14.06.1985
Neðri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6631 í B-deild Alþingistíðinda. (5955)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin sem mér skilst að séu fyrir hönd viðskrh. og ríkisstj. í heild. Það sem kom fram hjá hæstv. forsrh. var þetta:

Í fyrsta lagi verður niðurgreiðslufé flutt yfir á frumstig af smásölustiginu og flýtt greiðslum á því fé þannig að það komi út fyrir áramótin sem ella hefði verið borgað eftir áramót.

Í öðru lagi er meiningin að viðskiptabankarnir sjái um afganginn og Seðlabankinn hefur verið beðinn um að sjá fyrir þeim fjármunum.

Svona skildi ég svörin. Og hæstv. forsrh. sagði: Þetta verður gert. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem liggur fyrir um að þetta verði gert. En hver borgar? Þetta eru erlendar lántökur, annaðhvort í gegnum Seðlabankann eða þá fyrir ríkissjóð. Þannig stendur þetta dæmi. Þannig er ætlunin að fjármagna með erlendum lánum flýtingu á greiðslu afurðanna. Það er það sem núna liggur fyrir, herra forseti.