14.06.1985
Neðri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6626 í B-deild Alþingistíðinda. (5950)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Í framsöguræðu hv. 3. þm. Norðurl. e., formanns landbn., hér í dag vék hann að þeirri samþykkt sem ríkisstj. gerði varðandi fullar greiðslur til bænda fyrir framleiðslu þeirra. Ég get tekið undir það sem hæstv. forsrh. hefur sagt um þetta og vil undirstrika að sú nefnd sem skipuð var 2. apríl til að gera tillögur í þessum efnum fékk einmitt það vegarnesti að taka tillit til þess frv. sem þá var í samningu og hér er nú til umr. Ég vek athygli á því að þau atriði sem sérstaklega var bent á í þessum efnum voru endurskoðun á reglum um veitingu afurðalána, breyting á tímasetningu á niðurgreiðslum úr ríkissjóði og svo reglum um lágmarksfjármögnun birgða af eigin fé vinnslustöðva. Ég trúi ekki að það sé vafi í huga nokkurs, sem um þetta fjallar eða um þetta vill ræða, að hér sé ekki alveg skýrt hvað við sé átt.

Þegar hv. 10. landsk. þm. spurði áðan hversu mikið fjármagn væri um að ræða og með hvaða hætti menn hygðust útvega það held ég að menn geri sér kannske ekki fullljósa grein fyrir því hver er staða þessara mála um hver áramót og hvað þá vantar upp á til þess að fullar greiðslur séu komnar til framleiðenda og ekki heldur hvaða þýðingu það hefur ef niðurgreiðslur sem eru á síðasta stigi eru færðar til og fluttar fram og framleiðendum greitt fyrr en við sölu þessara afurða. Þegar við getum virt fyrir okkur að bændur hafa fengið um hver áramót milli 80 og 85% af verðmæti sinnar framleiðslu og niðurgreiðslutilfærslan á sér stað er hér ekki um að ræða ýkjaháar upphæðir sem til þyrftu að koma til að ná þessu markmiði. 12 þús. tonna framleiðsla á kjöti er að verðmæti 1.5 milljarðar eða þar um bil og 85% af því koma til greiðslu. Þetta geta menn reiknað út, en nákvæmar tölur varðandi þessi mál hef ég ekki, enda geri ég ráð fyrir að áður en mjög langt um líður liggi fyrir tillaga þeirrar nefndar sem ég skipaði skv. samþykki ríkisstj. sem var í samræmi við það samkomulag sem stjórnarflokkarnir gerðu sín í milli í september á síðasta ári.