18.06.1985
Sameinað þing: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6696 í B-deild Alþingistíðinda. (6006)

508. mál, Íslandssiglingar Rainbow Navigation

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég á von á að allir Íslendingar standi fast að baki utanrrh. í tilraunum hans til að fá einokunarrétt Bandaríkjamanna afnuminn, einokunarrétt til að flytja vörur hingað fyrir varnarliðið.

Suður á Suðurnesjum var það svo að menn höfðu lengi barist fyrir því að skipafélögin sem fluttu varning fyrir varnarliðið notuðu hafnirnar á Suðurnesjum, einkum í Njarðvík. Íslensku skipafélögin neituðu því alfarið alltaf, en þegar þetta erlenda skip hóf siglingar notaði það höfnina í Njarðvík. Sú gjörð skapar ágæta atvinnu þar syðra. Ég vænti þess, verði af því að Íslendingar fái þessa flutninga aftur í sínar hendur, að íslensku skipafélögin noti þá höfn sem næst er vettvangi. Ég spyr hæstv. utanrrh. hvort hann sé ekki reiðubúinn að beita sér fyrir því að svo verði, vinnist sigur í þessum málum.