15.06.1985
Neðri deild: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6677 í B-deild Alþingistíðinda. (5995)

457. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Frsm. 3. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. mínu, sem er á þskj. 1089. um frv. til laga um Framkvæmdasjóð Íslands. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Að mati undirritaðs eiga fyrirtæki og aðrir- sem á lánsfé þurfa að halda, að semja um lántökur erlendis sjálfir, beint eða með milligöngu viðskiptabanka. Að þessu leyti er því Framkvæmdasjóður Íslands orðinn óþarfur og mætti fella lagaákvæði um hann úr gildi.

Í grg. með frv. er hins vegar greint frá því að sjóðurinn hafi stofnað til mikilla skuldbindinga erlendis með löngum lánum og ef sjóðurinn yrði formlega lagður niður gæti það valdið óróa hjá lánveitendum sem e. t. v. teldu sér heimilt að gjaldfella lánin nú þegar.

Þótt það sé reyndar skoðun undirritaðs að takmarkalaus rósemi erlendra lánardrottna kunni að reynast Íslendingum dýrkeypt fellst hann á röksemdir í grg. vegna eldri skuldbindinga. Hins vegar telur hann enga ástæðu til að framlengja lántökuhlutverk sjóðsins.

Í brtt. á sérstöku þskj. leggur undirritaður til að sjóðurinn verði færður undir stjórn fjmrn. og gætt verði þeirra skuldbindinga sem þegar hafa verið gerðar en látið af frekari lántökum.“

Herra forseti. Þarna kemur fram meginefni álits míns í þessu máli. Þær brtt. sem ég flyt, eins og ég kem að í nál., eru á þskj. 1090. Aðalatriði þeirra eru:

Í fyrsta lagi legg ég til að Framkvæmdasjóðurinn verði færður undir fjmrh., verði nokkurs konar deild í fjmrn.

Í öðru lagi legg ég megináherslu á að hlutverk Framkvæmdasjóðsins verði héðan í frá einungis að gæta þeirra skuldbindinga sem þegar hafa verið gerðar fyrir hönd sjóðsins. Skv. þeim upplýsingum sem fram komu í nefndinni eru lánin umtalsverð og mörg löng og mörg þeirra á góðum kjörum. Þess vegna er óþarfi að rugga bátnum svo rækilega að órólegir lánveitendur erlendis kynnu að sjá ástæðu til að segja þessum lánum upp og þau yrði þá að endurnýja á öðrum og verri kjörum. Þess vegna leggur undirritaður til að sjóðurinn fái að starfa áfram sem nokkurs konar umsjónarkontór með þeim lánasamningum og lánum sem þegar hafa verið tekin, en að endir sé bundinn á lántökuhlutverk hans. Mér sýnist framganga Íslendinga í lántökum vera þess eðlis að ekki þurfi sérstaklega að óttast að okkur bresti lántökugetu til góðra verka í framtíðinni þó að einn sjóðurinn hérlendis sé sviptur réttindum til þeirra starfa.

Eins og fram kemur framar í nál. tel ég rétt að vinna við lántökur og samningar um þær færist á hendur þeirra sem hafa þar sambönd og væntanlega sérþekkingu, en það ættu að verða viðskiptabankarnir ef þeir hafa þá þekkingu ekki nú þegar. Því legg ég til að Framkvæmdasjóður Íslands verði héðan í frá einungis gæsluaðili fyrir þær skuldbindingar sem þegar hafa verið gerðar og að hann fái skrifborðshorn hjá hæstv. fjmrh. til að sinna þeirri gæslu uns yfir lýkur. Legg ég þar með til að þegar greitt hefur verið af síðasta láninu í vörslu þessa sjóðs hætti hann starfsemi sinni.

Ég held að það sé óþarfi og óráðlegt að gera ráð fyrir lántökuhlutverki sjóðsins áfram eins og gert er í þessu stjórnarfrv., vegna þess að það þýðir að við framlengjum tilvist hans í það óendanlega þar sem hann getur þess vegna haldið áfram að taka lán og þá þarf hann sífellt að vera til því einhver þarf að gæta þessara lána.

Ég held þess vegna að rétt sé að fara þá leið sem ég hef lagt til í brtt. mínum.

Ég ætla að láta mér nægja í þessari umferð að gera á þennan hátt almenna grein fyrir brtt., en mun síðan taka þátt í frekari umr. um þetta mál þegar fleiri sjónarmið — þá á ég við sjónarmið ráðh. og aðstandenda frv. — hafa komið fram.