14.06.1985
Efri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6661 í B-deild Alþingistíðinda. (5986)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Landbrh. (Jón Helgason):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær málefnalegu umr. sem hér hafa farið fram. Það var beint til mín nokkrum spurningum, en ég veit ekki hvort ástæða er til að eyða tíma í að svara þegar hv. fyrirspyrjendur eru ekki staddir í salnum.

Fyrsta spurning sem hv. 2. þm. Austurl. lagði fram var þessi: Hvað liggur á? Hann talaði um að það væru kröfur flokkaformanna eða einhverra annarra sem þar lægju á bak við. Í mínum huga er það aðeins eitt sem knýr á. Það er staðan í þessum málum í dag. Ég tel, eins og ég sagði í framsöguræðu minni, að það hafi dregist of lengi að viðurkenna þær staðreyndir sem við okkur blasa og hefði þurft að snúast við fyrr, það megi alls ekki dragast lengur að snúa vörn í sókn.

Það er að mínu mati mikilvægt að niðurgreiðslur séu eins miklar og kostur er. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum fyrir rúmu ári þegar sú krafa kom fram frá aðilum vinnumarkaðarins í sambandi við launasamninga sem þá voru gerðir að draga stórlega úr útflutningsbótum og niðurgreiðslum til ávinnings fyrir aðra. Ég held að það sé þvert á móti hagur þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu að reyna að halda verði á landbúnaðarvörum niðri. En þarna gerðu aðilar vinnumarkaðarins kröfu um að dregið yrði úr útflutningsbótum og niðurgreiðslum um 300 millj. kr. til að auka framlög Tryggingastofnunar. Að vísu var ekki orðið við þessu að fullu. Það var að vísu aukið við framlögin, en niðurgreiðslur lækkaðar um hálfa þessa upphæð. Ég tel að þetta viðhorf, sem virðist vera ríkjandi í þjóðfélaginu, sé rangt og mun leggja áherslu á að þar verði spyrnt við fótum. Það hefur nú verið aukið við niðurgreiðslur frá því sem ákveðið var samkv. fjárlögum. Þar má nefna 40 millj. kr. niðurgreiðslu sem var ákveðin fyrir skömmu og einnig var áburðarverð greitt niður um nokkuð á annað hundrað milljónir sem kemur í veg fyrir hækkun nú og vissulega nýtist öllum neytendum.

Ég vil taka undir það, sem hv. 2. þm. Austurl. sagði, að það fjármagn sem varið er til nýrra búgreina þarf að renna fyrst og fremst til bænda þeirra sem búa í dreifðum byggðum. Vitanlega reynir þá fyrst og fremst á Stofnlánadeild landbúnaðarins, sem sér um þessar Lánveitingar, og ég treysti því og veit það að hún mun hafa þetta atriði í huga.

Hins vegar gegnir öðru máli um þennan atvinnuveg en aðrar búgreinar því að það kemur ekki að sök hvað markaði snertir þó að einhverjir fleiri bætist í hópinn ef þeir hafa sjálfir fjármagn til leita á erlendan markað með afurðirnar.

Hv. 5. landsk. þm. varpaði fram ýmsum spurningum og gagnrýndi þann hátt sem hafður er á verðmætaútreikningi landbúnaðarins, en í frv. er gert ráð fyrir að hann sé algerlega óbreyttur frá því sem viðreisnarstjórnin, Alþfl. og Sjálfstfl., ákvað árið 1960 þegar þessi háttur var upp tekinn.

Ég vil taka undir hans lokaorð um að vissulega er aldrei til góðs að hafa ófrið. En ég vænti þess, eins og kom fram í orðum hv. síðasta ræðumanns, að þegar menn íhuga þetta betur muni þeir verða sáttari við frv. og skilja hver þörf er að það verði að lögum sem fyrst. Ég hef orðið var við það í hópi trúnaðarmanna bændastéttarinnar, og sem hafa kynnt sér málið, að þeir leggja áherslu á að svo verði.

Hv. 8. þm. Reykv. spurði um heildarverðmæti búvöruframleiðslunnar, hvaða upphæðir það væru sem yrði varið á næstu árum til greiðslu með útflutningi og til stuðnings við nýjar búgreinar. Á þessu verðlagsári er gert ráð fyrir að heildarverðmætið. sem þarna er lagt til grundvallar, verði um 6 milljarðar kr. 9% af þeirri upphæð eru 540 millj.

Ég skal svo ekki tefja tímann lengur. Ég hef minnst á þau atriði sem helst var vikið að og tel ekki ástæðu til að fara meira út í það þar sem fáir eru viðstaddir, en vil endurtaka þakkir mínar fyrir málefnalegar umr. og þann áhuga sem hér hefur komið fram á að þetta frv. verði sem best úr garði gert og öllum til góðs.