15.06.1985
Neðri deild: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6674 í B-deild Alþingistíðinda. (5994)

457. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Frsm. 1. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Frv. til laga um Framkvæmdasjóð Íslands er eins og kunnugt er hluti af svonefndum þríburum, eða þeim þríhöfða þurs sem var niðurstaða af miklu samningamakki innan stjórnarflokkanna út frí þeirri forsendu að Framkvæmdastofnun Íslands ætti að leggja niður. En í stað þess að hún yrði lögð niður reis hún upp í þreföldu veldi. Þess vegna er það svo að frv. til laga um Framkvæmdasjóð Íslands verður ekki skoðað öðruvísi en í samhengi við hin frv. og þó einkum og sér í lagi það frv. sem varðar Byggðastofnun. Þegar á það er litið er ljóst að hér er ekki um neina raunverulega skipulagsbreytingu að ræða aðra en þá, sem felst í því sem ég minntist á áðan, að auka á yfirstjórn og bákn með því að gera þrennt úr einu, þrefalda stjórn. þrefaldan framkvæmdastjóra og þar fram eftir götunum.

Hlutverk þessa sjóðs hefur, að því er sagt er, verið að hafa milligöngu um lánsfjáröflun fyrst og fremst til annarra sjóða. Þetta hlutverk breytist ekki neitt þótt það frv. sem hér liggur fyrir verði samþykkt og það breytist ekki heldur á þann veg að hlutverk sjóðsins aukist ef svonefnd sjóðafrv. yrðu samþykki. Frekar yrði það á hinn bóginn að hlutverkið mundi minnka. Þegar af þeim sökum er vitaskuld ástæðulaust að hlaða undir sjóðinn eins og hér er gert ráð fyrir, að auka honum sjálfstæði, stjórn, skrifstofubákn og býrókratí. Hér er því greinilega um spor aftur á bak að ræða. Þessi sjóður er einfaldlega af því tagi að vilji menn hafa hann getur hann sem best verið deild í fjmrn. Á þetta bendi ég í nál. mínu.

Ef menn treystust hins vegar ekki til að gera þennan sjóð að deild í fjmrn. er til önnur stofnun þar sem nóg húspláss er. Þar mætti líka hýsa þennan sjóð og væri ekkert því til fyrirstöðu að hann gæti verið deild þar ef of þröngt væri í fjmrn. Sú stofnun sem ég á við er vitaskuld Seðlabanki Íslands.

Þannig er það að frv. sem hér liggur fyrir er greinilega spor aftur á bak og horfir ekki til einföldunar. Það gerir hlutina flóknari á sama tíma og það liggur ljóst fyrir að hinar einfaldari lausnir eru mjög fýsilegar svo framarlega sem menn telja að þessi sjóður eigi að vera fyrir hendi. Hinar einföldu lausnir eru þær að þessi sjóður sé vistaður annaðhvort í fjmrn. eða Seðlabanka og hallast ég þó frekar að því að hann eigi að vera í fjmrn. Ég sagði: ef menn treystast ekki til að leggja þennan sjóð niður. Sjóðurinn hefur að sjálfsögðu ýmsar skuldbindingar sem hann hefur undirgengist og þess vegna er ekki eins einfalt og að segja það að leggja sjóðinn niður. Á hinn bóginn gætu menn hugsað sér að hann hætti lántökum. En þá kom fram það sjónarmið að sjóðurinn ætti svo mikinn goodwill eins og sagt er, ætti svo mikið lánstraust í útlöndum að það gæti verið nauðsynlegt að halda því til haga og slíkt lánstraust gæti verið Íslendingum brúklegt. Ég er ekki viss um að lánstraust Íslendinga í útlöndum sé orðið þeim brúklegt lengur. Ég held að á undanförnum árum hafi Íslendingar misnotað þetta lánstraust sitt þannig að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar hafi verið stefnt í voða. Í raun hefði okkur verið hollara að hafa ekki notið eins mikils lánstrausts og ekki verið eins lánaglaðir og raun ber vitni.

Ég gerði þessa skuldasöfnun að nokkru umtalsefni við umr. um lánsfjárlög og varaði mjög við henni. Ég vil benda mönnum á að nú berast viðvaranir frá ýmsum alþjóðastofnunum um það hversu tæpt við stöndum, og í hvert óefni stefnir. Nægir í því sambandi að minna á síðustu skýrslu frá OECD þar sem mjög er varað við í þessum efnum. Bent er á að vaxtabyrðin af hinum erlendu skuldum okkar sé orðin svo þung að það muni standa í vegi fyrir hagvexti og batnandi lífskjörum á komandi árum. Vaxtabyrðin er orðin hærri í prósentum af þjóðarframleiðslu en við getum gert ráð fyrir að hagvöxtur verði á næstu árum. Það þýðir vitaskuld að hagvextinum verður ekki varið til bættra lífskjara. Hann verður að fara í það að standa undir vaxtabyrðinni.

Ég nefni þetta vegna þess að það hefur verið talið þessu frv. til gildis að við skyldum halda til haga lánstrausti sem við hugsanlega ættum í gegnum þennan sjóð. Það virðist nú orðið harla varasamt fyrir Íslendinga að njóta þessa lánstrausts eins og þeir hafa misnotað það.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að taka á málefnum Framkvæmdastofnunar Íslands og endurskoða frá grunni hvernig menn haga sjóðakerfinu annars vegar og hins vegar með hvaða hætti menn rækju hér byggðastefnu sem ætti að mínum dómi að einkennast af því að stutt væri við lífvænlega byggð þar sem mögulegt væri og með markvissum hætti. Jafnframt væri mönnum hjálpað til að grisja byggð þar sem það væri óumflýjanlegt. Þetta þyrfti að gera með markvissum hætti.

Þær stofnanir sem uppi hafa verið hafa ekki gert það. Í þeim hefur verið rekin tilviljunarkennd fyrirgreiðslupólitík annars vegar og hins vegar hafa menn setið við skýrsluskriftir og álitsgerðir sem engum hafa verið til gagns og hafa rykfallið uppi á hillum eða niðri í skúffum. Eina gagnið sem menn hafa haft af þeim hefur verið að hafa þær sér til skemmtunar þegar menn hafa sett á blað „selvfølgeligheder“ sem mönnum fannst þeir geta gert að aðhlátursefni.

Fyrirkomulagið sem uppi hefur verið hefur að mínum dómi staðið í vegi fyrir skynsamlegri hagþróun á Íslandi og bættum lífskjörum. Það fyrirkomulag sem við höfum haft á um lántökur erlendis er beinlínis að spilla lífskjörum okkar. Þess vegna er veruleg þörf á uppskurði á þessu öllu saman.

Það sem nú er verið að gera virðast menn telja sér trú um að sé einhvers virði í þeim efnum. En það er rangt. Það er einskis virði. Þetta er yfirklór sem engum árangri skilar. Það versta er þó ekki að menn skuli fara til verka sem litlu breyta og ekkert bæta, heldur hitt að vegna þess að þeir standa í þessu streði með þessar breytingar telja þeir sjálfum sér trú um að þeir hafi unnið eitthvert verk og þeir standa þannig í vegi fyrir því að gengið verði til þeirra verka sem nauðsynleg eru. Það yfirklór sem menn nú standa í verður mönnum afsökun. Menn segjast vera búnir að stokka þetta upp, breyta og bæta þegar það er í raun og sannleika rangt. Þess vegna mun samþykkt þessara frv., þ. á m. þess frv. sem hér er verið að fjalla um, verða til þess að tefja fyrir því að menn framkvæmi þá endurskipulagningu sem nauðsynleg er.

Með tilvísan til þessa, herra forseti, tel ég að fella eigi þetta frv. Það álit kemur fram í mjög stuttu máli í nál. á þskj. 1064. Ég skal ekki rekja það nál. öðruvísi en að lesa niðurlag þess, en það er svona:

„Samþykkt þessa frv. nú tefur vafalaust fyrir því að nauðsynleg skref verði stigin til einföldunar eins og að framan hefur verið lýst.

Undirritaður leggur því til að frv. verði fellt.“