18.06.1985
Sameinað þing: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6708 í B-deild Alþingistíðinda. (6012)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Nú hefur kvatt sér hljóðs utan dagskrár hv. 10. landsk. þm.

Það er augljóst, af ástæðum sem ekki þarf að rekja hér, að þingið er ekki aflögufært um mikinn tíma til utandagskrárumræðu nú. Þess vegna er utandagskrárumræða leyfð á þeirri forsendu að hún fari ekki fram úr einni klst. Þetta á að vera hægt vegna þess að hv. 10. landsk. þm. hefur tjáð mér að hann muni stilla máli sínu í hóf og það er ekki gert ráð fyrir að viðkomandi ráðh. þurfi að tala lengur en hv. málshefjandi. Því er treyst að aðrir ræðumenn, sem kunna að vera, stilli máli sínu svo í hóf að það megi takast að halda umr. innan þess ramma sem hér hefur verið ákveðinn.