14.06.1985
Neðri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6618 í B-deild Alþingistíðinda. (5947)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég vildi áður en þessari umr. lýkur leggja nokkur orð í belg varðandi þetta frv. til laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Það er rétt að byrja á að taka það fram að þau atriði eru allmörg í frv. sem ég tel að horfi til bóta og hægt væri að samþykkja án frekari tafa, en engu að síður sýnist mér að frv. hafi einnig að geyma býsna mörg atriði sem ástæða sé til að skoða betur og ekki horfi til heilla að samþykkt verði óbreytt. Ég held að menn ættu að hugsa sig a. m. k. tvisvar um áður en gengið yrði af hálfu þingsins til afgreiðslu á þessu frv. óbreyttu.

Ég þarf ekki að eyða tíma í það hér að minna á mjög alvarlegar athugasemdir fjölmargra aðila utan Alþingis við frv. og þá ekki síst Stéttarsambands bænda og búnaðarfélaga og búnaðarsamtaka vítt um landið. Mér sýnist að séu bornar saman óskir bændasamtakanna um breytingar á frv. og þær brtt. sem hv. þm. Stefán Valgeirsson talaði hér fyrir vanti býsna mikið upp á að tekið hafi verið það sem ég vil kalla eðlilegt tillit til ábendinga og óska bændasamtakanna.

Það er nú einu sinni svo að óhætt mun að fullyrða að engin atvinnustétt í landinu hafi orðið fyrir þyngri búsifjum af völdum þeirrar efnahagsstefnu, sem hér hefur ríkt síðustu tvö ár, en einmitt bændur. Víða um land má ákaflega litlu muna að menn gefist upp í sveitum landsins og byggðir leggist í auðn af þeim ástæðum. Það er ekki ýkjalangt síðan ég las það í Morgunblaðinu, sem ýmsir taka nú kannske meira mark á hversdagslega en ég en oft hefur þó nokkuð til síns máls, að skuldir bænda hafi á síðasta ári hækkað að raungildi um hvorki meira né minna en 48% á einu ári. Ég hef þetta reyndar hér fyrir framan mig, herra forseti, úr Morgunblaðinu 17. apríl 1985. Mér brá svolítið við þegar ég sá þessa tölu og þess vegna er ég með þetta blað á þessum stað. Það segir á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Í yfirliti sem Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur tekið saman um skuldir bænda við sjóði landbúnaðarins og vitnað er til hér í upphafi kemur fram að heildarskuldir bænda við þessa sjóði eru 1.6 milljarðar kr. og hafa þær hækkað að raungildi um 48% á árinu 1984.“

Þetta er óhugnanleg tala. Nú gætu kannske einhverjir sagt sem svo að hér væri ekki mikið alvörumál á ferð ef eignir bænda hefðu verið að aukast að sama skapi. Engu að síður hefði það verið nokkurt alvörumál líka vegna þess að öll vitum við að markaðurinn tekur ekki við þeirri framleiðslu sem vænta mætti ef fastafjármunir í landbúnaði hefðu aukist um 48% á einu ári þannig að það hefði út af fyrir sig ekki verið gæfulegt. En ég hygg að ekki þurfi að draga í efa að á móti þessari miklu skuldasöfnun hafi komið mjög lítil eignamyndun því framkvæmdir hafa ekki verið ýkjamiklar í sveitum á árinu 1984 og ekki neitt í námunda við það að þeir fjármunir sem þar eru bundnir hafi aukist að raungildi um heil 48%. Þessi tala segir okkur ákaflega mikla sögu.

Í því frv. sem hér er verið að ræða er mörgum efnisatriðum til að dreifa. Eitt meginatriðið er að draga verulega úr útflutningsbótum á fárra ára bili. Ég held að út af fyrir sig hefði það ekki þurft að vera með öllu fráleitt að semja með þeim hætti um þessi mál að eitthvað drægi úr útflutningsbótum á móti því að bændum væri tryggt uppgjör fyrir sínar afurðir, sauðfjárafurðir, litlu eftir að þær kæmu til innleggs í sláturhúsunum. Það er verið að tala nokkuð um þau efni í frv., en ég hef ekki enn séð að þar sé í rauninni um neinar tryggingar að ræða. Það er algerlega skýrt að útflutningsbæturnar eiga að falla úr þeirri ábyrgð upp á allt að 10%, sem verið hefur um langt skeið, niður í 4% á örfáum árum, um meira en helming, en hitt virðist vera mjög óljóst hvort bændur geti treyst því að þeir fái á móti það uppgjör sem verið er að tala um. Það liggur fyrir að vinnslustöðvarnar treysta sér ekki og telja sig ugglaust með réttu ekki geta greitt þetta fé með þessum hætti. Það kemur fram í nál. minni hl. landbn. að bankastjórar þeirra banka sem þar koma helst til greina hafa svarað á fundi nefndarinnar að af þeirra hálfu væri ekki á neitt að treysta í þessum efnum. Ég heyrði að hv. 3. þm. Norðurl. e. hafði á orði í sinni ræðu áðan að hann vildi vænta yfirlýsingar frá hæstv. viðskrh. um þessi mál. Máske hefur hún komið fram meðan ég brá mér frá, en ég á þó varla von á að svo hafi verið. Það verður fróðlegt að heyra hvað hann segir um málið. Ég vildi gjarnan, ef hæstv. viðskrh. á eftir að koma hér í ræðustól, inna hann eftir því í fyrsta lagi hvað þarna er um mikla fjármuni að ræða. Ég er þó ekki að biðja um einhverja alveg nákvæma tölu, en lágmark er að menn hafi a. m. k. í grófum dráttum hvaða upphæðir þetta séu. Og ef ætlunin er að standa við það að greiða þetta út með þeim hætti sem frv. gerir reyndar ráð fyrir vil ég inna eftir því hvaðan þessir peningar eiga að koma. Hvernig á að afla þeirra? Ef vinnslustöðvarnar geta ekki greitt þetta, ef bankarnir geta ekki staðið undir þessu, er þá meiningin að það verði ríkissjóður sem standi undir þessum greiðslum? Þetta væri allt mjög fróðlegt að heyra um frá hæstv. viðskrh. Ef meiningin er að ríkissjóður beri verulegan hluta af þeim kostnaði sem þarna er um að ræða sé ég ekki annað en það sé verið að færa peninga úr einum vasanum yfir í annan, hét útflutningsbætur í gær og eitthvað annað á morgun.

Ég vil endurtaka það að ég tel að alger frumforsenda fyrir því að hugsanlegt sé að styðja frv. sem þetta sé að þarna sé um fullgilda tryggingu að ræða og tek fram að reyndar dygði það eitt ekki til af minni hálfu. Það þyrfti fleira að koma til. Það munu vera nokkur ár síðan

Alþingi samþykkti þáltill. um að vinnslustöðvarnar skyldu standa skil á greiðslum til bænda fyrir sauðfjárafurðir án nokkurs verulegs dráttar. Þessi þáltill., sem fól í sér viljayfirlýsingu frá Alþingi, hefur þó ekki komið til framkvæmda. Ég vil taka það fram að ég hafði ekki trú á því á sínum tíma að þessi till., sem flutt var af hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni, kæmi í raun að miklum notum í þessum efnum vegna þess að þar var ekki bent á neinar leiðir til að tryggja fjármagn í þessu skyni, enda hefur sú orðið reyndin á að till. hefur ekki haft þau áhrif sem henni var ætlað þótt skýr viljayfirlýsing stæði þar að baki frá Alþingi. Við skulum vissulega vona að yfirlýsing frá hæstv. ráðh., ef hún á eftir að koma hér fram, hafi meira gildi, en á þessu stigi mála eru það vonir einar sem menn geta gert sér um það, en tryggingar eru engar.

Það er eitt sem ég held að væri ósköp hollt fyrir hv. þdm. að hugleiða þegar þessi mál eru rædd. Það er talað mjög oft og af mörgum um nauðsyn þess að draga saman framleiðslu í landbúnaðinum. Allmargir virðast líta á það sem eitt helsta þjóðfélagsmein okkar að það skuli vera framleitt hér jafnmikið af þessum ágætu matvælum. En menn gleyma því oft og tíðum að hér er búið að gera mjög stórt átak í þessum efnum, átak sem bændur hafa gengist fyrir sjálfir að langmestu leyti, og margt í þeim efnum verið til fyrirmyndar. Auðvitað þýðir ekki að framleiða endalaust, auka framleiðsluna stöðugt, ef ekki er hægt að selja vöruna þannig að hún skili einhverju til baka af kostnaðinum sem í það fór, það skal ég gjarnan taka undir með mönnum. Í þeim efnum verður að vera ákveðin skynsamleg stjórnun. Það eru ýmsir þættir í frv. sem ég tel jákvæða að því leyti. En þarna er mikill vandi á höndum. Við skulum hafa í huga að frá 1978–1983 fækkaði ásettu sauðfé um hvorki meira né minna en 20%. Það er ekkert lítið. En þetta virðist ekki ætla að duga. Það er beðið um meira og meira. Af hverju? M. a. vegna þess að innanlandsneyslan hefur fallið býsna alvarlega, bæði á sauðfjárafurðum og mjólkurafurðum. Ég óttast mjög að ef svo fer fram sem horfir, að landbúnaðarafurðirnar séu látnar hækka með því m. a. að afnema niðurgreiðslur nær alveg og látnar hækka um meira en flestar aðrar almennar vörutegundir, eigi þessi samdráttur enn eftir að aukast. Og svo eru þau áhrif sem sá mikli áróður hefur sem hér er rekinn af fjölmiðlum ýmsum og áhrifaaðilum og gengur í raun og veru út á það að við eigum að hverfa frá sem allra flestu af því sem hér hefur verið í landinu með nokkuð öðrum hætti en gerist einhvers staðar annars staðar og þurrka slík sérkenni öll sem mest út. Við höfum að sjálfsögðu öldum saman haft landbúnaðarafurðir sem okkar meginfæðu, en það er ósköp hætt við því, eins og þróunin er á ýmsan veg í okkar landi, að sumum hverjum og kannske vaxandi hópi finnist betur við hæfi nú og í framtíðinni að leggja sér eitthvað annað til munns. Það hefur líka sín áhrif.

Sannleikurinn er sá að þegar maður lítur á upplýsingar eins og þær sem ég hef hér fyrir framan mig um 20% fækkun sauðfjár á aðeins fimm árum og svo hins vegar upplýsingar um að á síðasta ári, 1984, aðeins einu ári, hafi sala á kindakjöti innanlands dregist saman um 10%, þá er myndin ekki björt. Þá er ekki víst að það dugi, ef svo heldur áfram, að skera niður sauðfjárstofninn um kannske önnur 20%. Það getur orðið of margt fé samt fyrir markaðinn og því er það að gegn þessari þróun þurfa menn að snúast. Þessar staðreyndir þurfa stjórnvöld að hafa í huga þegar þau ákveða niðurgreiðslustigið, svo að maður taki það eitt, því það er ekki nokkur vafi á því, ekki síst þegar að þrengir á mörgum alþýðuheimilum í landinu eins og nú hefur verið, að verðlagið á landbúnaðarvörum hefur mikil áhrif á það hve mikið er keypt af þeim. Í þeim efnum hefur ríkisstj. farið þannig að að það er ekki aðeins að verið sé að skera niður útflutningsbæturnar, heldur eru niðurgreiðslurnar minni en þær hafa nokkru sinni áður verið. Í þeim efnum komu fram hér á Alþingi skýrar upplýsingar fyrir 1–2 mánuðum í skriflegu svari landbrh. við fsp. frá hv. 5. þm. Austurl. Svarið er dags. 23. apríl 1985 og með leyfi forseta vil ég minna á örfá atriði sem þar koma fram í sambandi við niðurgreiðslurnar.

Ef litið er á dálkinn yfir kindakjöt í 1. flokki kemur t. d. fram að á árinu 1982, fyrir þremur árum, námu niðurgreiðslurnar 40–60%, nokkuð breytilegt yfir árið, af verðinu. Núna er þetta hlutfall komið niður í 10.88%, þann 1. mars s. l. Sömu sögu er að segja um mjólk. Þar eru niðurgreiðslurnar komnar niður í 9.09%, en voru 40–60% á árinu 1982. Í þessu skriflega svari kemur einnig fram að ef niðurgreiðslustigið væri hið sama og það var 1982 væri verðið á einu kg af 1. fl. kindakjöti 135 kr. 30 aurar, en það hefur verið þegar svarið var gefið 177 kr. Þarna munar þá milli 30 og 40% í verðinu til neytenda.

Ég held að ef menn hefðu í alvöru ætlað sér að vinna bug á því vandamáli sem stafað hefur af framleiðslu þeirra landbúnaðarvara sem erfiðlega hefur gengið að selja og gera það að einhverjum hluta með því að rýra kosti framleiðendanna, bændanna, þá hefði það átt að vera lágmarkskrafa að það væru a. m. k. jafnframt gerðar tilraunir til að reyna að ýta undir neysluna innanlands. En það vottar ekki fyrir neinu slíku í þessu frv.

Ég get ekki látið hjá líða að minna á fáeinar staðreyndir sem fram koma í býsna athyglisverðu nál. frá sjö manna nefnd sem hæstv. landbrh. skipaði vorið 1984 og skilaði áliti í september s. l. og var nefndinni ætlað að benda á ráð til að bæta skipulag á framleiðslu landbúnaðarafurða. Það má segja að þetta nál. sé að nokkru undanfari þess frv. sem hér er til umræðu þó að ýmislegt hafi við frumvarpsgerðina farið á nokkurn annan veg en nefndin gerði ráð fyrir, en mikið af ábendingum sem í nál. er að finna kemur einnig fram í frv. Það eru ýmsar upplýsingar sem þetta nál. hefur að geyma. Menn tala stundum, bæði hér á hinu háa Alþingi og einnig vítt og breitt út um þjóðfélagið, eins og við Íslendingar höfum á síðari árum skorið okkur alveg úr í hópi þjóðanna hvað varðar stuðning við landbúnaðinn, við höfum verið í einhverjum alveg sérflokki með útflutningsuppbætur, með styrki til landbúnaðarins, niðurgreiðslur o. s. frv. Það hefur sjálfsagt ekki verið mjög mikið verk að kynna sér þessi mál, hvernig þau standa í nálægum löndum. Það hefur sú nefnd, sem ég minntist hér á áðan, gert góðu heilli og hefur um það ýmislegt ákaflega fróðlegt að segja. Nú vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, fara stuttlega yfir þennan kafla í nefndaráliti þessarar sjö manna nefndar sem starfaði skipuð af hæstv.. landbrh. á síðasta ári. Þar segir:

„Í vestrænum löndum ríkir það grundvallarsjónarmið að nýta framleiðslugetu landsins fyrir heimamarkað og fullnægja innlendri búvöruþörf. Til þess að torvelda samkeppni við framleiðslu heimalands er beitt víðtækum stuðningsaðgerðum, framlögum og viðskiptahöftum. Árin 1977–1981 var stuðningur Bandaríkja Norður-Ameríku úr ríkissjóði sem svarar 60 þús. kr. á hvert ársverk í landbúnaði. Árið 1983 var þessi stuðningur 194 þús. kr. á ársverk.“ — 194 þús. á ársverk. endurtek ég, og það eru Bandaríkin. Ég held áfram: „Í löndum Efnahagsbandalagsins voru árið 1982 greiddar úr sameiginlegum sjóðum 148 þús. kr. á hvert ársverk í aðildarlöndunum. Þar að auki komu framlög af fjárlögum viðkomandi lands“ — og hér er vísað niður að fyrir þessu séu norskar heimildir. „Hérlendis má áætla að framlög úr ríkissjóði til landbúnaðar hafi verið um 60 þús. kr. á ársverk árið 1983. Er þá reiknað með að ársverk í landbúnaði hafi verið um 6300 og talin eru framlög skv. jarðræktar- og búfjárræktarlögum, framlög til afleysinga- og forfallaþjónustu, til Stofnlánadeildar svo og útflutningsuppbætur. Öll Norðurlöndin stefna að því að vera a. m. k. sjálfbjarga um helstu búvörur. Varðandi skipulag landbúnaðarins er þar sóst eftir því að búvöruframleiðslan dreifist á margar en fremur smáar framleiðslueiningar. Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi styður ríkisvaldið sérstaklega við landbúnað í hinum afskekktari héruðum í því skyni að hamla gegn óeðlilegri byggðaröskun.“

Ég hygg að okkar hæstv. ráðherrar og aðrir þeir sem mesta ábyrgð bera í þessum efnum hefðu gott af því að taka nokkurt mið af því sem fram kemur í þeim upplýsingum sem ég var hér að minna á og allir hafa aðgang að. Ég sé ekki að í þessu frv. sé á nokkurn hátt verið að stuðla að því að tryggja sérstaklega að landbúnaður geti haldið áfram í afskekktari héruðum svo að dæmi sé tekið, eins og hér er upplýst að reynt sé á öðrum Norðurlöndum. Þarna kemur fram með skýrum hætti að á sama tíma og hér hafa gengið til landbúnaðarins af opinberu fé sem svarar 60 þús. kr. á ársverk fyrir tveimur árum að útflutningsbótunum meðtöldum, þá hefur þrefalt hærri upphæð á ársverk verið greidd til landbúnaðar í Bandaríkjunum og tvö til þrefalt hærri upphæð á ársverk verið greidd til landbúnaðarins í löndum Efnahagsbandalagsins.

Það er rétt að taka það fram að auðvitað skiptir það miklu máli hvernig þessum fjármunum er varið hjá okkur. Það er ekki mín kenning að það sé sjálfsagt mál að moka fjármunum í þessa atvinnugrein til jafns við það sem gerist á meginlandi Evrópu eða í Bandaríkjunum án þess að velta því fyrir sér hvað um peningana verði. Það vil ég taka alveg skýrt fram. Auðvitað er ekki nema sjálfsagt mál að stjórnvöld reyni að hafa þar nokkur áhrif á, m. a. í þá veru að styðja við bakið á nýjum búgreinum sem að einhverju leyti gætu komið í staðinn fyrir hefðbundna landbúnaðarframleiðslu. En mér sýnist hins vegar að frv. sem við erum hér að fjalla um nægi engan veginn í þessum efnum.

Það er nú svo, herra forseti, að það er býsna margt sem hægt væri að fjalla hér um þó að ég tíni ekki til nema fátt eitt af því. Hér stóð fundur í þd. til kl. 2 eða 3 í nótt og mun ekki vera meiningin að hafa kvöldfund nú og ég vil í sjálfu sér ekki tefja fyrir því að á það fái að reyna hvaða stuðning þetta frv. hefur. Mér er hins vegar ekki fyllilega ljóst hvers vegna menn geta ekki fallist á að geyma þau atriði þessa frv. sem umdeildust eru til næsta þings, eins og farið hefur verið fram á af ýmsum aðilum, bændasamtökum og öðrum utan Alþingis. Það er í rauninni alls ekki boðlegt, þegar um er að ræða mál sem snertir hag fjölda manna svo mjög sem þetta frv. hlýtur að gera, að frá því sé gengið hér í skyndingu án þess að menn hafi haft tækifæri til að ræða það ítarlega í sinn hóp og skoða hvert atriði fyrir sig og koma með sínar ábendingar. Auðvitað er það ekki nema sjálfsagt og eðlilegt að meiri hluti Alþingis taki lokaákvörðun um hvernig málum skuli hagað. Því verður að sjálfsögðu að hlíta og skal ekki kvartað yfir því. En hitt ætti líka að vera réttur manna, hvaða atvinnustétt sem í hlut á, að þegar ganga á frá löggjöf sem í þetta miklum mæli varðar hag hvers einasta manns í viðkomandi atvinnustétt gefist tóm í fáeinar vikur fyrir menn til að ræða um þau efni í sínum samtökum. Ég verð að lýsa furðu minni á því að hæstv. landbrh., sem ég man ekki betur en hafi lengi verið í stjórn og líklega varaformaður Stéttarsambands bænda, skuli ekki sýna bændasamtökunum meiri virðingu en þetta. Og skal ég þá láta mínu máli lokið, herra forseti, að sinni.