18.06.1985
Sameinað þing: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6725 í B-deild Alþingistíðinda. (6019)

Umræður utan dagskrár

Árni Johnsen:

Herra forseti. Hv. þm. Kjartan Ólafsson hefur tekið hér upp allmyndarlega hanskann fyrir atvinnurekendur í sjávarútvegi og er það vel því ekki veitir af að menn leggist á eitt með að opna augu landsmanna fyrir bágri stöðu í sjávarútvegi í heild í landinu í dag, stöðu sem hefur orðið með þeim hætti á löngum tíma, löngu árabili, enda lagði hæstv. sjútvrh. áherslu á hve mikilvægt væri að þarna horfðu menn til allra átta og tækju á eins markvisst og unnt væri.

Mér finnst við hæfi í þessari umr. að taka upp hanskann fyrir fiskverkafólk landsins. Ég hygg að það sem hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði um fiskvinnslu, stöðuna almennt, sé flest satt og rétt þó sumt hafi verið byggt á hæpnum forsendum. En ég vil í stuttu máli víkja að stöðu fiskvinnslufólksins sem vinnur við framleiðsluna.

Það eru u. þ. b. 11 þúsund starfsmenn í fiskvinnslu á Íslandi. Þar af eru 70–75 % konur. Meðallaun í fiski hjá heilsdagsstarfsmönnum liggja í u. þ. b. 20 000 kr. á mánuði yfir s. l. ár og er þá meðtalin næturvinna. bónus og annað sem til fellur með þeim hætti. Þarna er að vísu miðað við að það varð nokkurt stopp á s. l. ári vegna ýmissa ástæðna, en munar ekki miklu í launum. Tímakaupið hjá fiskvinnslufólki í dag er 81.20 kr. Það svarar til 31/4 konfektmola svissneskra. Það segir sína sögu.

Það er, eins og kom fram, mikill fjöldi kvenna í fiskvinnslunni. Það sem hefur kannske helst þótt bæta launin er bónusfyrirkomulagið. Það er talið að bónusfyrirkomulagið í fiskvinnslu hækki laun um 25%–30%. Það er að mínu mati að koma í ljós æ betur að bónusfyrirkomulagið í fiskvinnslu gengur ekki til lengdar. Það gengur ekki vegna þess að vinnan í fiskvinnslunni er svo erfið og svo krefjandi fyrir þá starfsmenn sem þar vinna og bónuskerfið skapar svo mikla pressu og þrýsting á starfsmenn að það er ekki mannsæmandi að mínu mati.

Ég hygg að það fari stöðugt fjölgandi þeim starfskonum í fiskvinnslu sem vilja leggja af bónuskerfið, jafnvel þó þær lækki í launum. Hitt er annað að þetta starfsfólk hefur þjálfað með sér mjög markviss og ákveðin vinnubrögð. Ég held að það hljóti að koma að því að bónusgreiðslurnar reiknist inn í tímakaupið án þess að bónusfyrirkomulagið haldi velli eins og það er í dag.

Starfsfólk í fiskvinnslu er yfir höfuð traust og gott starfsfólk og hlynnt fyrirtækjunum sem það vinnur hjá, enda fara þar hagsmunir saman. Ég held að það komi að því að það verði meira almenn verkstýring fremur en bónusfyrirkomulag sem ræður vinnuhraða í fiskvinnsluhúsunum. Ég held að það sé mannréttindamál og ég held að það sé einnig mikilvægt til þess að við getum byggt áfram upp fiskvinnslu okkar lands sem er kjölfestan í þjóðartekjum okkar.

Á móti er auðvelt að segja að þeim sem ekki standa sig í þeirri vinnu megi víkja úr vinnu. En það fjölmarga dugnaðarfólk sem vinnur í fiskvinnslunni er ekki hægt að keyra til lengdar með slíkum þrýstingi. Það er feikilegt álag sem kemur oft upp í fiskvinnslunni. Sumt óafvitað, þ. e. veiðimennskan gerir ekki alltaf boð á undan sér hvað aflinn er mikill.

Ég vil nefna sem dæmi að fyrir þessa löngu helgi, sem er nýliðin, fékk Íshúsfélag Ísfirðinga 300 tonna afla. Það var ekki skortur á fiski í húsinu. Það var ekki hægt að vinna þennan afla þessa daga og það var kallað að það hefði verið bjargað um 70 tonnum með því að koma þeim í gáma. Þetta er auðvitað mjög slæm staða, en slíkt er alltaf að koma upp. Þetta bætir ekki hráefnið sem er komið á land. Það skapar vandamál fyrir frystihúsið og álag fyrir fiskverkafólkið þegar þarf að sinna svo miklum afla.

Rétt er að vekja í stuttu máli máls á þeim atriðum sem um er að ræða í baráttu fiskverkunarfólks fyrir betri launum.

Í fyrsta lagi er fiskverkafólk í landinu eina starfsfólkið sem hefur óbundinn uppsagnarfrest, þ. e. skv. lögum er eins til þriggja mánaða uppsagnarfrestur miðað við tveggja til fimm ára vinnu, eftir þrjú ár er tveggja mánaða uppsagnarfrestur og eftir fimm ár þrír mánuðir. Að öðru jöfnu, ef fólk kemur ekki til vinnu attur í frystihúsi, eru þessir mánuðir greiddir. Að öðrum kosti er með viku fyrirvara hægt að senda fólk heim kauplaust. Það má kalla það „til geymslu“. Þetta er eina verkafólkið í landinu sem býr við þessa stöðu nú og það gengur ekki. Síðastir voru hafnarverkamenn að fá lausn á þessum málum. Þetta verða menn að horfast í augu við þegar verið er að fjalla um stöðu sjávarútvegsins í landinu í heild.

Ég get nefnt sem dæmi að þrisvar sinnum á sjö mánaða tímabili á síðasta ári og fram í janúar á þessu ári var verkafólki sagt upp í Vestmannaeyjum af ýmsum ástæðum, vinnustöðvunum og fleiri ástæðum. Þessu fylgir auðvitað slíkt óöryggi að ekki er hægt að mæla því bót á neinn hátt. Það þarf að koma málum svo fyrir, eins og kom fram hjá hæstv. sjútvrh., að sjávarútvegurinn, fiskvinnslan, útgerðin og aðrir aðilar, geti með góðu móti boðið fólki upp á annað en slíkt óöryggi sem þessu fylgir.

Það er fjallað um aðstöðuna í fiskverkunarhúsunum í kröfum og stöðubaráttu fiskverkafólks. Víst er aðstaðan mjög mismunandi, en í heildina er hún margfalt verri en í opinbera geiranum, gamaldags og úrelt og ekki boðleg. Það hefur þó lagast mikið á undanförnum árum. Nefna má sem dæmi að aðstaða er til fyrirmyndar í frystihúsum á Akureyri, Ísafirði og ég nefni sem dæmi Hrísey þar sem er sérlega glæsileg aðstaða og til mikillar fyrirmyndar. En þarna er mismunun á milli hins almenna verkafólks í fiskvinnslu sérstaklega og svo í opinberum stofnunum um allt land.

Eitt af því sem fiskverkafólk talar um í sínum kjaramálum er niðurfelling eftirvinnu. Í dag er dagvinna til kl. 5 og eftirvinna á milli 5 og 7 nema á föstudögum, en þá er næturvinna eftir kl. 5. Eftirvinnulaunin eru 40% ofan á dagvinnutaxta og næturvinnulaunin eru 80% ofan á dagvinnutaxta. Það er ein af kröfum þessa fólks að annaðhvort verði um að ræða dagvinnu eða næturvinnu, eftirvinnan falli út. Ég tel það sanngjarnt og hljóti að koma að því. Það er eitt af því sem verður að taka til höndum við og kveða á um til þess hreinlega að ekki fari allt frekar úr böndum í fiskvinnslunni en orðið er.

Það er einnig mikið baráttumál þess mikla fjölda kvenna, um 7 til 8000 kvenna sem eru í fiskvinnslunni, að þær fái að nota nokkra daga af sínum veikindadagarétti til að sinna veikum börnum sínum. Þetta hefur náðst fram í opinberum samningum, m. a. í sveitarfélögum ýmsum. Þetta verður að horfast í augu við því að það verður að vera í taki við rétt annarra launþega. Það er ekki hægt að skilja fiskverkafólk eða verkafólk í verksmiðjum o. s. frv. út undan. Þetta hefur náðst hjá verkafólki á sjúkrahúsum og það er vel.

Í stuttu máli má segja að staðan gagnvart sjávarútveginum sé tilræði við atvinnugreinina. Um leið er hún tilræði við framfarir og möguleika í þessu landi.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson spurði hvernig ætti að bregðast við, sagði að taka yrði stór spor, menn yrðu að þora það. Hann talaði um hækkuð laun, skattaívilnanir. Þetta er auðvelt að leggja á borðið að þurfi að ske. En það þarf að vera samræmi í því og það þarf að nást árangur með samtaka átaki. Ég minni á þáltill. sem ég og fleiri þm. höfum flutt á þessu þingi um menntun fiskvinnslufólks sem reyndar er byrjuð á vegum sjútvrn. En ég tel að þurfi að taka mun fastar á og tengja slíka menntun við skólakerfi landsins til þess hreinlega að efla samúð með fiskvinnslunni í skólakerfi landsins. Þá höfum við flutt þáltill. um átak í markaðsmálum sem er eitt af stærstu málum okkar framtíðar.

Ég held að staða sjávarútvegsins í heild. fiskvinnslu, útgerðar og fiskverkafólks ekki síst, sé þannig að þar sé um að ræða stærsta vandamál þjóðfélagsins, það vandamál sem menn verða að horfast í augu við og taka á sameiginlega. En ástæðan fyrir því að menn veigra sér við að taka fast og ákveðið á í þeim efnum er í stuttu máli sú, að það mun hrikta í þjóðfélaginu, í þjónustugreinunum og öðru, þegar þessi undirstöðuatvinnuvegur, undirstöðuþáttur í okkar þjóðfélagi, þarf að fá það sem honum ber.