18.06.1985
Sameinað þing: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6697 í B-deild Alþingistíðinda. (6008)

508. mál, Íslandssiglingar Rainbow Navigation

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Mál þetta hefur verið rekið af hálfu íslenskra stjórnvalda á þeim grundvelli að í þessum samskiptum og viðskiptum þjóðanna ætti fullt jafnrétti að ríkja og þar af leiðandi frjáls samkeppni.

Varðandi fsp. hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar vil ég taka það fram að ef sá háttur er á hafður hlýtur nálægð hafnar þar sem uppskipun fer fram við þann stað þar sem flutningurinn er notaður að hafa mikið að segja. En umfram það get ég litlu við bætt.

Ég tel að hér sé um lögvarða hagsmuni að ræða af hálfu Íslendinga og í þeim felist ekki að Íslendingar séu háðir dvöl varnarliðsins hér á landi fjárhagslega. Hins vegar hlýtur það að vera eðlilegt skilyrði og krafa okkar, þegar meiri hluti Íslendinga er þeirrar skoðunar að öryggi landsins sé best borgið með varnarsamvinnu við Bandaríkin og vestræn ríki, að slíkt varnarfyrirkomulag raski ekki heldur eðlilegri efnahagsstarfsemi á Íslandi eins og hætta er á að sé um að ræða þegar varnarliðsflutningarnir eru einokaðir og viðkomandi skipafélag geti í skjóli þeirrar einokunar undirboðið almenna flutninga til landsins.

En hér er hvorki staður né stund til að ræða skoðanaágreining okkar hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, hvað þjóni varnar- og öryggishagsmunamálum Íslendinga best.