14.06.1985
Neðri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6629 í B-deild Alþingistíðinda. (5953)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Ég held að ekki sé rétt að ljúka þessari umr. um þetta frv. án þess að láta það koma öllu skýrar fram en gerst hefur í dag að þetta frv. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum er ekki einungis hagsmunamál landbúnaðarins og bænda landsins né varðar það þá eina, það er raunar ekki síður hagsmunamál neytenda og mál sem varðar þá í verulega miklum mæli.

Það hefur verið á það bent að við erum að ræða hér samkomulagsfrv. sem séð hefur dagsins ljós eftir mikla og langa samningafundi. Því er ekki að neita að það ber þess einnig merki að hér er um samkomulag að ræða þó svo að stjórnarflokkarnir standi að baki frv. og hafi áður gert við það ýmsar athugasemdir sem sumar hafa verið teknar til greina og aðrar ekki.

Það er e. t. v. stærsti ljóðurinn á ráði þessa frv. frá sjónarhóli neytenda að ekki hefur verið stigið til fulls það skref að afnema útflutningsuppbæxur á landbúnaðarvörum. Skv. frv. er gert ráð fyrir að þær verði enn við lýði og þær verði lægstar 4% af heildarverðmæti búvöruframleiðslunnar. Það hefðu margir búist við því að hér yrði gengið skrefi lengra í að hætta að greiða niður íslenska matvöru ofan í útlendinga, eins og það hefur stundum verið orðað. Útflutningsuppbæturnar á síðasta ári námu 430 millj. kr. Það fé er vitanlega tekið úr vösum neytenda, úr vösum skattborgara þessa lands til að jafna þarna metin.

Ég vil einnig benda á þá staðreynd vegna ummæla sem féllu í umr. í dag um niðurgreiðslur að þær eru vitanlega af öðrum toga spunnar eins og allir vita. Þær námu á síðasta ári 950 millj. kr. En það er fé sem einnig kemur úr vösum skattborgara þessa lands og er mikil upphæð.

Samtals eru þessir tveir liðir að því er landbúnaðinn varðar komnir upp í tæplega 1.5 milljarða. Það er á þessari stundu, þegar við erum að afgreiða þetta frv. við 2. umr., nokkurt umhugsunarefni.

Í því sambandi má einnig minnast á þá staðreynd að á síðasta ári voru einnig veitt framlög úr ríkissjóði til jarðræktar sem námu um það bil 120 millj. kr.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna greinar sem birtist í Tímanum í gær og er eftir Guðmund Stefánsson landbúnaðarhagfræðing bændasamtakanna þar sem hann ræðir á raunsæjan hátt vandamál landbúnaðarins. Hann bendir á að landbúnaðurinn á Íslandi hefur glatað, eins og hann orðar það, tíma og tækifærum á liðnum árum til að aðlaga sig greinilegum og óhjákvæmilegum samdrætti í hefðbundinni landbúnaðarframleiðslu. Hann bendir á að sennilegt sé að innan nokkurra ára verði ekki nema 2000–2500 bændur hér í landi að hans mati. Það er allt upp undir helmings fækkun. Það er sú þróun sem hann telur að eigi eftir að verða á þessu sviði. Hún er að sumu leyti fjarri því að vera ánægjuefni. Markmiðið ætti að vera það sem fram kemur í inngangi þessa frv. Hér er hann að tala um það sem hann telur staðreyndir í þessari atvinnugrein, en á sama tíma er engu að síður verulegu fé á fjárlögum varið til nýrrar jarðræktar og til aukningar m. a. í hefðbundnum búskap.

Ég ætla ekki að fjölyrða sérstaklega við lok þessarar umr. um önnur atriði frv., en vil þó nefna að einnig veldur það nokkrum vonbrigðum hvernig málum er hagað varðandi innflutning. Enn eru hömlur á innflutningi á grænmeti og garðávöxtum þó að augljóst sé að vitanlega verður að veita íslenskri framleiðslu þá vernd sem nauðsynlegt er meðan hún er á boðstólum.

Það hefur einnig verið á það minnst í umr. að það hefur skort á samvinnu og skilning milli bændastéttar þessa lands og neytenda í kaupstöðum og öðru þéttbýli.

Það er hverju orði sannara. Það er kannske einna skýrasta dæmið um þá gjá sem hér hefur myndast að fulltrúar Alþýðusambands Íslands og BSRB drógu sig út úr sexmannanefndinni, verðlagningarnefndinni, og hafa ekki stigið fæti sínum þar inn aftur. Ég vil lýsa þeirri von minni að lokum að þetta frv. verði þó skref í átt til að bæta samvinnu neytenda og bænda. Þó svo að ýmis ljóður sé á ráði þessa frv. er það skref í rétta átt. Í mínum huga eru þó eftir, þrátt fyrir samþykki þess, ýmis atriði sem krefjast endurskoðunar, eins og raunar fleiri hafa bent á í þessum umr., en til þess mun gefast tími og tækifæri síðar.