14.06.1985
Efri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6665 í B-deild Alþingistíðinda. (5990)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Það væri í sjálfu sér innihaldslaus ræða að fara að gagnrýna þetta frv. og tilgang þess á þessu stigi, því að enn er vitanlega ekki fullreynt hver árangur þessa máls verður. En kannske er ástæða til að lýsa ákveðnum áhyggjum ef það mætti þá skoðast sem varnaðarorð, hvort sem þau hafa áhrif á framvindu málsins eða ekki.

Mér finnst afgreiðsla í Sþ. í gær á tillögum BJ um aðstoð við stofnun smáfyrirtækja ekki benda til þess að sá hugur fylgi máli sem hér er í raun að nokkrum hluta lýst í grg. með þessu frv. og ræðu hæstv. forsrh. Ég leyfi mér því að hafa ákveðnar áhyggjur af því að þetta átak eigi ekki eftir að verða sá stuðningur við smáfyrirtæki sem hæstv. forsrh. virðist vonast til. Ég óttast það, vegna þess hvernig þessi skipan er, að þessu fyrirtæki yrði beint að stærri verkefnum og að þau verkefni gætu jafnvel orðið að fjárfestingarslysum eins og t. d. steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki og fleiri góðum dæmum. (RA: Heldur þú að það sé slys?) Það er alveg víst, hv. 3. þm. Norðurl. v. og verður ekki á móti mælt, a. m. k. ekki með rökum.

Ég held að með tilliti til pólitískra aðstæðna á Íslandi, án þess að ég sé að lýsa mig fullkomlega samþykkan þeim, að í þessu tilviki hefði e. t. v. verið skynsamlegra og vænlegra til árangurs að della þessu framlagi annaðhvort á kjördæmi landsins eða þá á ákveðnar þungamiðjur, ákveðna staði þar sem menn sjá mesta nauðsyn þess að örva atvinnulíf, þá með tilliti til byggðastefnunnar, og halda uppi ákveðinni samkeppni innbyrðis milli héraða eða landshluta við nýtingu þessa fjármagns í þeirri von að eitthvað af þessu fé yrði hugsanlega að arðbærum fjárfestingum, og draga úr hættunni af stórum fjárfestingarslysum sem hugsanlega geta hlotist af jafnmiðstýrðu apparati eins og þessu. Því að þó að hér sé um hlutafélag að ræða, þá er allt féð á einni hendi og því gert að þjóna öllu landinu í einu.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín öllu fleiri. Ég tel það helstan ágalla á þessu frv. að það komi ekki að því marki sem unnt hefði verið til móts við sjónarmið minni samfélaga eða hópa hér á landi og samtaka einstaklinga, heldur muni það endanlega þjóna annaðhvort. og það vona ég að verði alls ekki, hagsmunum þeirra stjórnmálamanna sem við völd sitja hverju sinni eða þá hagsmunum stærri aðila og sterkari sem þar með hafa greiðari aðgang að þessu fjármagni heldur en minni aðilar og veikari.