14.06.1985
Neðri deild: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6635 í B-deild Alþingistíðinda. (5970)

457. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 1056. Nefndin hefur athugað málið vandlega og mælir meiri hl. hennar með samþykkt þess með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj.

Undir þetta rita Páll Pétursson, Friðrik Sophusson, Þorsteinn Pálsson og Halldór Blöndal.

Þessar brtt. eru ekki mjög stórvægilegar. Í fyrsta lagi orðast 2. gr. svo sem þar segir, að Framkvæmdasjóður annist lántökur innan ramma lánsfjárlaga og annarra laga, eftir því sem við á, milligöngu um lántöku fyrir fjárfestingarlánasjóði og aðra sambærilega aðila sem þess óska.

Við leggjum enn fremur til að forsrh. skipi sjóðnum stjórn þriggja manna til fjögurra ára í senn. Við tökum þarna til tímamörk.

Síðan tökum við ákvæði út úr frv. sem varðaði húseignina að Rauðarárstíg 25. Stjórn Framkvæmdastofnunar hefur það á valdi sínu að láta þessa eignayfirfærslu fara fram án beinna fyrirmæla í lagagrein: Það er vilji meiri hl. nefndarinnar að sú yfirfærsla fari fram og í fullvissu þess að það verði gert leggjum við þetta til.

Herra forseti. Ég vek athygli á því að við höfum flutt brtt. á þskj. 1295 sem varðar gildistökuákvæði þessa frv., þ. e. að lögin öðlist ekki gildi fyrir en 1. okt. 1985. Þessi till. er skrifleg og of seint fram borin og þarfnast afbrigða.