18.06.1985
Sameinað þing: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6729 í B-deild Alþingistíðinda. (6022)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla að hefja mál mitt, sem skal vera stutt, á því að þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir hans góða innlegg í þessar umr. og undirtektir við kröfur fiskvinnslufólks.

Hér hef ég í vetur flutt hverja ræðuna á fætur annarri um hið hörmulega ástand sem ríkir í fiskvinnslunni, bæði hjá fiskvinnslufólki og þeim sem reka fiskvinnslu. Ég hef flutt hér frv. og þáltill. um þessi mál. Það hefur verið án nokkurs árangurs. Það sem ekki hefur verið svæft hefur verið vísað frá. Ég ætla ekki að fara að endurtaka þær ræður eða þær lýsingar sem komu fram hjá ýmsum ræðumönnum. Ég vil einungis minna á að fiskvinnsluna flýr hver sem betur getur og sökum fólksfæðar í þessari grein er ekki hægt að fullnægja markaðnum með dýrari og mannfrekari vinnsluumbúðum á þeim mörkuðum sem þýðingarmestir eru, hagkvæmastir og verðið best. Eftir hverjum hef ég þetta? Er þetta ekki bull, stóryrði, úr mér? Efnislegur heimildarmaður er Magnús Gústafsson, forstjóri Coldwater. Menn verða þá að deila við hann ef þeir eru þessu ósammála.

Ég skal draga mál mitt saman, eins og forseti hefur farið fram á. Ég vil þó minna á að frystihús hafa yfir sumarmánuðina yfirleitt verið rekin með skólafólki að verulegu leyti, en nú er svo komið að skólafólk Fest treglega í þessi störf. Ég kannast ekki við þær 16 þús. kr. sem hv. 8. þm. Reykv. talar um fyrir dagvinnu fyrir fiskvinnslufólk. Það er þá þegar þessir samningar hafa verið samþykktir sem það fyrst er.

Á aðalfundi SÍS komu forstöðumenn frystihúsa og kaupfélagsstjórar upp á ræðustólinn hver á fætur öðrum og lýstu þessu ófremdarástandi. Þar kom upp nokkuð sem menn vissu nú reyndar. Og hvað kom upp? Jú, þeir höfðu ákveðna „agenta“ í London og borguðu þeim 50 pund fyrir hverja stúlku sem þeir gætu útvegað til Íslands í fiskvinnslu. Ef „agentarnir“ dygðu ekki nógu vel úti sendu þeir stundum ástralskar eða nýsjálenskar stúlkur, hvort þær þekktu ekki einhverjar vinkonur í London. Kannske verður næsta ráðið í málefnum fiskvinnslufólks að hækka þessa þóknun upp í 75 pund meðan vana íslenska fólkið streymir úr greininni. Ja, því ekki að hækka fyrir „agentana“ og fyrir hverja stúlku sem þær gætu útvegað fengju þeir 75 pund? Þau hafa ekki verið nema 50. Kannske býður ríkisstj. þetta sem aðstoð við sjávarútveginn. Það væri í stíl við annað.

Ég skal taka undir með hæstv. sjútvrh. og staðfesta það, sem hann minntist á, að menntun fiskverkunarfólks er af hinu góða. Það er rétt hjá honum að þetta hefur gengið seint og er þar við fleiri en einn að sakast. En þetta er gott mál og að mínu viti hefur hæstv. sjútvrh. góðan hug og vilja til þess. En það er tímanna tákn í samningum, án þess að ég ætli að fara að þylja þá og þær umræður allar, að þegar kemur að fiskverkunarfólki, og það er þjóðhagslega brennandi nauðsyn á að stöðvaður verði flóttinn úr frystihúsunum eins og allir vita, þá var samningum slitið. Þá var hægt að slíta þeim. Ekkert minnst á það þó að ágætir menn, eins og iðnaðarmenn, uppmælingamenn, hefðu fengið tveggja flokka hækkun í vetur. Ekki til í málinu þó þessir vesalings menn fengju tveggja flokka hækkun að færa það yfir á forríkt fólk, fólkið í fiskvinnslunni. Sýnir þetta ekki það hugarfar og þann skilning sem þarna ríkir?

Hæstv. sjútvrh. kom réttilega inn á það að hugarfarið og tískan í landinu væru ekki sjávarútveginum eða fiskvinnslunni hagstæð. Þetta eru orð að sönnu og mætti utan enda ræða um það. Mér kemur til hugar að núna á vordögum var einhver starfskynning hér í Reykjavík og þar kom kennari og gekk með sín skólabörn í gegnum frystihúsið, skoðaði fiskinn og slorið og próf voru fram undan. Þá beitti hann einni ægilegustu hótun sem hægt er að hóta einu barni: Hann sagði: „Hér lendið þið ef þið standið ykkur ekki vel á prófum.“ Það er sannarlega rétt sem hæstv. sjútvrh. var að segja.

Það er ekki tími til að fara út í fleiri mál. Það væri freistandi að ræða um Danmörku. Verkamannasambandið hefur sent tvo fulltrúa til Danmerkur. Það er rétt sem hæstv. forsrh. sagði því að þeirra umsögn var efnislega sú sama, að við værum komnir aftur úr Dönum í tækni. Hann nefndi ormatínslu og það vandamál sem hún er og ég geri ekki lítið úr því. En ég segi aðeins: Í þessari skýrslu kom fram að sjávarúfvegurinn í Danmörku er ekki ríkisstyrktur og rétt er að geta þess að hluti af honum er seldur til Coldwater á Ameríkumarkað undir íslenskum merkjum. Og hvað kom út úr því? Beint tímakaup er um 205 kr. og með bónus og öðrum greiðslum umreiknað í íslenskar krónur er tímakaup um 260 kr. í dönskum frystihúsum ef reiknað er meðalkaup, þetta eru að vísu mars- og apríl-laun. Ef reiknað er með töxtum í íslenskum frystihúsum og bónus og næturvinnu er meðaltímakaupið 126 á móti 260. Skilja menn nú ekki kennarann sem vildi fræða börnin fyrir prófið? Hér lendið þið ef þið standið ykkur ekki. Skilja menn kannske atvinnurekendur sem slíta samningum vegna þess að það átti að lagfæra fyrir þetta fólk? En grunnatvinnuvegi þjóðarinnar blæðir.