18.06.1985
Sameinað þing: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6694 í B-deild Alþingistíðinda. (6001)

508. mál, Íslandssiglingar Rainbow Navigation

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur greint frá fyrirspurnum er hann ber fram og skýrt ástæðuna fyrir því. Ég ætla í örstuttu máli að leitast við að svara þessum fsp. þótt málið sé á því stigi að eigi sé um fullnaðargrg. að ræða.

Á fundi með utanrrh. Bandaríkjanna, George Shultz, í Lissabon í tengslum við utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins kom fram að utanrrh. Bandaríkjanna lofaði að gera mér grein fyrir því fyrir mánaðarlok hvernig bandarísk stjórnvöld hygðust leggja mál þetta fyrir Bandaríkjaþing til að tryggja viðunandi lausn málsins. Í því felst að málið kemur til kasta Bandaríkjaþings, en það er talið nauðsynlegt af ríkisstjórn Bandaríkjanna þar sem um lagaboð er að ræða, er hv. fyrirspyrjandi vitnaði til, sem tryggir bandarískum skipafélögum einkarétt á flutningum vegna Bandaríkjahers.

Í svari utanrrh. Bandaríkjanna á ég von á að fram komi enn fremur einhverjar vísbendingar um hve langan tíma það taki að fá afgreiðslu Bandaríkjaþings á tillögum Bandaríkjastjórnar þótt þar sé e. t. v. ekki um öruggar eða tæmandi upplýsingar að ræða.

Ég vil taka það fram að ég gerði utanrrh. Bandaríkjanna grein fyrir því að við Íslendingar gætum ekki lengur horft aðgerðarlausir á stöðu mála eins og hún væri um þessar mundir og hefði verið á liðnu ári. Þar væri um að ræða að í skjóli einokunarlaga væri hagsmunum Íslendinga stórlega misboðið og skipaferðum milli Norður-Ameríku og Íslands stofnað í verulega hættu sem væri í senn varasamt bæði frá sjónarmiði íslenskra og bandarískra hagsmuna.

Í utanrrn. hefur mál þetta verið til meðferðar og m. a. kannaðir ýmsir möguleikar varðandi einhliða aðgerðir Íslendinga í máli þessu ef við fáum ekki viðunandi afgreiðslu málsins af hálfu Bandaríkjamanna.

Ég tel ekki rétt á þessu stigi málsins, meðan mál þetta er á úrslitastigi hjá gagnaðila, að tíunda þær leiðir sem eru nú til athugunar þótt ég hafi að sjálfsögðu gert gagnaðila grein fyrir því að við áskiljum okkur allan rétt til leiðréttinga í máli þessu.