægi í byggð landsins heldur en nokkurn tíma þetta frv. til l. um Byggðastofnun.