14.06.1985
Efri deild: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6586 í B-deild Alþingistíðinda. (5934)

456. mál, Byggðastofnun

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Það virtist koma hv. 4. þm. Vesturl. nokkuð á óvart að ég skyldi viðurkenna að það væru fólksflutningar frá dreifbýlinu hingað á suðvesturhornið. Hann hefur aldrei heyrt mig bera á móti því að svo hafi verið undanfarin ár, hvort það eru tvö, þrjú eða hvað það er, við skulum ekki deila um það. Ég tel alveg ástæðulaust að leyna slíku þó það sé í ræðustól á hv. Alþingi. Ég sé ekki hverju það ætti að þjóna. Ég hélt að við værum sammála um það að snúast til varnar gegn því að þessi flótti héldi áfram utan af landsbyggðinni. En hver er ástæðan? Það vitum við báðir mætavel og ég skal ekki fara að rekja það langt aftur. Við þekkjum ósköp vel hvernig komið er fyrir íslenskum sjávarútvegi. Og það var ekki að ske á síðustu tveim árum, því miður. Þó að mikil aflatakmörkun hafi átt sér stað er þar um að ræða samansafn margra ára vegna vitlausrar gengisskráningar, segi ég, einkum á árunum 1981 og 1982. Þegar hér voru bestu aflaárin og markaðir hvað bestir gleymdi sjávarútvegurinn sér í því og þá var allt flutt hér á þéttbýlissvæðin. Sú uppbygging sem hér hefur farið fram er að stærstum hluta til orðin fyrir þann gjaldeyri sem þá var myndaður og honum hefur ekki verið skilað aftur. Ég vona að við getum verið sammála um þetta og ég ligg ekki á þessum skoðunum mínum.

Þess vegna vil ég styðja þetta frv. um Byggðastofnun sem ég hef trú á að geti, ef rétt er á málum haldið, maður getur ekki sagt meira á þessu stigi málsins, orðið hvati til þess að renna nýjum stoðum undir atvinnulíf í hinum dreifðu byggðum. Og það á að vera hennar verkefni, ég veit að við hv. þm. erum sammála um það, en ég kann ekki við að fá slíkar kveðjur hér að ég sé eitthvað að brjóta af mér með því að viðurkenna að svona sé málum komið. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess.

Hvað varðar frjálsan gjaldeyri, sem hv. 8. þm. Reykv. gat um áðan, er það vissulega umhugsunarefni. Ég held að það gæti hrikt nokkuð víða í stoðum ef íslenskur sjávarútvegur úti á landsbyggðinni þakkaði fyrir sig og tæki sinn gjaldeyri og léti Reykjavík hringja í sig á föstudögum og spyrja: Hvað kostar hann í dag? Þetta væri kannske athugandi. Ég er þó ekki tilbúinn að samþykkja þá ráðstöfun hér, það þyrfti að breyta ýmsu í stjórnkerfinu áður. En þetta er auðvitað ein leiðin til þess að gera slíka hluti. Og þá mundi einhverjum bregða við einhvers staðar.