18.06.1985
Sameinað þing: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6719 í B-deild Alþingistíðinda. (6015)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í framhaldi af svari sjútvrh. þykir mér rétt að koma á framfæri nokkrum upplýsingum í þessu mjög mikilvæga máli. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvað stjórnvöld hafi gert til að tryggja að starfsfólk fáist til fiskvinnslunnar. Hæstv. sjútvrh. hefur rakið það allítarlega og ég hygg að engum dyljist að allmikið hefur verið gert. En fleira þarf ef duga skal og sömuleiðis er rétt að spyrja hvað fiskvinnslan sjálf geri til þess að fólk fáist þar til starfa.

Á fundi sem ég sat nýlega með öðrum Vestfjarðaþm. og ýmsum fiskvinnslumönnum af Vestfjörðum komu fram ákaflega fróðlegar upplýsingar sem mér þykir rétt að koma á framfæri.

Á Flateyri var gerð nákvæm mæling á nýtingu í hlutfalli við ormafjölda. Í ljós kom að í marsmánuði var nýtingin yfirleitt á bilinu 50% og rétt rúmlega það þegar ormafjöldi var 2–3 í kg af flaki. En togari þeirra á Flateyri fór nokkrar ferðir í þorsk, sem gekk út úr Breiðafirði, og þá jókst ormafjöldi upp í 8.5 í kg af flaki og allt upp í rúmlega 12 og þá féll nýtingin niður í um það bil 44% þegar ormafjöldi var mestur. Það sýnir sig, án þess að ég lengi umræðurnar með því að telja upp þær mörgu tölur sem eru hér á blaðinu, að svo virðist sem nýtingin sé í beinu hlutfalli við ormafjölda. Þó fellur hún mjög hratt eftir að ormafjöldinn fer yfir 3 og, eins og ég sagði áðan, lækkar um um það bil 11% þegar ormafjöldi er kominn yfir 8–9 orma í kg af flaki. 11% fall í nýtingu er að sjálfsögðu svo mikil blóðtaka fyrir fiskvinnsluna að fiskvinnslumaðurinn sagði að ljóst hefði verið að í raun og veru borgaði sig alls ekki að vinna þennan fisk. Vafalaust er hér um mjög mikið vandamál að ræða.

Samanburður er gerður í skýrslu sem við fengum á þessum fundi við Danmörku og ætla ég aðeins að koma inn á þær tölur. M. a. kemur fram í henni að ormur er ákaflega fátíður í fiski þar og eins og ég mun skýra frá síðar er öll nýting og afkoma frystihúsa í Danmörku stórum betri en hér. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta er í beinum tengslum við selafjöldann. Það er ekki nokkur vafi á því í mínum huga og ég held flestra vísindamanna. Og það er t. d. athyglisvert að mjög lítið er af sel á þeim slóðum sem danskur fiskur kemur frá. Athyglisvert er t. d. að Færeyingar, sem hafa lent í miklu minni vandræðum með orm, hafa kerfisbundið haldið selnum í skefjum. Það er í mínum huga tvímælalaus skylda stjórnvalda að halda selafjölda í skefjum á íslenskum fiskimiðum og við strendur landsins. Því má segja að þarna sé um að ræða eitt verkefni sem að stjórnvöldum snýr.

Í skýrslu þeirra Vestfirðinganna er bent á nokkur önnur atriði, t. d. á fiskverð og að verðmun á slægðum og óslægðum fiski sem að þeirra mati á að vera meiri en nú er. Þeir segja, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðmunur á slægðum fiski og óslægðum verði aukinn. Ljóst er að þegar fiskur er átumikill og hrognafullur er fiskvinnslan að kaupa slóg, innyfli og hrogn á verði stórþorsks.“

Nokkur fiskvinnsluhús, a. m. k. tvö, sem ég þekki á Vestfjörðum, hafa hætt að taka óslægðan línufisk og segja mér að það hafi gerbreytt afkomu í vinnslu á þessum línufiski sem liggur held ég í hlutarins eðli.

Hér segir einnig að meiri munur þurfi að vera á verði smærri fiskjar og stærri og strangari kröfur þurfi að gera til ormafiskjar. Að vísu á að verðfella hann, en því miður er það alls ekki gert í þeim mæli sem ætti að vera á ýmsum stöðum um landið og gæti ég nefnt um það mörg dæmi.

Í þessari skýrslu er, eins og ég sagði áðan, gerður samanburður við dönsk frystihús, sem sjútvrn. hefur gengist fyrir. Kemur í ljós að launakostnaður við hverja unna klukkustund er um það bil 70% hærri í Danmörku en hér á landi. Er hann talinn vera um 4.3 dollarar hér á landi á móti 7.5 dollurum í Danmörku. Jafnframt kemur í ljós að t. d. hjá Dansk Findus eru afköst í 5 punda pakkningar um 20 kg á manntíma en hér 11.4 kg. Reyndar segir í þessari skýrslu að heyrst hafi, ekki er tekið ákveðnar til orða en svo. að í sérhæfðu húsi á Borgundarhólmi séu afköstin 30–35 kg á hvern manntíma í 5 punda pakkningar. Hér eru raktar ýmsar ástæður fyrir þessum gífurlega mun og sú fyrsta er, sem kom mér á óvart, að vélvæðing, sjálfvirkni og skipulag Dana sé a. m. k. einu stigi ef ekki fleiri framar en hjá okkur.

Ég vek athygli á því að um s. l. áramót fól ég Framkvæmdastofnun ríkisins að hefja undirbúning að átaki á þessu sviði í fiskvinnslunni, þ. e. tæknivæðingu með nýjustu tækni o. s. frv. Það er hafið, en það verður að segjast eins og er, a. m. k. er mér tjáð það, að þetta hefur fengið heldur lítinn hljómgrunn hjá fiskvinnslunni sem ekki hefur talið mikla þörf á þessu. Í þeim mjög lauslega útdrætti sem fylgir á þessari athugun hjá Dönum er þó bent á ýmis atriði sem eru langtum lengra komin að þessu leyti en hjá okkur, t. d. flutningskerfi inn í frystiklefa o. s. frv. svo að eitthvað sé nefnt.

Þá segir hér einnig að í Danmörku sé miklu meiri fjöldi aðstoðarfólks við eftirlit og skráningu en hér tíðkast. Þar er meira af þjálfuðu starfsliði sem væntanlega verður ráðin bót á að einhverju leyti með þeim námskeiðum sem nú eru hafin. En, segja þeir, stærsta atriðið er að þar er ákaflega lítill ormur í fiski. Hér segir reyndar: „Ormur í fiskholdi er svo til óþekktur í Danmörku.“

Herra forseti. Mér þótti rétt, án þess að lengja umræður um of um þetta mjög stóra og mikilvæga málefni, að koma þessum upplýsingum á framfæri, sem ég tel ákaflega athyglisverðar og gefa mjög til kynna að ekki aðeins með því að fella gengið er unnt að bæta afkomu fiskvinnslunnar og kannske er það lakasta leiðin. Þegar erlendar skuldir sjávarútvegsins eru orðnar svo miklar eins og við þekkjum, líklega um 85% skulda sjávarútvegsins í heild, og erlendar skuldir þjóðarinnar svo miklar eins og allir þekkja, þá er gengisfelling mjög skammgóður vermir þó að þurfi að gæta þess að gengið sé skynsamlega skráð. Mér sýnist að þær upplýsingar, sem koma m. a. fram í þessu og komu fram hjá hæstv. sjútvrh., gefi til kynna að stærsta átakið sem framundan er í tæknivæðingu og nýsköpun hljóti að vera hjá þessum grundvallaratvinnuvegi okkar og með því megi mjög bæta afkomuna.